Þorsteinn Kristinsson, doktor í alþjóðastjórnmálum, birtir langa grein á Vísir.is þar sem hann er ofan í saumana á vestrænni samvinnu og niðurbroti hennar.
Telur hann Ísland standa frammi fyrir miklum öryggisógnum. „Öryggi í okkar heimshluta hefur frá lokum seinni heimsstyrjaldar verið tryggt af sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins. Eins og rakið var hér að ofan ríkir hins vegar alger upplausn í því samstarfi í dag, og er margt sem bendir til þess að Bandaríkin séu að draga sig úr vörnum Evrópu til frambúðar,“ skrifar Þorsteinn og nefnir síðan þær margnefndu röksemdir að Bandaríkjamenn hafi sjálfir mikilla hagsmuna að gæta á norðurslóðum sem þeir vilji vernda. En hann bendir á að slíkur áhugi Bandaríkjamanna hafi undanfarið birst í hótunum í garð Dana og Grænlendinga:
„Bent hefur verið á, að þótt Bandaríkin yfirgefi meginland Evrópu, hafi þeir áfram ríka hagsmuni á Norðurslóðum sem þeir vilja verja. Af þessum sökum standi tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna áfram styrkum fótum hvað sem framtíð Atlantshafsbandalagsins líður.
Þetta er vissulega rétt – svo langt sem það nær. Það verður hins vegar ekki framhjá því litið að áhugi Bandaríkjastjórnar á Norðurslóðum hefur undanfarið fyrst og fremst birst með ítrekuðum hótunum um að innlima Grænland með góðu eða illu. Aðspurður segist forseti Bandaríkjanna ekki útiloka beitingu efnahagsþvinganna eða hervalds til að ná því fram. Þetta er gjörsamlega fordæmalaus staða og hefur valdið djúpri krísu í dönskum og grænlenskum stjórnmálum.
„Það sem fyrst og fremst vakir fyrir ríkisstjórn Trump er að tryggja óskoruð yfirráð yfir Norður-Atlantshafi sem verður sífellt mikilvægara svæði eftir því sem siglingaleiðir um Norðurslóðir opnast með hlýnun jarðar. Bandaríski herinn hefur lengi haft viðveru á Grænlandi á grundvelli Atlantshafsbandalagsins og tvíhliða samninga við Danmörku. Forsætisráðherra Danmerkur hefur ítrekað sagt að það sé ekkert því til fyrirstöðu að auka þau umsvif á grundvelli núverandi varnarsamstarfs ríkjanna. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Núverandi varnarsamstarf er eins og fyrr segir í fullkomnu uppnámi að frumkvæði Bandaríkjanna, sem eru að draga sig frá meginlandi Evrópu, og kæra sig ekki um að aðstaða þeirra á Grænlandi byggi á samningum við Danmörku. Hótanir Bandaríkjaforseta um innlimun Grænlands verða að skoðast í þessu ljósi. Það er langt því frá útséð hvar þetta endar. En ef fram fer sem horfir að varnarsamstarf Evrópu og Bandaríkjanna veikist til muna, eða jafnvel rofni alfarið, hlýtur það að teljast að minnsta kosti mögulegt – ef ekki líklegt – að Bandaríkin fylgi eftir hótunum sínum og taki yfir Grænland, jafnvel þó til þess þurfi hótinir, þvinganir eða þaðan af verra.“
Þorsteinn segir að þessi staða sé stórhættuleg fyrir Ísland og veki upp spurningar um varnarsamning okkar við Bandaríkin. Ef Bandaríkjamenn séu tilbúnir að innlima Grænland með hervaldi eða beita til þess viðskiptahótunum þá hljóti að vakna sú spurning hve örugg staða Íslands sé.
„Eins óþægilegt og það kann að hljóma, þá komumst við einfaldlega ekki hjá því velta upp þeirri spurningu af fullri alvöru, hvort Bandaríkjunum í núverandi mynd sé treystandi til að virða fullveldi landsins og sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar.“
Þorsteinn tekur fram að hér sé verið að velta upp verstu mögulegu sviðsmyndinni en ljóst sé að núverandi Bandaríkjaforseti beri litla sem enga virðingu fyrir alþjóðalögum og fullveldi ríkja.
Höfundur vill beina sjónum frá Bandaríkjunum er kemur að öryggishagsmunum og segir í lok greinar sinnar:
„Loks er ljóst að sameinað bandalag Evrópuríkja er það afl sem helst getur varið fullveldi og hagsmuni þjóðarinnar gegn hvers kyns ofríki og kúgunum stórvelda. Það er ákaflega sorglegt að Bandaríkin séu nú í hópi þeirra ríkja sem við gætum þurft að óttast hvað slíkt varðar. Það er engu að síður sá raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir.“
Greinina má lesa hér.