Samkvæmt ráðningarsamningi eru laun borgarstjóra 2.628.812 krónur og þar að auki fær hann greiddan fastan starfskostnað að fjárhæð 155.453 krónur. Þá hefur borgarstjóri embættisbifreið til umráða. Þá greindi Vísir frá því í morgun að Heiða fái 229.151 þúsund krónur fyrir að gegna stjórnarformennsku í Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og 854.470 krónur fyrir formennsku í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á því á fundi borgarstjórnar í gær að Heiða væri komin með hærri laun en forsætisráðherra.
Sjónvarps- og fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason deildi frétt um laun Heiðu á Facebook-síðu sína en við færsluna skrifaði hann: „Ekki byrjar það vel.“
Hann bætti svo við í umræðum undir færslunni:
„Þetta ber vott um gríðarlega sjálftöku stjórnmálanna á Íslandi. Laun bæjarstjóra hér eru fráleitlega há, hærri en í stórum borgum erlendis. Borgarstjórinn í Reykjavík veitir forystu vinstri meirihlutasamstarfi sem vill væntanlega bæta kjör þeirra sem berjast í bökkum. Þessi tala er út í hött og móðgandi.“
Ýmsir komu Heiðu þó til varnar í umræðum undir færslu Egils.
Ellen Calmon, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna, er í þeim hópi. Benti hún á að Heiða væri með sömu leið og Einar Þorsteinsson fyrrverandi borgarstjóri var með og hann væri nú á sex mánaða biðlaun þrátt fyrir að hafa sagt upp sjálfur.
„Biðlaunatími hans er nánast jafn langur og starfstími hans sem borgarstjóri. Og ekki man ég eftir að launin hans hafi verið sérstaklega til umræðu þegar hann tók við. Svo er þetta dæmigerð feðraveldisumfjöllun. Konur mega ekki hafa há laun, alls ekki hærri en karlar og ekki mega þær heldur græða á hlutabréfum. Því þá eru þær gráðugar og alls ekki hjartgóðar….eins og feðraveldið vill hafa þetta. Fyrrverandi formaður Sambandsins var einnig bæjarstjóri samtímis svo það sé sagt!“
Ólína Þorvarðardóttir, deildarforseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, tók í svipaðan streng.
„Er hún nokkuð með hærri laun en tíðkast hafa í þessu starfi? Var ekki Einar með þessi laun? Engan hef eg séð ræða hans laun sérstaklega. Verður hann svo ekki á biðlaunum eins og Ragnar Þór og fleiri þótt hann sé líka á launum sem borgarfulltrúi. Væri ekki nær að skoða það?“
Mbl.is gerði málið að umtalsefni í frétt í gærkvöldi og þegar þetta er skrifað hafa yfir 150 athugasemdir verið skrifaðar á Facebook við frétt miðilsins. Þar virðast flestir vera á sama máli um að um mjög há laun sé að ræða.
„Veit ekki hvort ég á áð hlæja eða gráta,“ segir í einni athugasemd. „Nánast ekkert í okkar samfélagi er sjálfbært, nær alltaf eytt um efni fram og flest allt tekið að láni,“ segir í annarri. „Úff. Gott að búa ekki í Reykjavík,“ segir svo í enn annarri.