Íslenskir og breskir togaraskipstjórar hittust í fyrsta skiptið síðan þeir öttu kappi í þorskastríðunum. Viðurkenndu þeir bresku að hafa notað kartöflur sem vopn.
Í breska ríkissjónvarpinu BBC er greint frá heimsókn íslenskra togaraskipstjóra til borgarinnar Hull á austurströnd Bretlands þar sem er safn um sjómennsku á staðnum. Flestir þeir bresku togarar sem veiddu á Íslandsmiðum á tímum þorskastríðanna komu frá Hull og Grimsby og rétt eins og á Ísland var þar mikið undir í átökunum.
„Við háðum þrjú þorskastríð við Ísland en þegar á hólminn er komið erum við enn þá samherjar,“ sagði Jerry Thompson, safnstjóri og fyrrverandi sjómaður, við tilefnið. Mikilvægt væri að halda minningunum, sögunni og vináttunni á lofti.
Thompson var á togara sem hét CS Forestor. Hann sagði að sjómennirnir hefðu að mestu notað kartöflur sem vopn. Ekki gátu þeir kastað þorskinum í Íslendingana, hann var of verðmætur. Hins vegar gátu þeir ekki kastað öllum kartöflunum, því þá hefðu þeir ekki haft neitt til að borða í túrnum.
Einn Íslendinganna, Helgi Kristjánsson frá Akureyri, sagði að íslensku sjómennirnir hefðu mátt þola mikið en þeir hafi orðið að verja aflann sinn. Sagðist hann vera þakklátur fyrir heimsóknina á safnið.