Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan er snúinn aftur á RÚV eftir hálfs árs frí frá fjölmiðlum. Frá þessu greinir Vísir en í fréttinni kemur fram að Helgi, sem útilokar ekki að hann sé með einhverskonar bakteríu, hafi sótt um og fengið tímabundna ráðningu hjá ríkismiðlinum. Hann muni byrja í afleysingum í fréttatengdum þáttum í útvarpi og mögulega í framhaldinu taka að sér verkefni fyrir sjónvarpið. Það hafi aldrei verið á döfinni að hætta í fjölmiðlum en Helgi tók að sér verkefni fyrir Rauða krossinn á Íslandi eftir að hafa hætt á Heimildinni seint á síðasta ári.
Helgi er einn þekktasti fjölmiðlamaður þjóðarinnar eftir störf sín hjá RÚV og margverðlaunaður í faginu. Auk þess að starfa fyrir ríkismiðilinn hefur hann einnig starfað á DV, Talstöðinni, NFS og nú síðast Heimildinni.