fbpx
Þriðjudagur 04.mars 2025
Fréttir

Diljá svarar skammarpistli Bjarna – „Við sungum saman í söng- og leiklistarskóla fyrir tveimur áratugum síðan“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 4. mars 2025 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki missa svefn yfir skamarpistli Bjarna Snæbjörnssonar, leikara, og segist ekki efast um að ásetningur leikarans sé góður. Hann ætti hins vegar að gefa málflutningi þeirra gaum sem hann telur sig eiga litla samleið með og reyna að skilja afstöðu þeirra.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Diljáar Mistar á Vísi sem birtist fyrir stundu en þar svarar þingmaðurinn grein Bjarna þar sem hann sagðist vera ánægður með að hún skyldi tapa kosningu um embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Vakti greinin nokkra athygli en þar gerir Bjarni mikið úr þeim orðum Diljáar Mistar í framboðsræðu sinni að „woke-ið væri búið“. Sagðist Bjarni vera forviða yfir þessum orðum enda ætti Diljá Mist sjálf woke-inu mikið að þakka, meðal annars vegna þess að án þess byggju konur við mun meira félagslegt og lagalegt óréttlæti.

Bjarni ekki gefið henni gaum en hún man vel eftir honum

Þá segir Bjarni í pistli sínum að hann hafi gefið Diljá Mist og verkum hennar lítinn gaum fram að þessu sem Diljá gerir að umtalsefni í svargrein sinni og bendir á að þau hafi átt samleið á árum áður.

„Gott og vel. Ég hef fylgst ágætlega vel með Bjarna frá því við sungum saman í söng- og leiklistarskóla fyrir tveimur áratugum síðan, eða svo, og hef haft gaman af framlagi hans. Og ég reyni að fylgjast vel með allri þjóðfélagsumræðu, líka þeirri sem ég á ekki endilega „samleið með“, svo ég noti orð Bjarna sjálfs,“ skrifar Diljá Mist.

Hún gefur lítið fyrir upprifjun Bjarna á eldri merkingu woke-hugtaksins og telur hann hafa vitað að hún væri að vísa í nýlegri notkun á hugtakinu.

„ú notkun og þróun á hugtakinu hefur einkennst af mikilli fórnarlambamenningu og lýst jafnvel minnstu frávikum sem samfélagslegu óréttlæti sem kallar fram móðgunarbylgju. Það sem upphaflega var göfugt og mikilvægt markmið um að fólk væri vók (vakandi?, athugult?) fyrir óréttlæti og mismunun, fór því að snúast um „þvælu og [hálfkveðnar vísur]“, svo ég vitni í sjálfa mig,“ skrifar þingmaðurinn.

Þá segir hún að ef Bjarni fylgdist betur með fólki sem hann er ekki að öllu leyti sammála þá vissi hann vel að hún væri vel meðvituð um stöðu kvenna og annarra hópa sem hafa þurft að berjast fyrir jöfnum rétti.

Orðræða sem ali á sundrung og skautun í samfélaginu

„Raunar hef ég bæði skrifað og talað mikið um það gegnum árin. Þar hef ég m.a. rifjað upp það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum og öðrum mannréttindamálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega verið burðarstoð við að skapa hér samfélag sem hefur jöfnustu tækifærin, með mesta kynjajafnréttið og mestu atvinnuþátttöku kvenna í heimi, svo eitthvað sé nefnt. Ef Bjarni vill kalla Sjálfstæðisflokkinn vók fyrir vikið þá missi ég ekki svefn yfir því. Enda reyni ég að vera umburðarlynd manneskja. Reyndar hófst jafnréttisbarátta kvenna ekki í byrjun síðustu aldar heldur mun fyrr. Og hún var heldur ekki borin upp af móðgunargjörnum vinstrimönnum, hvorki hér eða annars staðar,“ skrifar Diljá Mist.

Þá segist hún einnig hafa tjáð sig ítrekað um upphrópanir og stimpla fólks sem telur sig boðbera samheldni og náungakærleika.

„Ég er þeirrar skoðunar að slík orðræða, þetta „við“ og „þau“ sé einmitt til þess fallin að skapa „sundrung og tortryggni“ og skautun í samfélaginu. Fyrir utan hvað mér þykir þetta yfirmáta leiðinleg orðræða. En ég ætla Bjarna ekki vondan ásetning, heldur tel ég einmitt að ásetningurinn sé líklegast góður. Og skora á hann að láta sig áfram samfélagið sitt varða eins og ég hef gert frá unga aldri. Þar gæti Bjarni e.t.v. byrjað á því að hlusta meira og reyna að skilja þá sem hann hefur fyrirfram flokkað sem svo að hann eigi „litla samleið með“. Það er mun líklegra til árangurs til að viðhalda hér opnu, frjálsu og umburðarlyndu samfélagi.“

Hér má lesa svargrein Diljáar Mistar í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Erlendum sjómanni bjargað úr sjálfheldu úr hlíðum Hólmatinds

Erlendum sjómanni bjargað úr sjálfheldu úr hlíðum Hólmatinds
Fréttir
Í gær

Þetta telur réttarmeinafræðingur að sé skýringin á dularfullum andlátum Gene Hackman og Betsy Arakawa

Þetta telur réttarmeinafræðingur að sé skýringin á dularfullum andlátum Gene Hackman og Betsy Arakawa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Forstjóri Byggðastofnunar svarar því hvar fólki finnst best að búa

Forstjóri Byggðastofnunar svarar því hvar fólki finnst best að búa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dilja Mist segir skoðanir sínar umbúðalaust í 3 mínútur

Dilja Mist segir skoðanir sínar umbúðalaust í 3 mínútur