Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, furðar sig á ummælum forstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á Facebook í gær, en þar fagnaði Þórdís Jóna Sigurðardóttir því að í vikunni verði líklega samþykkt frumvarp um breytingu á lögum um samræmd námsmat. Þórdís segir mikla sátt ríkja um það fyrirkomulag sem þar er lagt til og engir nema „fámennum hópi“ standi stuggur af breytingunum.
Snorri telur ljóst að þarna hafi Þórdís verið að vísa til þeirra sem tala fyrir því að samræmd próf verði tekin upp í grunnskólum að nýju og spyr hvort það sé virkilega svo að sá hópur sé fámennur eða hvort það að vilja samræmd próf geti talist umdeild skoðun. Snorri skrifar í aðsendri grein hjá Vísi:
„Á einhverjum tímapunkti varð það að „umdeildri skoðun“ að vilja samræmd próf í grunnskólum til þess að fá fram áreiðanleg gögn um stöðu íslenskra nemenda.
Grafið hefur verið undan prófunum á fjölbreyttum forsendum og nú er svo komið að fólk kemur sumt til manns og játar í hálfum hljóðum að það vilji samræmd próf.
Margir hefðu til dæmis áhuga á að vita hvar börn þeirra eru stödd í samanburði við önnur börn eða aðra skóla. Það er ekki hægt núna, enda er það ekki raunverulega mælt og það sem þó er mælt er hvergi birt.“
Snorri nefnir að greinilega sé Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hluti af þessum fámenna hóp en Ásgeir hafi nýlega sagt að það sé sjálfsagt að í jafn dýru kerfi og menntakerfinu sé beitt samræmdu mati til að meta árangur. Snorri segir þetta svo enn mikilvægara í ljósi þess að margt bendi til að Ísland sé ekki að ná ásættanlegum árangri í skólakerfinu. Jafnvel yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD hafi brýnt fyrir Íslendingum að innleiða samræmd próf.
Ekki er þingmaðurinn hrifinn af þeim breytingum sem nú stendur til að innleiða. Nú eigi að beita svokölluðum matsferli fyrir nemendur í 4., 6., og 9. bekk en þetta flókna kerfi sé ekki raunverulegt samræmd mat. Auk þess eigi ekki að taka stöðuna á nemendum við lok grunnskólagöngu.
„Eins og málið lítur núna út, er engin minnsta trygging fyrir því að matsferillinn leiði fram raunverulega samanburðarhæf gögn á milli skóla. Öllu heldur óttast margir sérfróðir að svo verði ekki. Það er enda erfitt að átta sig á virkni hins lítt mótaða matsferils á þessu stigi.“
Snorri spyr hver hafi eiginlega kallað eftir þessu matsferli frekar en samræmdum prófum. Hver sé sáttur við þessar breytingar?
„Ekki umræddir foreldrar sem vilja skiljanlegar upplýsingar um námsárangur. Ekki kennarar sem sakna þess margir að sjá hvar nemendurnir eru staddir miðað við önnur börn. Ekki nemendur sem njóta ekki jafnræðis í námi en hafa ekki opinber gögn til að færa sönnur á réttmæta upplifun sína.“
Snorri furðar sig á framsetningu Þórdísar. Hún láti að því liggja að þeir sem vilji samræmdu prófin séu fáir. Eins tali Þórdís eins og þessi matsferill sé í raun samræmt námsmat en samt sé ekki hægt að kalla það réttu nafni.
„Maður furðar sig eilítið á þeirri framsetningu. Hér er talað eins og við séum örlítill grenjandi minnihluti, sem vill skýra stefnu um samræmt námsmat. Svo er ekki. Almenningur vill samræmt námsmat og eins og forstjórinn skrifar sjálfur í sömu færslu: „Börn vilja samræmd próf.“
Annað sem sætir furðu er að viðbrögð talsmanna frumvarpsins við skýrum tillögum um samræmd próf – eru að segja að þetta verði samræmd próf! En „sveigjanleg fyrirlögn fjölbreyttra matstækja“ hljómar því miður ekki í eyrum neins eins og samræmd próf.
Ef nýja kerfið felur í sér raunverulega samræmd próf, hver er þá vandinn við að kveða skýrt á um það í lagatextanum?“
Snorri segir að þeir sem berjist gegn samræmdu prófunum tali eins og þessi próf séu einhvers konar grimmd gagnvart nemendum. Próf geti valdið kvíða og það þurfi að hlífa börnunum frá því. Þingmaðurinn segir þetta ranga nálgun. Frekar þurfi að styrkja nemendur svo þeir geti mætt áskorunum lífsins. Lausnin sé að vinna í kvíðanum en ekki að sleppa nemendum við próf.
„Skólakerfið er í vanda. Annar hver drengur getur ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Stefna síðustu ára hefur ekki reynst vel.
Við megum ekki missa vonina um að hægt sé að snúa þróuninni við í menntakerfinu. Fyrsta skrefið er að horfast í augu við vandann og til þess þurfum við skýr og skiljanleg gögn í rauntíma. Hér gefst tækifæri til að innleiða samræmt mat í grunnskóla sem foreldrar og nemendur geta skilið og treyst. Það virðist ekki standa til að nýta það.“