Morgunblaðið segir að ríkisstjórnin hafi í raun gert lítið sem ekkert með þær hagræðingartillögur sem hún óskaði eftir frá almenningi. Samráðið sé í sýndarsamráð. Þetta kemur fram í leiðara blaðsins í dag.
„Ríkisstjórnin gat tæpast farið nær því að gera ekkert með hagræðingartillögurnar sem hún óskaði eftir frá almenningi en hún hefur nú gert. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og sérstakur hagræðingarhópur kynntu niðurstöðurnar í fyrradag og þar kom fram að sextíu tillögur af tíu þúsund hefðu verið teknar til greina, eða 0,6%. Það þýðir með öðrum orðum að 99,4% af hugmyndum almennings var hafnað.“
Mogginn bendir jafnframt á að langstærsta sparnaðartillagan, sem tekur yfir 30 milljarða af þeim 71 milljarði sem á að spara á næstu fimm árum, komi beint upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar og hafi því ekkert með samráð við almenning að gera. Segir að þó að vissilega sé æskilegt að spara í opinberum innkaupum þá vanti allar röksemdir fyrir því að ætlaður 2% sparnaður gangi eftir:
„Í niðurstöðum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar er engin röksemdafærsla við þessa tölu, þar segir aðeins að bæta þurfi vinnubrögð við innkaup og að hópurinn telji að „hægt sé að ná 2% hagræðingu með markvissum aðgerðum“. Þarna hefði eins getað staðið 1%, 3% eða 5%, talan virðist úr lausu lofti gripin og til þess ætluð að hækka heildaráformin. Ekki er sannfærandi þegar nær helmingurinn af fremur rýrum sparnaðartillögum stendur á svo veikum grunni.“
Segir að í niðurstöðum hagræðingarhópsins sé að finna kunnuglegar hugmyndir um sameiningu stofnana. Mesta hagræðingin sé hins vegar fólgin í því að leggja niður stofnanir og fækka verkefnum ríkisins í samræmi við það. Í niðurstöðum hagræðingarhópsins er lögð til sameining Samkeppniseftirlits, Fjarskiptastofu, Neytendastofu og Fjölmiðlanefndar. Morgunblaðið leggur hins vegar til að Fjölmiðlanefnd verði lögð niður:
„Eitt augljóst dæmi um ríkisstofnun sem er ekki aðeins óþörf heldur til óþurftar er einmitt Fjölmiðlanefnd. Engin ástæða er til að sameina hana inn í aðrar stofnanir, hana ætti að sjálfsögðu að leggja niður enda hefur hún á þeim rúma áratug síðan hún var sett á laggirnar ekkert gert til gagns fyrir íslenska fjölmiðla en iðulega þvælst fyrir þeim, valdið þeim kostnaði og vegið að frjálsri fjölmiðlun í landinu.
Engar líkur eru hins vegar á að núverandi ríkisstjórn leggi út í svo augljósa hagræðingaraðgerð, þar sem Fjölmiðlanefnd varð til þegar síðasta vinstri stjórn framdi bjölluat í Brussel og vildi aðlagast regluverkinu þar. Þá var sett á laggirnar lítil stofnun sem síðan hefur farið sömu leið og margar aðrar, margfaldast að vöxtum í mannafla og fjárútlátum. Á sama tíma hefur þrengt mjög að einkareknum fjölmiðlum, en Fjölmiðlanefnd lætur sér það í léttu rúmi liggja.“
Í lok leiðarans segir:
„Því miður fór eins og margir óttuðust að sú aðgerð sem kynnt var og fólst í að sækja hugmyndir um hagræðingu til almennings reyndist lítið annað en sýndarmennska. Aðeins örlítið brot af tillögunum er tekið til greina og þar af var megnið þegar á dagskrá stjórnarflokkanna. Ekki er mikið hagræði í æfingu af þessu tagi og hætt við að ef ríkisstjórnin leitar aftur aðstoðar almennings sjái hann ekki ástæðu til að setja mikla vinnu í verkið.“