Í Breiðholti, hverfi 111 nánar tiltekið, var tilkynnt um líkamsárás en þar var einstaklingur sagður hafa ráðist á annan vegna langvarandi ágreinings á milli þeirra nágranna.
Í skeyti frá lögreglu nú í morgunsárið kemur fram að lögregla hafi farið á staðinn og róað ástandið. Var lögregluskýrsla rituð vegna málsins.
Í Laugardalnum var ökumaður stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og var hann fluttur á lögreglustöð og látinn laus að lokinni sýnatöku. Farþegi bifreiðarinnar var þó til vandræða og neitaði sá að gefa lögreglu upp nafn og kennitölu þrátt fyrir ítrekuð tækifæri.
Að sögn lögreglu var farþeginn því handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna málsins, en hann mun einnig hafa hrækt á lögreglumann.