fbpx
Fimmtudagur 06.mars 2025
Fréttir

Ömmur og afar Bryndísar Klöru stíga fram: „Tímapunktur nauðsynlegra aðgerða er liðinn hjá með skelfilegum afleiðingum“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 6. mars 2025 08:32

Bryndís Klara Birgisdóttir. Mynd: Facebook-síða Lindakirkju.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Samfélaginu ber skylda til að hlusta og tryggja að saga Bryndísar gleymist ekki heldur verði vendipunktur í baráttunni gegn ofbeldi.“

Þetta segja ömmur og afar Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést í kjölfar stunguárásar á menningarnótt í fyrra, í aðsendri grein sem birtist á vef Vísis.

Dagný Hængsdóttir Köhler, amma drengsins sem banaði Bryndísi, steig fram í grein á sama vettvangi á dögunum þar sem hún varpaði ljósi á vanda hans sem hefði verið hægt að taka mun betur á. Sagði hún að betur þurfi að huga að börnum sem upplifa áföll. Í grein sinni sagðist hún ekki vilja draga úr ábyrgð eða afsaka, heldur stuðla að breytingum.

Sjá einnig: Amma drengsins sem banaði Bryndísi Klöru greinir frá áfallasögu hans – „Eftir það var líf hans í frjálsu falli“

Krefst mikils hugrekkis

Ragnheiður Magnúsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Óskar Þór Karlsson og Eiríkur Böðvarsson – ömmur og afar Bryndísar – þakka Dagnýju fyrir samúðarkveðjur hennar og fyrir að stíga fram, sýna hugrekki og standa andspænis þeirri martröð sem mun fylgja fjölskyldu Bryndísar Klöru um ókomna tíð.

„Það krefst mikils hugrekkis af hennar hálfu, sem ömmu gerandans, að segja sína sögu á svo einlægan og opinskáan hátt. Þessi frásögn á rétt á því að heyrast og að baki hverri sögu eru margar hliðar. Umfram allt berum við sem samfélag ábyrgð á að tryggja að umræða leiði til raunverulegra breytinga og bættrar velferðar fyrir öll börn. Dagný á sannarlega skilið lof fyrir sitt framlag til umræðunnar, sem byggt er bæði á persónulegri reynslu hennar og faglegri starfsþekkingu,“ segja þau í grein sinni á Vísi.

Ragnheiður Magnúsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Óskar Þór Karlsson og Eiríkur Böðvarsson skrifa greinina sem birtist á Vísi í morgun.

Þau bæta svo við að gagnvart þeim snúist þessi harmleikur fyrst og fremst um barnabarnið þeirra, Bryndísi Klöru, sem hafi verið elskuð dóttir, systir, frænka og vinkona með bjarta framtíð og óteljandi möguleika í greipum sér.

„Þegar rætt er um þetta mál, má ekki gleymast að ekkert í aðstæðum gerandans breytir þeirri staðreynd að Bryndís Klara var blásaklaus stúlka sem myrt var á ofbeldisfullan hátt. Aðstæður í lífi gerandans eru óviðkomandi arfleifð Bryndísar Klöru og glímunni sem foreldrar hennar þurfa að etja sökum sársaukans, sorgar og söknuðar sem fylgir því að missa barn og framtíðinni með barni sínu,“ segja þau.

Má ekki vera á kostnað þeirra sem þjást

Þá segja þau að þegar samfélagið fjallar um slíkan glæp sé mikilvægt að greina kerfislæga veikleika, benda á þá og krefjast úrbóta.

„Engu að síður má það ekki vera á kostnað þeirra sem þjást í kjölfar glæps. Það er röskun á friðhelgi Bryndísar og okkar sem syrgja hana, að sakhæfur einstaklingur sem tók líf hennar á hrottafenginn hátt og bíður þess að mál hans hljóti meðferð fyrir dómi, fái notið opinberrar rökræðu meðal almennings um hvaða ytri þættir kunni að hafa stuðlað að glæp hans. Þó að mikilvægt sé að fyrirbyggja framtíðarglæpi með umbótum, má slík opinber umræða aldrei verða til þess að draga úr ásýnd ábyrgðar eða réttlátrar meðferðar og útkomu máls.“

Í grein sinni segja þau að í gegnum lífsreynslu þeirra hafi þau séð börn takast á við margvíslegar aðstæður. Sum alist upp við öryggi en önnur búi við skort og óöryggi.

