Helga Þórisdóttir, forsetaframbjóðandi og forstjóri Persónuverndar, og eiginmaður hennar, Theodór Jóhannsson, telja Reykjavíkurborg hafa gengið fram af mikilli hörku gagnvart þeim vegna bílskýlis sem þau segja reist í góðri trú. Jafn framt að málið hafi valdið þeim miklu hugarangri.
Þetta kemur fram í kæru hjónanna sem tekin var fyrir hjá umhverfis og skipulagsráði borgarinnar í gær, miðvikudag.
Eins og DV greindi frá um helgina þá krefst Reykjavíkurborg að hjónin, sem búa í Grundarlandi í Fossvogi, rífi bílskýli sem reist var án leyfis borgaryfirvalda. Bifreiðageymslupláss á lóðinni sé þegar fullnýtt. Lagðar voru á dagsektir, 25 þúsund krónur á dag, sem hjónin fengu hnekkt á meðan málið er í kæruferli hjá Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála.
Hjónin kærðu ákvörðun um að leggja á dagsektir og um fyrirskipun byggingarfulltrúa um að bílskýlið, sem þau reistur árið 2021, verði rifið.
Rekja þau ástæðuna fyrir því að þau hafi reist bílskýlið á sínum tíma. Það er að lóðin sé sérstök að því leiti að á henni sé mikil upphækkun. Keyra hafi þurft upp á 110 sentimetra háan og 4,5 metra langan ramp til að komast inn í bílskúrinn. Þessi rampur hafi verið umtalaður í hverfinu. Vegna slysahættu, hvað varðar hálku og snjó og vegna hæðarmunar, ákváðu Helga og Theodór að loka fyrir aðgengi að bílskúrnum. Hann hafi verið ónothæfur sem bílageymsla við þessar aðstæður.
Árið 2020 upplýstu þau nágranna sína um að þau hygðust reisa bílskýlið og var það samþykkt athugasemdalaust. Var bílskýlið svo reist í apríl og maí árið 2021.
„Bílskýlið settu kærendur því upp í góðri trú um að allt væri í lagi. Fyrir byggingu þess fengu kærendur samþykki allra nágranna í botnlanganum, skýlið er ekki fyrir neinum og fellur vel að næsta umhverfi,“ segir í kærunni.
Kvarta hjónin yfir samskiptum við Reykjavíkurborg í kærunni. Þau hafi til að mynda afhent bréf frá byggingarfulltrúa um að rífa bílskýlið innan 90 daga, ellegar yrðu lagðar á dagsektir. En aðeins tveir dagar voru eftir af andmælarétti þegar þau fengu bréfið í hendur.
Hafi þau leitað leiðbeininga frá borginni hvað hægt væri að gera í þessari stöðu til að skýra betur mál sitt. Töldu þau málið ekki nægilega rannsakað eða rökstutt af hálfu borgarinnar.
Á fundi með skipulags og byggingarfulltrúum Reykjavíkur hafi hjónin ítrekað sérstöðu lóðarinnar og afhent myndir. Fengu þau þau skilaboð að málið yrði kannað með sérfræðingum. En eftir það fengu þau bréf um að ekki yrði fallið frá ákvörðuninni, án þess að frekari rökstuðningur fylgdi erindinu.
Telja þau að ákvörðun borgarinnar brjóti bæði rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og þeim hafi ekki verið veittur andmælaréttur.
„Mál þetta hefur valdið kærendum miklu hugarangri,“ segir í kærunni og ítrekað er að bílskýlið hafi verið reist í góðri trú og að málefnalegum málsástæðum hafi verið komið á framfæri en ekki hlustað á þær. „Framganga Reykjavíkurborgar, eftir að hafa fengið útskýringar um ástæður þess að bílskýlið var reist, hefur einkennst af mikilli hörku. Þar með telja kærendur að reglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar af borginni við meðferð málsins, þá sérstaklega jafnræðisregla hennar og regla um meðalhóf, þar sem mjög íþyngjandi kröfur eru settar á kærendur en ekki á aðra íbúa í hverfinu.“
Vegna hækkunarinnar sé ómögulegt að lóðin geti fallið að gildandi skipulagi. Óskað er eftir því að löglegt leyfi fáist fyrir bílskýlið. Einnig séu kærendur tilbúnir að fjarlægja 5 fermetra kalda reiðhjólageymslu við enda skýlisins ef það breytir niðurstöðu málsins.