Rúmlega þrítugur maður, Ísak Alexander Einarsson, hefur verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, tolla- og lyfjalagabrot og líkamsárás á tollvörð.
Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að Alexander flutti til landsins yfir þúsund skammta af lyfjum en þessi ákæruliður er orðaður svo:
„Stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa staðið að innflutningi á 471 stykki af Alprazolam Mylan 2 mg (virkt efni alprazólam), 200 stykkjum af læknislyfjum með virka efninu díazepam, 184 stykkjum af OxyContin 80 mg (virkt efni oxýkódon), 326 stykkjum af Rivotril 2 mg (virkt efni klónazepam) og 10 stykkjum af Stilnoct 10 mg (virkt efni zolpidem) ætluðum til dreifingar hér á landi í ágóðaskyni en ávana- og fíknilyfin flutti ákærði til Íslands í farangri sínum þegar hann kom til landsins með flugi OG-601 frá Alicante, Spáni, til Keflavíkurflugavallar.“
Ísak var gripinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með efnin þriðjudaginn 13. febrúar árið 2024. Ákæruliður um tolla- og lyfjalagabrot hljómar eftirfarandi:
„Tolla- og lyfjalagabrot, með því að hafa staðið að innflutningi á 111 stykkjum af lyfinu Quetiapin Actavis 20 mg (virkt efni quetíapín), ætluðum til dreifingar hér á landi í ágóðaskyni en lyfið flutti ákærði til Íslands í farangri sínum þegar hann kom til landsins með flugi OG-601 frá Alicante, Spáni, til Keflavíkurflugavallar án þess að fyrir lægi heildsöluleyfi Lyfjastofnunar, án þess að hafa lyfseðil eða lyfjaávísun fyrir lyfjunum í læknisfræðilegum tilgangi og án þess að gera tollgæslu grein fyrir lyfjunum við komuna til landsins.“
Í þriðja lagi er Ísak síðan ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa kýlt tollvörð sem var við skyldustörf í flugstöðinni, í vinstri síðu með krepptum hnefa, og reynt að bíta hann.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. mars.