fbpx
Þriðjudagur 01.apríl 2025
Fréttir

Lærir íslensku með aðstoð gervigreindar

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 30. mars 2025 15:30

Iana

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin moldóvska Iana Faiyad flutti til Íslands fyrir sjö árum og hefur starfað hjá Póstinum í þrjú ár. En ekki nóg með það heldur er Iana svokallaður ofurnotandi í Bara tala, stafrænu íslenskunámi sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni og leggur áherslu á talmál.  Frá því að Iana byrjaði að nota appið til að læra íslensku haustið 2024 hefur hún tekið tæpar 100 klukkustundir af námsefni. Geri aðrir betur.

Iana Faiyad fæddist í Moldóvu og bjó þar til sextán ára aldurs en þá flutti hún til Rúmeníu. Síðan lá leið hennar til Íslands árið 2017 en bróðir hennar hafði flutt hingað nokkru áður. „Hann var ánægður með að búa hér en ég hafði líka lært um Ísland í skólanum og fannst allt mjög framandi og spennandi við landið,“ segir Iana. „Ég nýt þess að búa á Íslandi og að mínu mati eru Íslendingar mun rólegri en fólkið í mínu heimalandi þar sem er meiri samkeppni og asi. Hér eru allir mjög vinalegir og tilbúnir að hjálpa og aðstoða ef eitthvað er.“

Frábær leið til að auka orðaforðann

Iana hóf störf hjá Póstinum fyrir þremur árum síðan og segist mjög ánægð í starfi. „Það er gaman að vinna hjá svona fjölþjóðlegu fyrirtæki og mér líður vel hér. Ég hef nóg að gera í vinnunni alla daga en starfsandinn er góður og því er maður ekki of þreyttur þegar heim er komið eftir vinnudaginn.“

Eftir vinnu hefur Iana lagt sig fram við íslenskunámið með Bara tala og staðið sig með eindæmum vel í því en hún segist þó vera staðráðin í að ná enn betri tökum á málinu. Hvað skyldi það vera við smáforritið sem drífur hana svona áfram í íslenskunáminu? „Hugmyndin á bak við appið er mjög áhugaverð og það hvetur mann áfram í að læra fleiri orð; jafnvel þótt maður viti ekki enn hvernig eigi að nota þau eða setja þau saman í setningu, þá eykur þetta orðaforðann til muna. Það sameinar líka hljóð og sjónræna þætti þannig að maður heyrir hvernig ákveðið orð hljómar og sér um leið mynd sem táknar merkingu orðsins og svo sér maður líka hvernig það er skrifað. Það finnst mér alveg frábært því maður leggur ekki bara merkingu orðsins á minnið heldur tengir það mynd í huganum og þannig verður auðveldara að muna það.“

Spurð hvort sér hafi fundist erfitt að byrja að læra íslenskuna í gegnum app svarar Iana brosandi að það hafi kannski verið dálítið erfitt í fyrstu. „Maður er að nota orð sem maður er bara nýbúinn að læra eða hefur jafnvel aldrei séð áður. En með tímanum verður þetta auðveldara. Svo er frábært að maður er ekki undir neinni tímapressu heldur getur maður lært á sínum eigin hraða og fylgst með árangrinum. Það finnst mér hvetja mig til að halda áfram og gera alltaf betur.“

Farin að biðja fólk um að tala íslensku við sig

Iana segir að sér finnist það einnig viss kostur að læra íslenskuna ein með sjálfri sér í gegnum forritið. „Þótt mannleg samskipti séu auðvitað nauðsynleg og hjálpi til við að tala málið getur það líka verið mjög þreytandi í byrjun þegar maður er rétt að byrja að byggja upp orðaforða. Mér finnst gott að hafa getað lært orðin fyrst áður og farið svo að nota þau í samskiptum. Þá er maður aðeins búinn að æfa sig í að beygja þau og nota þau til að mynda setningar.“

Er samstarfsfólk þitt duglegt að tala við þig á íslensku?

