Kona hafði samband við DV og greindi frá því að hún hefði verið blokkuð í miðju netspjalli á Messenger við sjónvarpsþjónustufyrirtæki. DV hefur skjáskot af samskiptunum en engar illdeilur voru í undanfara blokkunarinnar, konan var einfaldlega að leita sér aðstoðar vegna þess að appið sem hún nýtti til að njóta sjónvarpsefnisins virkaði ekki sem skyldi. Sjónvarpsþjónustan stakk þá upp á að hún minnkaði áskriftina sína, þá myndi appið sem hún notaði virka betur. Sjónvarpsþjónustan var hins vegar ekki til í að lækka hjá henni verðið þó áskriftin minnkaði. Áður hafði verið lagt til að konan fengi sér Apple TV því þá myndu útsendingarnar verði betri.
„Þetta var alltaf að frjósa og vildi ekki virka. Þeir vildu minnka hjá mér pakkann en ekki koma til móts við mig með því að lækka verðið. Svo ég var að spyrja hvort þeir gætu ekki aðstoðað mig þá bara blokkuðu þeir mig. Ég hafði ekki verið að æsa mig, var mjög róleg, samt ekki alveg sátt við að minnka pakkann án þess að verðið væri lækkað, en þeir bara blokkuðu mig.“
Blaðamaður viðurkennir að honum þyki þjónustukvartanir konunnar ekki vera það athyglisverðasta í málinu heldur starfsemin sjálf. Þarna er óþekkt fyrirtæki með litlar sem engar samskiptaupplýsingar að bjóða upp á urmul af sjónvarpsefni sem virðist vera áskriftarskylt hjá öðrum veitum, á mjög lágu verði.
„Ég myndi halda að þetta væri ólöglegt, jú,“ svarar konan aðspurð.
„Þeir vildi minnka pakkann minn og ég átti að kaupa mér Apple TV kubb eða kaupa mér Anroid TV box til að láta þetta virka. Ég vil ekki kaupa svoleiðis, ég er með Android TV, ég er með sjónvarp sem er Android, sem tekur við öllu svona.“
Sem fyrr segir lítur starfsemin ekki út fyrir að vera lögleg. Einu tengliðaupplýsingarnar eru þessi Facebooksíða og netfangið rodrm299@gmail.com. DV sendi fyrirspurn á báða staðina fyrr í dag og spurði bæði um framkomuna við konuna og um hvort starfsemin væri lögleg. Fyrirspurnum hefur ekki verið svarað.
Á Facebook-síðunni eru upplýsingar um hvað er í boði en um er að ræða tvo pakka, annan með erlendu efni eingöngu en hinn með íslensku og erlendu efni.
Fyrir 12 mánaða áskrift að tugþúsundum sjónvarpsstöðva og tugþúsundum bíómynda og þáttasería þarf aðeins að greiða 16.500 krónur. Eftirfarandi upplýsingar eru um þetta á Facebook-síðunni:
„Stóri sjónvarpspakkinn (án íslenskra stöðva)
Tugþúsundir af sjónvarpstöðvum
Tugþúsundir bíómynda og þáttasería
Besti pakkinn í sportið
Eingöngu erlendar stöðvar
Verðskrá:
1 Mánuður 2.000 kr
3 mánuðir 4.500 kr
6 mánuðir 7500 kr
12 mánuðir 12.000 kr
_________________________________________________________
(Stóri Sjónvarpspakkinn með erlendum og íslenskum stöðvum)
Íslenskar stöðvar sem og erlendar á þessum
Tugþúsundir af sjónvarpstöðvum
Tugþúsundir bíómynda og þáttasería
Verðskrá:
1 Mánuður 3.000 kr
3 mánuðir 7.200kr
6 mánuðir 9.750 kr
12 mánuðir 16.500 kr
Hægt að setja upp á boxum/tækjum/tölvum/símum/spjaldtölvum
Sendið okkur skilaboð og við tengjum ykkur“
Sem fyrr segir bendir margt til að ekki sé eiginlegt skráð fyrirtæki að baki starfseminni. Starfsemin heitir einfaldlega „Sjónvarpsþjónusta á netinu – Vefsjónvarp“.
Kynningin er eftirfarandi: „Við erum með allar helstu sjónvarpstöðvar og bíómyndir og þáttaseríur.“
Ekkert símanúmer er skráð, ekkert heimilisfang og engir starfsmenn eða forsvarsmenn eru kynntir til sögunnar.