Mál Finns Ingi Einarssonar sem var sakfelldur á síðasta ári fyrir að nauðga samstarfskonu eiginkonu sinnar verður tekið fyrir í Hæstarétti.
Finnur Ingi var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur en Landsréttur sneri dómnum við og sakfelldi hann.
Landsréttur sagði framburð Finns Inga ótrúverðugan og vísaði til þess að lífsýni úr konunni hefðu fundist á getnaðarlim hans. Var hann dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi.
Landsréttur sneri við sýknudómi og sakfelldi Finn Inga fyrir nauðgun á árshátíð
Beiðni Finns Inga um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar var einkum byggð á þeim ákvæðum laga sem kveða á um að slíkt leyfi skuli vera veitt hafi viðkomandi verið sýknaður í héraðsdómi en sakfelldur í Landsrétti. Lög kveða þó um að leyfið skuli ekki veitt ef Hæstiréttur telji augljóst að áfrýjun muni ekki verða til að breyta dómi Landsréttar. Lögmaður Finns Inga taldi einnig að málið hefði umtalsvert fordæmisgildi um aðferðarfræði Landsréttar við sönnunarmat. Í forsendum héraðsdóms sé að finna ítarlegan rökstuðning fyrir sýknu hans. Þar sé þess meðal annars getið að farið hafi verið í vettvangsgöngu og gögn málsins og rannsókn lögreglu geti ekki leitt til sakfellingar vegna þess vafa sem uppi sé í málinu. Landsréttur hafi hins vegar algerlega litið fram hjá þeim atriðum sem gætu leitt til sýknu. Málið varði verulega hagsmuni Finns Inga og mannréttindi hans.
Í ákvörðun Hæstaréttar segir að þar sem rétturinn telji ekki augljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar sé beiðni um áfrýjun málsins samþykkt.