Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkisstjórnina verða dæmda af verkum sínum. Eitt þeirra sé hvort standa eigi við lokun endurhæfingarinnar Janus eða ekki, en til stendur að loka úrræðinu í júní.
„Þúsundir hafa nú skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að hverfa frá áformum um lokun Janusar. Aðstandendur þessara viðkvæmu ungmenna og þau sjálf hafa reynt mikið vegna fjölþætts vanda sem þau glíma við. Baráttan við kerfið hefur verið þeim þungbær og sum hver hafa loksins fengið úrlausn sinna mála í Janusi; öðlast þar nýtt líf. Ungmenni sem var til viðtals í Kastljósi lýsti því að hafa stigið sín fyrstu skref út úr áralangri og alvarlegri einangrun og aftur út í lífið með aðstoð Janusar.“
Diljá Mist segir í grein sinni að úrræðið sé fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára sem hefur langa sögu um geðræna erfiðleika, en stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að endurnýja ekki þjónustusamning ríkisins við Janus. Um fimmtíu einstaklingar eru nú í endurhæfingu á vegum Janusar og svipaður fjöldi er á biðlista eftir að komast þar að.
„Samkvæmt notendum og aðstandendum þeirra er um lífsnauðsynlegt úrræði að ræða fyrir viðkvæm ungmenni með fjölþættan vanda. Þeir eru því verulega uggandi yfir stöðunni. Hjá Janus hefur þessi hópur fengið einstaklingsmiðaða þjónustu með greiðum aðgangi að fagfólki, þar með talið geðlæknum.“
Diljá Mist rekur að Janus endurhæfingin hefur verið veitt undir hatti Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Með því hefur þjónustan verið kostuð af atvinnulífinu, en framkvæmdastjóri sjóðsins hefur lýst því yfir að viðlíka þjónusta eigi heima í heilbrigðiskerfinu. „Það er óhætt að samsinna því, en lokun Janusar verður hins vegar í hróplegu ósamræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstaka áherslu á að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Niðurskurður á sérhæfðu geðmeðferðarúrræði fyrir ungt fólk sem á í engin önnur hús að venda rímar ekki vel við þau fögru fyrirheit,“ segir Diljá Mist.
„Yfir helmingur notenda Janusar kemst í vinnu, nám eða virka atvinnuleit fyrir tilstilli endurhæfingarinnar. Forstöðulæknir þar hefur lýst því að lokun úrræðisins þýði áralanga afturför fyrir þverfaglega geðendurhæfingu. Það er óásættanleg niðurstaða fyrir þennan gríðarlega viðkvæma hóp í samfélaginu og loðin svör um viðtöl og könnun á framhaldinu eru engin sárabót. Það er til lítils að gefa út háfleygar stefnuyfirlýsingar og setja á oddinn lögfestingu réttindasamnings fólks með fötlun. Ríkisstjórnin verður aðeins dæmd af verkum sínum, verkum eins og þessu.“