„Ég treysti mér ekki til að tala mikið við aðra á íslensku, þar sem ég næ ekki að halda í við hraðann þegar þau tala. Ef ég á að svara alveg heiðarlega þá tala ég bara íslensku við einn samstarfsmann þar sem hann er mjög þolinmóður og talar hægt svo ég á auðveldara með að skilja hann. Við erum bæði undrandi á því hvað ég get sett saman orð vel ef ég hef nægan tíma til að hugsa. Hann leiðréttir mig líka þegar þess þarf, sem er mjög gott. Ég er samt viss um að það muni lagast heilmikið þegar ég verð búin að æfa mig meira í málinu.“

Iana segist þó vera farin að biðja fólk um að tala við sig á íslensku þótt hún kjósi frekar að tala ensku sjálf. „En það er gott að heyra hvernig íslenskan hljómar hjá innfæddum og hvernig hún er notuð. Áður hefði ég aldrei þorað að biðja fólk um tala við mig á íslensku! Ég var til dæmis vön því á fundum að fólk talaði frekar ensku svo ég gæti fylgst með því sem var verið að ræða. Ég er líka farin að lesa tölvupósta, og jafnvel svara þeim, á íslensku. Þannig finn ég alveg að ég er farin að skilja miklu meira. Þótt ég nái ekki alltaf að skilja heilar setningar þá er ég farin að þekkja lykilorð sem auðveldar mér að ná aðalatriðunum. Stundum læri ég líka ný orð og jafnvel gömul orð sem eru lítið notuð í dag sem er mjög gaman. Mér finnst líka orðið miklu skemmtilegra að hlusta á útvarp, horfa á auglýsingar og fréttir á íslensku og jafnvel að gera eitthvað jafneinfalt og að fara út í búð. Ég þarf ekki að þýða jafnmörg orð eins og áður því þau eru komin í orðaforðann minn.“

Frábær fyrirmynd fyrir annað starfsfólk hjá Póstinum

Dagmar Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs hjá Póstinum segir það hafa verið gaman að fylgjast með áhuga Iönu á íslenskunáminu. „Iana sat með okkur í undirbúningsnefnd fyrir árshátíð og við fundum fyrir svo miklum áhuga hjá henni að læra íslenskuna og tileinka sér hana. Hún hefur sannarlega sýnt það í verki að hún ætlar sér alla leið enda er  íslenskukunnátta stór liður í því að ná lengra á íslenskum vinnumarkaði og samlagast þeim sem hér búa og starfa. Hún er líka frábær fyrirmynd fyrir annað starfsfólk hjá Póstinum.“

Óhætt er að segja að Pósturinn sé fjölþjóðlegt fyrirtæki en þar starfar starfsfólk frá 34 löndum og 23% starfsfólks eru af erlendu bergi brotin. Þeim sem ekki hafa íslensku að móðurmáli stendur til boða að læra íslensku með Bara tala en námið er unnið eftir samevrópska tungumálarammanum (CEFR) og í samstarfi við hvert og eitt fyrirtæki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Rýming í Bláa lóninu gekk vel

Rýming í Bláa lóninu gekk vel
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Kvikuhlaup hafið á Reykjanesskaga – „Líklegt að eldgos hefjist í kjölfarið“

Kvikuhlaup hafið á Reykjanesskaga – „Líklegt að eldgos hefjist í kjölfarið“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Könnun Icelandair – Mikill meirihluti hefur áhyggjur af gervigreind í ferðaþjónustu

Könnun Icelandair – Mikill meirihluti hefur áhyggjur af gervigreind í ferðaþjónustu
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Varstu að hugsa um að kaupa allar raðirnar í Lottó? – Þá erum við með slæmar fréttir

Varstu að hugsa um að kaupa allar raðirnar í Lottó? – Þá erum við með slæmar fréttir