Fréttastofa RÚV hefur gefið út leiðréttingu vegna umfjöllunar Spegilsins um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, en þátturinn fór í loftið skömmu eftir að fyrsta frétt birtist um málið.
„Í inngangi að umfjöllun Spegilsins þar sem rætt var við álitsgjafa um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur fimmtudaginn 20. mars klukkan 18:10 kom fram sú staðhæfing að Ásthildur Lóa hefði átt barn með fimmtán ára pilti, þá 22 ára. Það er rangt.
Hið rétta er að pilturinn var sextán ára og Ásthildur Lóa tuttugu og þriggja ára þegar þau eignuðust barnið eins og kom fram í fréttum RÚV af málinu. Fréttastofa RÚV harmar þessi mistök og biður alla hlutaðeigandi velvirðingar.“
Í inngangi Spegilsins sagði: „Eins og fram kom í fréttum þá eignaðist Ásta Lóa Þórsdóttir, barnamálaráðherra, þá 22 ára gömul, barn með 15 ára pilti sem hún kynntist í unglingastarfi sem hún leiddi. Þetta var fyrir 35 árum, 1990, og það má kannski segja að þetta sé á gráu svæði. Hún var aðeins 22 ára, pilturinn orðinn 15 ára, kynferðislegur lögaldur var 14 ár á þessum tíma en svo er það 198. gr. í kynferðisbrotakafla hegningarlaganna þar sem meðal annars er kveðið á um að hver sá sem misnoti freklega þá aðstöðu að viðkomandi sé skjólstæðingur hans eða hennar í trúnaðarsambandi skuli sæta refsingu og þyngri ef skjólstæðingurinn er undir sjálfræðisaldri. En eins og fram kom í fréttum þá leiddi Ásthildur unglingastarfið í trúarsöfnuðinum sem piltur þessi leitaði til. Þetta með misnotkun og trúnaðarsamband er sem sagt ekki klippt og skorið og hvorki pilturinn né forráðamenn hans kærðu, þetta var allt uppi á borðum á sínum tíma, þótt því hafi kannski ekki verið flaggað sérstaklega og svo virðist sem pilturinn hafi ekki talið á sér brotið hvað þetta snertir og þar að auki væri þetta löngu fyrnt ef svo hefði verið. Og þá kunna einhverjir að spyrja hvers vegna að draga þetta upp núna, 35 árum síðan?“
Svo voru kynnt til leiks stjórnmálafræðingarnir Eva Heiða Önnudóttir og Eiríkur Bergmann Einarsson.
RÚV hefur nú beðist afsökunar á að að hafa farið rangt með aldur málsaðila þegar barnið kom í heiminn. Miðillinn biðst þó ekki afsökunar á þeim vangaveltum sem fylgdu um mögulegt refsinæmi verknaðarins.
DV hefur áður rakið að í upprunalegri umfjöllun RÚV mátti finna vísun til 198. gr. almennra hegningarlaga. Þetta ákvæði var ekki til árin 1989-1990 í þeirri mynd sem það er í dag. Á þeim árum var ákvæðið einkum miðað að þeirri stöðu þegar einstaklingur þvingar aðra manneskju til kynmaka með atvinnulegri eða fjárhagslegri kúgun. Orðalag sem vitnað var til í fyrstu frétt RÚV og síðar sama dag í Speglinum, um trúnaðarsamband, kom ekki inn í lagaákvæðið fyrr en með lagabreytingu árið 1992. Eins var í fyrstu frétt RÚV vísað í orðalag 201. gr. almennra hegningarlaga sem eins hefur farið í gegnum miklar breytingar síðustu 35 árin. Árið 1989 var það kynbundið og gerði aðeins ráð fyrir stúlkubarni sem þolanda og karlmanni, sem jafnframt þurfti að vera kjörfaðir eða fósturfaðir stúlkunnar, sem geranda. Ekki var að finna nokkra vísun í ákvæðinu á þessum tíma til gerenda sem hefði verið trúað fyrir kennslu eða uppeldi þolanda.
Spegillinn tekur eins sérstaklega fram að refsing samkvæmt þessum ákvæðum sé þyngri í tilfelli þar sem þolendur eru ósjálfráða, en barnsfaðir Ásthildar var þó sjálfráða þegar barnið var getið. Umfjöllun Spegilsins gefur enn fremur til kynna að um refsivert brot hafi verið að ræða gegn ólögráða barni með því að taka fram að hvorki pilturinn né forráðamenn hafi kært og að brotið væri í dag löngu fyrnt. Hið rétta er að það er ekki um brot að ræða skv. þeim lögum sem voru gildandi þá.