Meirihluti Kópavogsbæjar hyggst lækka laun bæjarfulltrúa um 10 prósent samkvæmt nýjum tillögum. Minnihlutinn lagði fram sínar eigin tillögur og bendir á að samkvæmt tillögum meirihlutans lækki Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri aðeins um 1,8 prósent í launum.
Að sögn bæjarstjóra er tillaga um lækkun launa bæjarfulltrúa liður í að mæta kostnaðarhækkunum sveitarfélagsins vegna nýrra kjarasamninga við kennara. En áhrif kjarasamningana á bæjarsjóð Kópavogsbæjar eru í kringum 670 milljón krónur umfram það sem fjárhagsáætlun bæjarins gerði ráð fyrir.
Tillögurnar voru gerðar á þriðjudag og lagðar fram á fundi bæjarráðs í gær. Heilt yfir er um að ræða 10 prósent launalækkun bæjarfulltrúa, þeirra sem sitja í bæjarráði, annarra ráða og nefnda bæjarins.
Sem dæmi lækka laun forseta bæjarstjórnar úr 708.762 krónum í 637.886 og laun áheyrnarfulltrúa í nefnd lækkar úr 48.156 krónum í 43.341.
Minnihluti Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vina Kópavogs lagði einnig fram hagræðingartillögur. Í þeim var meðal annars lagt til að laun Ásdísar sjálfrar myndu lækka um 10 prósent eins og bæjarfulltrúa, en í tillögum Ásdísar er lækkun á hennar eigin laun mun lægri. Ásdís Kristjánsdóttir er með 2.741.662 krónur í mánaðarlaun og er á meðal hæst launuðustu bæjarstjóra landsins.
„Í útfærslu á tillögu bæjarstjóra þá reiknast okkur til að þetta sé um 1.8% lækkun á hennar launum en laun bæjarfulltrúa eiga að lækka um 10%,“ segir Theódóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar, í færslu á samfélagsmiðlum um tillögurnar tvær. „Minnihlutinn lagði til að laun bæjarstjóra myndi líka lækka um 10% og endurskoða akstursgreiðslur hennar sem er um 2.1 milljón á ársgrundvelli.“
Einnig lagði minnihlutinn til að hætt verði að greiða fyrir stjórnarsetu í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, það ætti að vera hluti af almennum starfsskyldum allra bæjarstjóra og borgarstjóra.
Þá var lagt til að álag yrði lækkað fyrir formennsku í nefndum og ráðum niður í 20 prósent.
„Tillagan leiðir til skýrleika í launasetningu og tryggir að laun taki mið af raunverulegri vinnu og ábyrgð sem fylgir formennsku og forsetahlutverkum, um leið og hún stuðlar að sparnaði fyrir sveitarfélagið,“ segir í tillögunni og tiltekið að sparnaður vegna þessa yrði 4 milljónir króna á ári. „Með þessari breytingu er áhersla lögð á jafnræði og sanngirni í launasetningu kjörinna fulltrúa, auk þess sem gætt er hófsemi og ábyrgðar í rekstri sveitarfélagsins.“