fbpx
Miðvikudagur 02.apríl 2025
Fréttir

Varstu að hugsa um að kaupa allar raðirnar í Lottó? – Þá erum við með slæmar fréttir

Ritstjórn DV
Mánudaginn 31. mars 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkur umræða skapaðist í Facebook-hópnum Fjármálatips í gær þegar aðili benti á í nafnlausri færslu að það kostaði um 127 milljónir króna að kaupa allar mögulegar raðir í Lottó næstkomandi laugardag en fyrsti vinningur stefnir í 160 milljónir. Það gæti því orðið um nokkuð mikla ávöxtun að ræða ef svo ólíklega vildi til að einhver væri í þeim hugleiðingum en það er hins vegar ekki mögulegt þar sem takmörk eru á því hversu margar raðir er hægt að kaupa í einu.

Tölur í Lottó eru frá 1-42 og eins flest eflaust vita eru dregnar út fimm tölur, auk bónustölu, og þarf að hafa þessar fimm tölur í röð á þátttökumiða til að hljóta fyrsta vinning. Til að reikna út fjölda mögulegra fimm talna raða, með þessum tölum, margföldum við fimm hæstu tölurnar (42, 41, 40, 39, 38) þar sem 42 möguleikar eru á hvaða tala er á fyrstu kúlu sem er dregin út, 41 á hvaða tala kemur næst upp, og svo framvegis. Það skiptir ekki máli í hvaða röð tölurnar eru en möguleikar á mismunandi röð tiltekinna talna í 5 tölu röð eru 120 (5*4*3*2*1). Þar af leiðandi þarf að reikna út fjölda mögulegra raða í Lottó með því að deila margfeldi 42,41,40,39 og 38 með 120. Það þýðir að fjöldi mögulegra raða í lottó er 850.668.

Hver röð kostar 150 krónur og því myndi kosta 127.600.200 krónur að kaupa allar mögulegar raðir. Það þýðir að kaupi maður þær allar og vinningurinn væri 160 milljónir þá myndu samt rétt rúmlega 33 milljónir bætast við sem verður að teljast fín ávöxtun en málið er ekki svona einfalt.

Hámarkið

Í svörum við skriflegri fyrirspurn DV staðfestir Pétur Hrafn Sigurðsson upplýsingafulltrúi Íslenskar getspár sem hefur Lottóið á sínum snærum að starfsfólk félagsins hafi orðið vart við færsluna um hvað allar raðirnar í Lottó kosti. Hann staðfestir einnig að starfsfólkið sé fyllilega meðvitað um hver upphæðin er.

DV spurði því næst ef einhver hefði áhuga á að kaupa allar mögulegar raðir í Lottó og borga fullt verð fyrir hvort viðkomandi gæti komið á skrifstofu Íslenkrar getspár og gengið frá því þar eða hvort sú manneskja yrði að handvelja hverja einustu röð á lotto.is.

Í svörum Péturs kemur hins vegar fram að það sé ekki í boði:

„Nei, það er ekki hægt að kaupa allar mögulegar raðir í Lottóinu á einn miða. Stærsti miðinn sem hægt er að kaupa er kerfismiði með 10 tölum sem samsvarar 252 lottóröðum sem kosta þá 37.800 krónur. Viðkomandi yrði því að handvelja.“

Nýtt met

Eins og áður segir stefnir í að fyrsti vinningur í Lottó á laugardaginn verði 160 milljónir króna. Aðspurður staðfestir Pétur að það yrði nýtt met í sögu Lottósins:

„Það stefnir í hæsta pott sögunnar. Fyrra met var áttfaldur pottur árið 2013 sem varð 139 milljónir króna. Tveir vinningshafar skiptu þá með sér vinningsupphæðinni.“

Þess má einnig geta að drög að breyting á reglugerð fyrir talnagetraunir Íslenskrar getspár hefur verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda. Samkvæmt drögunum stendur til að fjölga fjölda kúlna (og þar með talna) í Lottó úr 42 í 45. Það þýðir minni vinningslíkur en einnig að væri leyfilegt að kaupa allar mögulegar raðir myndi það eftir þessa breytingu kosta 183.263.850 króna.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Jón Þór í kjölfar byssuógnar í Grindavík – „Við hlúum að okkar fólki“

Jón Þór í kjölfar byssuógnar í Grindavík – „Við hlúum að okkar fólki“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Óttast að kvika flæði í sprungum undir Grindavík og komi upp þar

Óttast að kvika flæði í sprungum undir Grindavík og komi upp þar
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ný sprunga búin að opnast nær Grindavík

Ný sprunga búin að opnast nær Grindavík
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Notkun á gagnvirkum skjám mun snaraukast

Notkun á gagnvirkum skjám mun snaraukast
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Fengu litla sem enga aðstoð eftir slys: „Kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim“

Fengu litla sem enga aðstoð eftir slys: „Kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Rýming í Bláa lóninu gekk vel

Rýming í Bláa lóninu gekk vel