„Evrópa, þar á meðal Þýskaland, á að verða „óháð Bandaríkjunum“, sagði hann að kvöldi 23. febrúar, þegar kosið var til þings í Þýskalandi og ljóst var að allt stefndi í að hann verði kanslari.
Hann steig þar með inn í hlutverkið sem einn mikilvægasti pólitíski leiðtoginn í Evrópu á tímum þar sem heimsmyndin, eins og við þekkjum hana, er í upplausn.
„Mér hefði aldrei dottið í hug að ég ætti eftir að segja eitthvað þessu líkt í sjónvarpinu en eftir ummæli Donald Trump í síðustu viku er ljóst að Bandaríkjamenn, að minnsta kosti bandaríska ríkisstjórnin, er nokkurn veginn alveg sama um örlög Evrópu,“ sagði hann í beinni sjónvarpsútsendingu.
Fyrir nokkrum vikum hefði líklega engum manni dottið í hug að ummæli af þessu tagi kæmu frá verðandi kanslara Þýskalands.
Þeir sem þekkja til þýskrar sögu vita að Bandaríkin hafa verið náið bandalagsríki landsins áratugum saman. Það skýrir af hverju árásir Trump og J.D. Vance, varaforseta hans, á gömul evrópsk bandalagsríki Bandaríkjanna og skortur á tryggingum fyrir því að Bandaríkin ábyrgist öryggi Evrópu, séu Þjóðverjum mikið áfall.
Það voru Bandaríkin sem voru í lykilhlutverki eftir síðari heimsstyrjöldina við uppbyggingu Þýskalands og innleiðingu lýðræðis. Vestur-Þýskaland var mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna á tímum kalda stríðsins og Bandaríkin eru enn með 35.000 hermenn í Þýskalandi. En hvort þeir verða þar áfram og svona margir, er alls óvíst því Trump hefur sagt að hann hafi í hyggju að fækka bandarískum hermönnum í Evrópu.
Telja má víst að atburðir helgarinnar í Hvíta húsinu, þar sem Trump og Vance virtust staðráðnir í að reyna að lítillækka Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu, styrki Merz og aðra evrópska leiðtoga enn frekar í þeirri skoðun að tími sé kominn til að sætta sig við að ekki sé hægt að treysta á Bandaríkin lengur sem leiðtoga frjálsra ríkja heimsins.