Jarðskjálfti af stærðinni 7,7 reið yfir í Mjanmar í morgun og fundu íbúar í Taílandi einnig vel fyrir skjálftanum. Í Bangkok léku byggingar á reiðiskjálfi og hrundi eitt háhýsi sem var í byggingu til grunna eins og myndbandið hér að neðan ber með sér.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Bangkok vegna ástandsins en skemmdir eru sagðar hafa orðið á mörgum byggingum og innviðum. Eftirskjálfti af stærðinni 6,4 reið yfir tólf mínútum eftir stóra skjálftann.
Moska í borginni Mandalay í Mjanmar, skammt frá upptökum skjálftans, hrundi til grunna og eru að minnsta kosti tíu einstaklingar sagðir hafa látist.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í höfuðborg landsins, Naypyidaw, og er óttast að þar hafi margir látist.