fbpx
Þriðjudagur 04.mars 2025
Fréttir

Viktoría enn föst í Georgíu – Gunnlaugur sakar ríkislögreglustjóra um ósannindi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 4. mars 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ómerkilegri stofnun en Ríkislögreglustjóri finnst vart á Íslandi. Nýjasta útspil stofnunarinnar er að skrifa ósanna skýrslu um handtöku og brottvísun Viktoríu frá Íslandi,“ segir Gunnlaugur Gestsson, vinur og velgjörðarmaður Viktoríu Floresku, rússneskrar konu sem hafði búið á Íslandi frá því árið 2017, en í desember síðastliðnum var hún handtekin og flutt nauðungarflutningum til Georgíu, en hún hefur engin tengsl við það land. Áfangastaðurinn var í raun heimaland Viktoríu, Rússland, en vegna ótryggs ástands þar var Viktoríu skilin eftir í Georgíu, að sögn Gunnalaugs, í reiðileysi á flugvellinum þar.

Sjá einnig: Viktoría handtekin og fjórir fílefldir lögreglumenn fylgdu henni úr landi – „Þetta er ein besta sál sem ég hef kynnst“

Í gær birtist úrskurður kærunefndar útlendingamála þar sem brottvísun Viktoríu er staðfest. Gunnlaugur segir að í úrskurðinum sé að finna ósannindi frá ríkislögreglustjóra um málið, þar sem því er haldið fram að hún hafi sjálf óskað eftir því að vera flutt til Georgíu. Gunnlaugur skrifar um þetta á Facebook-síðu sinni:

„Embættið heldur því fram að Viktoría hafi sjálf beðið heimferðadeildina HOF að skilja sig eftir í Georgíu, þar sem hún megi dvelja þar tímabundið!

Sannleikurinn er hinsvegar sá að þessi ömurlega og ómerkilega deild HOF yfirgaf hana á flugvellinum algerlega bjargarlausa.

Þessu máli er ekki lokið fyrr en þessir menn sem framkvæmdu þessa ólögmætu aðgerð sæti ábyrgð.

Þeir reyna hinsvegar að klóra í bakkann og hreinlega ljúga þegar Dómsmálaráðuneytið leitaði eftir skýringum þeirra.

Enda kannski ekki skrýtið ef fulltrúar úr ráðuneytinu gáfu fyrirmælin?

Held það sé kominn tími til að umboðsmaður Alþingis skoði þetta sérstaklega.“

Sjá einnig: Viktoría var skilin eftir allslaus í flugstöðinni í Tbilisi – „Hún er peningalaus og kortalaus. Hrædd, kvíðin og ráðþrota“

Gunnlaugur segir um þetta í viðtali við DV:

„Þvílík ósannindi hef ég sjaldan séð og það frá yfirvaldi þ.e. Ríkislögreglustjóra, stofnun sem almenningur á að geta treyst. Þeir sem fylgst hafa með fréttum af þessari atburðarrás sem brottflutningur Viktoriu var, sjá auðvitað í gegnum svona málflutning. Að þessu sögðu þá er ljóst að innan dómsmálaráðuneytisins þar sem kærunefndin hefur aðsetur að ekkert er að marka þessa eftirgrennslan þeirra í þessu máli.“

Er líklega að verða ólögleg í landinu

Viktoría hefur þau einu réttindi í Georgíu að mega dveljast þar sem ferðamaður í 90 daga. Hún hefur allt frá komunni til landsins í desember búið á gistiheimili. Hún veiktist alvarlega þann 13. desember og var flutt á bráðadeild og hefur síðan verið að jafna sig. Núna er 90 daga hámarkið að verða liðið og Viktoría að verða ólögleg í landinu. Algjörlega er óljóst hvað tekur við.

Sjá einnig: Viktoría fékk hjartastopp í Tbilisi og var flutt á bráðadeild – Ríkislögreglustjóri réttlætir aðgerðirnar gegn henni

Gunnlaugur segir:

„Viktoria er að jafna sig eftir meðferð íslenskra yfirvalda, en hún fékk hjartastopp eins og áður kom fram, skömmu eftir að hún var skilin eftir bjargarlaus í Tbilisi, Georgíu. Hún hefur stuðning okkar fjölskyldunnar þar til stjórnvöld heimila henni að koma aftur heim til fjölskyldu sinnar á Íslandi sem hún hefur búið hjá s.l. fjögur ár. Málinu er ekki lokið. Forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir hefur ekki séð sér fært að eiga fund um þetta mál, þar sem réttundi Viktoriu voru fótum troðin. En hún benti á dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra hefur ekki enn sem komið er sinnt beiðni um viðtal og fund um málið.

Því má bæta við að utanríkisráðherra hefur ekki sinnt beiðni um viðtal heldur. En eins og áður hefur fram komið þá sendi ég beiðni til utanríkisráðuneytisins um neyðaraðstoð í desember 2024 þegar ljóst var að Viktoria hefði fengið áfall í framhaldi af þessari ómannúðlegu meðferð íslenskra stjórnvalda. Því var ekki sinnt af hálfu ráðuneytisins.“

Gunnlaugur bætir því við að nú sé hann að kanna hvort Viktoría sé í banni varðandi endurkomu á Schengen-svæðið eins og íslensk yfirvöld hafa fullyrt með óformlegum og óstaðfestum hætti.

„Það sem ég er í rauninni að bíða eftir núna er staðfesting frá Schengen-yfirvöldum.“ Þá kemur í ljós hvort Viktoría er í rauninni í Schengen-banni eða ekki. „Íslensk yfirvöld eiga ekki að geta sett eitthvert fólk á bannlista á Schengen nema það sé þá hreinlega glæpamenn. Ef hún er á bannlista þarf að leita eftir því á hvaða forsendum það er og hvað er skráð í kerfið og svo framvegis.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sérfræðingur segir að svona líti áætlun Pútíns út

Sérfræðingur segir að svona líti áætlun Pútíns út
Fréttir
Í gær

Prófessor segir komið að „endalokum Vesturlanda og jaðarsetningu Evrópu“

Prófessor segir komið að „endalokum Vesturlanda og jaðarsetningu Evrópu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Alcoa varar Trump við þveröfugum áhrifum verndartolla – Gætu kostað 100 þúsund amerísk störf

Alcoa varar Trump við þveröfugum áhrifum verndartolla – Gætu kostað 100 þúsund amerísk störf
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Forstjóri Byggðastofnunar svarar því hvar fólki finnst best að búa

Forstjóri Byggðastofnunar svarar því hvar fólki finnst best að búa