Fréttastofa RÚV hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir fréttaflutning sinn af málefnum Ásthildar Lóu Þórsdóttur sem sagði af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir að upp úr krafsinu kom að hún hefði getið barn með 16 ára pilti þegar hún var sjálf komin yfir tvítugt. Viðskiptablaðið hefur verið afar gagnrýnið í gegnum tíðina á bæði vinnubrögð RÚV og tilveru þess yfirhöfuð en ekki í þetta sinn. Í sínum vikulega pistli um fjölmiðla kemur Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, fréttastofunni og Sunnu Karen Sigurþórsdóttir, sem vann fréttina, og flutti hana til varnar.
Örn skrifar:
„Það sem er sérstaklega eftirtektarvert er að hávær hópur karlmanna yfir miðjum aldri hefur risið upp og fordæmt vinnubrögð Sunnu Karenar Sigþórsdóttur og Ríkisútvarpsins. Að mörgu leyti minna þessi viðbrögð á stemninguna, sem nú ríkir á hægri kantinum í bandarískum stjórnmálum. Fjölmiðlar og fjölmiðlafólk er vandamálið. Það er sendiboðinn sem flækist fyrir valdamönnum.“
Örn tekur ekki undir að fréttastofan hafi unnið illa úr þeim upplýsingum sem hún hafði undir höndum og segir málið hafa átt fullt erindi við almenning:
„Það er eðli málsins samvæmt óeðlilegt að fullorðin kona eigi í kynferðislegu sambandi við dreng og það á erindi við almenning verði ráðherra barna- og menntamála uppvís að slíku þó að langt sé um liðið. Það varðar ekki hið löglega eða saknæma, nú eða þá, heldur einmitt hið siðlega og boðlega hjá fulltrúa almannavaldsins.“
Eins og fram hefur komið braut Ásthildur Lóa engin lög sem voru í gildi með sambandi sínu við unga manninn, fyrir hartnær fjórum, áratugum, en Örn telur að gera eigi meiri kröfur til ráðherra en þeir fari bara eftir lögum. Hið löglega sé algert lágmark í samfélagi manna fara eigi eftir hinu siðlega líka.
Örn minnir á að ákvörðun um afsögn Ásthildar Lóu hafi verið tekin áður en fyrsta frétt RÚV af málinu fór í loftið. Hann gagnrýnir Ólaf Þ. Harðarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði fyrir að segja að ásakanirnar á hendur Ásthildi Lóu væru tilhæfulausar og að þær myndu ekki hafa nein áhrif á stjórnarsamstarfið:
„Fjölmiðlarýnir hlakkar til að lesa um vísindalega úttekt á því máli í næsta tölublaði Ritsins – tímariti Hugvísindastofnunar – þar sem færðar eru sönnur á að fjögurra klukkustunda neyðarfundur leiðtoga í stjórnarsamstarfi sem endar með því að ráðherra, sem var einn af sigurvegurum síðustu kosninga, segir af sér, sé ekki til marks um neitt sérstakt og hafi engin áhrif.“
Fleiri hljóta gagnrýni frá Erni fyrir að gera lítið úr gjörðum Ásthildar Lóu og gagnrýna á móti fréttastofu RÚV:
„Út af þessu ógeðfellda máli öllu og pólitískum öngum þess, virðist allt í einu vera orðin hin óvænta meginstraumsskoðun hjá vænum hópi fólks, jafnvel vænsta fólks, að normalísera kynferðissamband fullorðinna við táninga. Verji hið óverjandi. Fyrir því eru þrjár skýringar helstar nefndar: að miðöldum hafi ekki lokið fyrr en 1990, að skrímslastofa Valhallar stjórni RÚV eða að Ásthildur Lóa Þórsdóttir sé framúrskarandi stjórnmálamaður.Vandinn er sá, að jafnvel þó allt væri þetta satt, þá leiðir það ekki af sér að sjálfsagt sé eða ekki í frásögur færandi, að fullorðið fólk liggi með táningum, hvorki nú né 1989. Hvað þá fólk sem hefur helgað sig köllun til barnauppfræðslu.“
Segir Örn að lokum málið allt einkennast af siðspillingu hjá þeim sem verji Ásthildi Lóu og gagnrýni RÚV vegna málsins.