fbpx
Mánudagur 31.mars 2025
Fréttir

Segir „átakanlega dapurt“ að sjá áróður útgerðarinnar og minnir á mikilvægar staðreyndir í málinu – „Hámark lágkúrunnar“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 27. mars 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gauti B. Eggertsson, hagfræðiprófessor við Brown-háskóla í Bandaríkjunum, segir dapurlegt að fylgjast með áróðri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) eftir að stjórnvöld tilkynntu um hækkun veiðigjalda. SFS beri sig aumlega og haldi því fram að eftir þessa hækkun muni útgerðin neyðast til að loka vinnustöðum sínum og senda fiskinn til verkunar til annarra landa. Gauti segir þetta fráleitan málflutning þar sem útgerðin sé þarna að gefa til kynna að vinnslustöðvarnar hafi aðeins verið stofnaðar á Íslandi til að komast hjá veiðigjöldunum. Eins taki SFS ekkert tillit til sjómanna, en laun þeirra eru tengd verði aflans.

Og hvað með sjómennina?

Gauti skrifar um málið á Facebook þar sem hann spyr: „Og hvað með sjómennina?“

„Laun þeirra eru tengd verði aflans – verði sem útgerðarfélögin ákveða sjálf. Þannig losa þau sig bæði við veiðigjöld og launagreiðslur í samræmi við verðmæti aflans.

Þetta bitnar á launum sjómanna, tekjum sveitarfélaga sem reiða sig á launaskatt – og samfélaginu öllu. Útgerðarmenn hafa löngu sýnt að þeir teygja sig eins langt og þeir geta til að komast hjá því að borga til samfélagsins – og fela svo ágóðann í Panama eða öðrum fjármálaparadísum.“

Þetta „fáránlega“ fyrirkomulag hafi verið réttlætt með vísun í veiðireynslu frá árinu 1984, en þá var reynslan lítil sem engin því Ísland hafði þarna nýlega fært landhelgina út í 200 mílur. Þar með var engin aldalöng veiðireynsla á auðlind Íslands í höndum þeirra aðila sem fengu kvótann heldur í höndum veiðimanna.

„Hún [veiðireynslan] gaf þeim engan hefðarrétt, þrátt fyrir þá í Sjálfstæðisflokknum sem reyna að telja okkur trú um annað. Veiðireynslan var að mestu hjá veiðimönnum í Hull og víðar – en ekki hjá kvótagreifunum, hvað þá annarri, þriðju eða fjórðu kynslóð þeirra. Og það var ekki útgerðarmönnum að þakka að landhelgin var færð út – það var barátta þjóðarinnar allrar.“

Þjóðin höfð af fíflum

Eins megi velta því fyrir sér hverjir þessir upprunalegu útgerðarmenn voru í raun og veru. Gauti segir að þetta hafi verið fólk sem fékk fyrirgreiðslu frá ríkisbönkum sem voru reknir á pólitískum forsendum þáverandi ríkisstjórna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Lán voru veitt til skipakaupa út frá pólitískum tengslum. Annaðhvort það eða þá að fólk með réttu pólitísku tengingarnar tók yfir báta sem voru reknir á vegum til dæmis sveitarfélaga og samvinnufélaga. Þetta keyptu þessir aðilar á slikk. Gauti segir að þetta fyrirkomulag bitni svo á sjómönnum, þeim sem raunverulega veiða fiskinn á meðan þriðja kynslóð kvótagreifa, sem hafi jafnvel aldrei farið á sjó, lifir í lúxus. Loksins séu stjórnvöld búin að grípa inn í ófremdarástandið enda hafi landsmenn of lengi verið hafðir að fíflum.

„Hámark lágkúrunnar er þegar þessi svikamylla bitnar á þeim sem vinna raunverulegt starf – konum og körlum út á bátunum, sem oft setja eigið líf í hættu við að veiða fiskinn. Á meðan situr þriðja kynslóð kvótaerfingja – sem fæst hefur pissað í saltan sjó – að gæða sér á kavíar og kampavíni. Afi og amma fengu úthlutað kvóta sem áður hafði verið nýttur af Englendingum og öðrum – og það í gegnum pólitísk tengsl við banka og aðra.

Útgerðarmenn selja fiskinn sjálfum sér á niðurgreiddu verði – og borga hvorki samfélaginu né sjómönnunum það sem þeim ber. Svo er ágóðanum komið undan, jafnvel með því að halda tekjum erlendis og fela þær í skattaskjólum.

Hver ber ábyrgð?

Hvenær ætla sjómenn – og fólkið sem stundar raunverulega vinnu við auðlindina okkar – að segja: Hingað og ekki lengra?

Stjórnvöld eru loksins búin að berja í borðið. Það var kominn tími til. Sjómenn og landsbyggðarfólk eiga að gera það sama.

Það er búið að hafa þjóðina að fíflum allt of lengi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofbeldis og lyfjaþvingunarmálið á Kleppi: Landlæknisembættið mátti upplýsa Geðhjálp um leyfi Guðmundar

Ofbeldis og lyfjaþvingunarmálið á Kleppi: Landlæknisembættið mátti upplýsa Geðhjálp um leyfi Guðmundar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sláandi ummæli Stefáns Einars – Ráðherra í ríkisstjórninni hafi verið viðriðinn tilraun til byrlunar og neyðarlegrar myndatöku

Sláandi ummæli Stefáns Einars – Ráðherra í ríkisstjórninni hafi verið viðriðinn tilraun til byrlunar og neyðarlegrar myndatöku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Diljá Mist varpar ljósi á sorglegan veruleika: „Foreldrar vinkonunnar uggandi yfir stöðunni“

Diljá Mist varpar ljósi á sorglegan veruleika: „Foreldrar vinkonunnar uggandi yfir stöðunni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrrum formaður Samfylkingarinnar sendir ríkisstjórninni tóninn

Fyrrum formaður Samfylkingarinnar sendir ríkisstjórninni tóninn