„Þrátt fyrir slíkar áskoranir hafa flest börn burði til að velja lífsleið sem byggir á virðingu fyrir öðrum. Engar félagslegar aðstæður réttlæta ákvörðun sakhæfs einstaklings, þó á barnsaldri sé, að ráðast gegn lífi og heilsu annarra. Þótt umhverfi og uppvöxtur hafi áhrif á einstakling, verður gerandi að gangast við eigin gjörðum. Hugmyndin um að tilteknar aðstæður geri ofbeldi að líklegri afleiðingu, er ekki aðeins röng heldur einnig lítilsvirðing gagnvart þeim sem glímdu við brotna bernsku án þess að hafa beitt aðra ofbeldi.“

Mesta fórn sem brotið samfélag getur goldið

Þá benda þau á að samfélagið beri óumdeilanlega ábyrgð á því að tryggja að börn í viðkvæmri stöðu fái þau úrræði sem þau þurfa til að komast út úr vítahring skorts og vanrækslu.

„Því miður blasir sú hryllilega staðreynd við samfélaginu að tímapunktur nauðsynlegra aðgerða er liðinn hjá með skelfilegum afleiðingum. Morð barns á öðru barni er mesta mögulega fórn sem brotið samfélag getur goldið.“

Í lok greinar sinnar segja þau að réttlæti verði ekki fullnægt nema það nái til þeirra sem þjást mest. Þeim, aðstandendum Bryndísar Klöru, beri skylda til að hrópa eftir réttlæti til handa henni.

„Samfélaginu ber skylda til að hlusta og tryggja að saga Bryndísar gleymist ekki heldur verði vendipunktur í baráttunni gegn ofbeldi. Við hvetjum alla – frá stjórnvöldum til almennings – að grípa til aðgerða: herða löggjöf um ábyrgð foreldra, efla forvarnir og úrræði í skólakerfinu og tryggja að þolendur og börn í vanda fái fullnægjandi vernd og stuðning. Við berum sameiginlega ábyrgð á að byggja upp öruggt samfélag þar sem mannréttindi eru virt og ekkert barn þurfi að óttast um líf sitt heldur geti lifað hér á landi, áhyggjulaust í umhverfi sínu. Ofbeldi gegn börnum verður ekki liðið – ekki nú, ekki síðar, aldrei!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Gjaldþrotaslóð á Akureyri eftir Jóhann og Katrínu – Lýstar kröfur nema um 200 milljónum króna

Gjaldþrotaslóð á Akureyri eftir Jóhann og Katrínu – Lýstar kröfur nema um 200 milljónum króna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ari Trausti með dökka framtíðarspá – „Váin eykst með hverjum áratugi“

Ari Trausti með dökka framtíðarspá – „Váin eykst með hverjum áratugi“
Fréttir
Í gær

Þorsteinn hefur efasemdir um varnarsamninginn og telur að Íslandi geti stafað ógn af Bandaríkjunum

Þorsteinn hefur efasemdir um varnarsamninginn og telur að Íslandi geti stafað ógn af Bandaríkjunum
Fréttir
Í gær

Vance segir að evrópskir leiðtogar segi eitt um Úkraínustríðið opinberlega en allt annað í einkasamtölum – „Þetta getur ekki haldið endalaust áfram“

Vance segir að evrópskir leiðtogar segi eitt um Úkraínustríðið opinberlega en allt annað í einkasamtölum – „Þetta getur ekki haldið endalaust áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mikil veðrabrigði á Akureyri og í næsta nágrenni

Mikil veðrabrigði á Akureyri og í næsta nágrenni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sakfelldur fyrir lyfjastuld

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sakfelldur fyrir lyfjastuld