Inda Björk Eyrbekk Alexandersdóttir segir að Hjörleifur Haukur Guðmundsson, sem allt bendir til að hópur manna sem setið hefur í gæsluvarðhaldi undanfarið hafi orðið að bana fyrr í mánuðinum, hafi aldrei verið bendlaður við barnagirnd. Hinir grunuðu í málinu eru sumir tengdir við svokallaða tálbeituhópa sem hafa gefið sig út fyrir að berjast gegn barnaníðingum.
„Hann var ekki að fara að hitta einhverja stelpu undir lögaldri,“ segir Inda í samtali við DV. Inda telur að sannleikurinn í málinu komi í ljós um síðir en eðlilega haldi lögreglan þétt að sér spilunum á meðan rannsókn stendur yfir.
Inda og Hjörleifur voru vinir um áratugabil en þau sameinuðust í áhuga sínum á vélhjólasporti. Inda kallar Hjörleif Gasa og lýsir honum sem einstökum manni með frábært skopskyn. Í minningargrein í Morgunblaðinu segir Inda:
„Hann Gasi var hrifsaður burt á versta og grimmasta máta sem hægt er að hugsa sér. Hvernig getur maður sætt sig við slík örlög? Af hverju erum við sem getum talist til eðlilegra manna neydd til að búa í samfélagi með fólki sem virðir ekki líf, heilsu og líðan annarra? Hvert erum við komin þegar litla Ísland er ekki lengur öruggt fyrir fólki sem beitir hrottalegu ofbeldi með eins ömurlegum afleiðingum.“
Um skopskyn og karakter vinar síns segir Inda:
„Gasi var gríðarlega skoplegur náungi, málfar hans var óvenjulegt og stundum einungis á færi þeirra sem þekktu hann vel að skilja. Hann var öflugur hjólamaður og lengi öfundaði ég hann af Harley-inum hans sem endurspeglaði eigandann lygilega vel. Hann var hrár, laus við allan íburð og gekk alltaf þótt skrúfur, festingar og pústkerfi hristust af á ferðalögum.“
Inda lýsir því síðan hvernig Gasi stóð þétt við bakið á henni og hennar fólki þegar það þurfti á aðstoð að halda, ekki síst eftir að fyrrverandi eiginmaður hennar lenti í alvarlegu slysi. Segir hún Gasa hafa gert tilveruna örlítið bjartari í öllu myrkrinu sem þá grúfði yfir.
Inda segir Gasa hafa lent í klóm misindisfólks og heilabilun sem hann glímdi við hafi gert hann útsettari fyrir óvönduðu fólki. Minningargrein Indu er áhrifamikil en hún skrifar undir lokin:
„Undanfarin ár glímdi Gasi við erfiða heilabilun sem gerði hann útsettari fyrir klóm misindisfólks sem vildi honum ekkert nema illt, fólks sem virti hann ekki sem manneskju. Ég vildi óska að hann og fólkið hans hefði verið gripið eins og vel og hann greip aðra. Ég vildi óska að við byggjum við öflugra heilbrigðiskerfi sem umvefur viðkvæmt fólk og gætir fyrir hættum heimsins.
Það er mín einlæga ósk að fólk sem villist af leið í lífinu fái nauðsynlega aðstoð því það er samfélagslegur ávinningur sem hlýst af því ef hægt er að sporna markvisst við vaxandi ofbeldishegðun og neyslu hugbreytandi efna. Við sem samfélag verðum að gera betur.“