Læknar í Nepal fundu maðka innan í getnaðarlim og þvagblöðru aldraðs manns. Talið er að mistök við þrif á spítala hafi valdið ormasóttinni.
Greint er frá málinu og rannsókninni sem gerð var í vísindatímaritinu Science Direct.
Maðurinn er 76 ára gamall og býr í Indlandi en uppgötvunin var gerð í heimalandi hans, Nepal. Hann er giftur og starfar sem yfirmaður í verksmiðju. Hann er hins vegar lamaður á annarri hlið og getur illa þrifið sig sjálfur.
Eftir að hann hafði pissað blóði og greftri í fjóra daga leitaði hann á spítala. Læknar sendu þráð með myndavél upp þvagrásina og fundu þá ófögnuðinn. Iðandi maðkar lifðu innan í getnaðarliminum og í þvagblöðrunni.
Maðurinn hafði leitað til lækna tveimur árum áður vegna stækkunnar í blöðruhálskirtli. Þurfti hann meðal annars að fá þvaglegg á þeim tíma. Töldu læknarnir að líklega hefði slæmu hreinlæti á þeim tíma verið um að kenna. Það er þegar þvagleggurinn var settur upp. En sé hreinlætis ekki gætt er hætt við þvagfæra eða blöðrusýkingum.
Maðkar eru samt ekki venjuleg afleiðing þvagfærasýkingar. Aðeins eru til örfá skrásett dæmi um slíkt í heiminum og kallast sýkingin myiasis. Enn þá sjaldgæfara er að slík sýking nái alla leið upp í þvagblöðru.
„Uppgötvun maðka í bæði getnaðarlim og þvagblöðru mannsins er óalgengur og áhyggjuvaldandi atburður,“ segir í lýsingu læknanna sem fundu sýkinguna. En getnaðarlimur mannsins var mjög bólginn og veggir þvagblöðrunnar orðnir þykkir.
Sýkingin myiasis orsakast af möðkum eða lirfum þeirra. Talið er að slæm lykt geti laðað flugur að sem verpa eggjunum sínum sem breytast í lirfur og loks maðka. Maðkarnir grafa sig inn í slímhúðina og éta hana sem veldur bólgum.
Önnur leið er með óhreinum læknabúnaði, sem talið er að hafi gerst í tilfelli þessa manns. Það er að leggurinn hafi ekki verið sótthreinsaður. Það er að egg hafi borist með óhreinum þvaglegg. En þau geta einnig borist með sprautum, klútum eða öðrum búnaði.
„Ef búnaður sem þessi kemst í snertingu við hland eða gröft getur hann laðað að sér kvenkyns flugur sem verpa eggjum,“ segir í rannsókninni.
Fékk maðurinn lyfið ivermectin við ormasýkingunni, lyf sem samsæriskenningafólk hafði mikla trú á í covid faraldrinum. Þvagrásin var einnig sótthreinsuð og maðurinn að lokum umskorinn eftir 11 daga spítalavist.
Eins og áður segir eru tilfelli Myiasis afar sjaldgæf. Um nokkur þeirra er fjallað um í breska blaðinu The Daily Mail.
Eitt slíkt kom upp í Brasilíu þegar 21 árs gamall maður kvartaði yfir blöðru sem hann klæjaði mjög mikið í á enda getnaðarlims síns. Sagðist hann einnig hafa tekið eftir óvanalega mörgum flugum á heimili sínu áður en hann varð fyrir óþægindunum.
Í ljósi þess að maðurinn ungi átti það til að sofa allsber töldu læknarnir að flugurnar hefðu verpt í lim hans.
Annar Brasilíumaður sýkist af myiasis. Hann var 62 ára og starfaði á búgarði þar sem voru húsdýr. Var hann gjarnan í stuttbuxum en engum nærfötum undir þeim.
Að lokum má nefna að ungabarn í Nígeríu greindist með myiasis fyrir tveimur árum síðan. Var barnið með mjög bólginn getnaðarlim og leið miklar kvalir. Á þriðja degi spítalavistar sást maðkur skríða út um liminn.