Silja Bára R. Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild, hefur verið kjörin rektor Háskóla Íslands en niðurstöður seinni umferðar rektorskosninga voru kunngjörðar í Hátíðasal skólans í kvöld. Hún hlaut 50,7% greiddra atkvæða í kjörinu og verður tilnefnd í embætti rektors af háskólaráði til menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Kjörfundur vegna rektorskosninga stóð frá kl. 9.00 miðvikudaginn 26. mars til kl. 17.00 fimmtudaginn 27. mars og fór kosning fram með rafrænum hætti. Í framboði voru Magnús Karl Magnússon prófessor og Silja Bára R. Ómarsdóttir prófessor.
Sama kjörskrá lá til grundvallar í seinni umferð rektorskjörs og í þeirri fyrri. Á kjörskrá voru 14.557 einstaklingar, þar af 1.752 starfsmenn og 12.805 nemendur. Atkvæði greiddu alls 1.543 starfsmenn eða 88,1% á kjörskrá og 5.335 stúdentar eða 41,7% á kjörskrá. Alls greiddu því 6.878 atkvæði og var heildarkosningaþátttaka því 47,3%. Auðir seðlar voru 1,7% af greiddum atkvæðum.
Atkvæði starfsfólks vógu 70% í kjörinu og atkvæði nemenda 30%.
Þar sem Silja Bára hlaut 50,7 prósent atkvæða hlýtur hún tilnefningu í embætti rektors. Háskólaráð annast tilnefninguna til menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og verður hún til umfjöllunar á næsta fundi ráðsins fimmtudaginn 3. apríl. Það kemur svo í hlut ráðherra að skipa Silju Báru háskólarektor frá 1. júlí 2025 til 30. júní 2030.