fbpx
Sunnudagur 30.mars 2025
Fréttir

Björn hnípinn og leiður eftir dóm í Kiljunni: „Að ég hafi nú bæst í hóp hinna reiðu rithöfunda samkvæmt Kiljunni er áhugavert“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 27. mars 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í gærkvöld varð ég pínu hnípinn og leiður. Yfir því að vera kallaður of reiður til að teljast marktækur,“ segir Björn Þorláksson, rithöfundur og blaðamaður, í pistli á Facebook-síðu sinni í morgun.

Fjallað var um bók Björns, Besti vinur aðal, sem kom út síðla árs 2024, í Kiljunni í gærkvöldi en í bókinni fjallar hann meðal annars um spillt öfl á Íslandi, ættar- og vinaveldið í landinu og afstöðu- og afstöðuleysi, svo eitthvað sé nefnt.

Í þættinum ræddi Egill Helgason við þau Eirík Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst og Huldu Þórisdóttur, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um bókina og fleiri bækur.

„Reiðilestur, þessi bók“

Agli og Huldu bar saman um að Björn virtist „reiður“ í bók sinni og byrjaði Egill til dæmis umræðuna með þessum orðum:

„Þetta er eiginlega svona, má segja kannski að sumu leyti dálítill bara reiðilestur, þessi bók.“

Undir það tók Hulda og sagði:

„Höfundi liggur mikið á hjarta, og eitthvað sem hann hefur hugsað um mjög lengi, en það kemst ekki endilega til skila því hann er svo reiður líka, að skilaboðin nánast drukkna aðeins í reiði myndi ég segja,“ sagði hún.

Eiríkur greip þá boltann og sagði:

„Þessi bók er skrifuð af feikilega miklum þrótti af manni sem er mjög mikið niðri fyrir og hann veður dálítið mikið á súðum. Fengurinn í bókinni er af viðtölunum, Helga Seljan og hvernig hann hefur þurft að takast á við stórfyrirtæki í sínum fréttaflutningi og svo eru fræðimenn eins og Guðmundur Hálfdánarson og fleiri. En að mörgu leyti er þetta miklu frekar fullyrðingar um spillingu í landinu heldur en eiginlega rannsókn á þeim, en það er kannski ekki neitt sem hann ætlaði sér hvort eða er að gera.“

Hulda sagði að bókin líði fyrir mjög sterkar fullyrðingar en hrósaði henni þó fyrir eitt. „Það eru ákveðin skilaboðin þarna sem vert er að gefa gaum, eins og til dæmis það hvað blaðamannastéttin, fjölmiðlar á Íslandi, standa veikt, hversu mikilvægt er að byggja undir þá stétt. Það hljótum við að taka undir og það er eitt stef þarna sem ég að minnsta kosti tók með mér út úr þessari bók.“

Ekki sá fyrsti sem er stimplaður reiður

Björn svaraði fyrir umfjöllunina á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann sagði meðal annars:

„Þau sem hafa lesið skaðasögu spillingar, Besta vin aðal, vita að undir lok bókarinnar kemur fram hvers vegna ég skrifaði hana. Ég skrifaði BVA til höfuðs sussinu. Og til varnar þeim sem hafa jafnvel verið hraktir út fyrir landsteinana vegna skoðana. Ég skrifaði til höfuðs sussinu sem notað er til að þagga í gagnrýnendum. Og ræði í bókinni við fjölda fólks sem upplifir útskúfun.”

(umfjöllunin heldur áfram hér að neðan)

Björn hélt svo áfram og sagði að „sussið“ hér á landi verði stundum ígildi mjög alvarlegrar aðvörunar og sagði að við Íslendingar værum heppnir að eiga hugrakkt fólk sem þorir að rísa upp. Nefndi hann til dæmis blaðamanninn Jóhann Hauksson, Ólínu Þorvarðardóttur og Þorvald Logason sem öll hafi verið stimpluð reið eftir að hafa skrifað um spillingu.

„En að ég hafi nú bæst í hóp hinna reiðu rithöfunda samkvæmt Kiljunni er áhugavert. Bókin sem ég skrifaði á undan BVA var um dauðann og er sennilega ein nærgætnasta bók seinni tíma, hverfist að miklu leyti um æðruleysi. Ég er að jafnaði fremur glaðsinna maður þótt ég láti hag undirsettra mig oft varða, oft svo kátur og fullur af gáska að meistararitgerðin mín ber heitið Glaðasti hundur í heimi! Annálaður fyrir kurteisi og snyrtimennsku en á það auðvitað til að gerast wæld. Skárra væri það nú í þessu djobbi á þessu skeri. En í gærkvöld varð ég pínu hnípinn og leiður. Yfir því að vera kallaður of reiður til að teljast marktækur,“ sagði Björn í færslu sinni og bætti við að engin efnisleg umfjöllun hafi verið um bókina, til dæmis um stórútgerðina sem hafi verið kjarni skrifanna.

„Eitt er að vera ekki sama og annað er að vera reiður“

Bætir Björn því við að hann hafi verið svo heppinn að hafa marga ritstjóra sem hjálpuðu honum við ritun Besta vinar aðal.

„Ekki einn einasti þeirra nefndi að ég væri of reiður eða hefði skrifað reiða bók. En innblásna. Það á við um viðmælendur mína eins og mig sjálfan. Þeim var ekki sama um hvert við stefnum, eitt er að vera ekki sama og annað er að vera reiður. Flestir ritstjóra minna höfðu á orði að það væri gott að til er fólk eins og Þorvaldur, Ólína, Jói Hauks og aðrir sem nenna að leggja nótt við dag án nokkurrar veraldlegrar umbunar vegna ástríðu – ekki reiði – ástríðu til að skapa eitthvað sem mögulega gæti breytt veröldinni pínupons til hins betra,“ sagði Björn sem endaði færslu sína á þeim orðum að það hafi verið efnahagslega alveg afleitt að bæði fyrsta og önnur prentun bókarinnar hefðu selst upp.

„Því ég er viss um að þúsundir Íslendinga hefðu annars stokkið út í bókabúð í dag til að kaupa bók eftir svo reiðan höfund.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Næstu dagar voru hræðilegir vegna fráhvarfseinkenna“

„Næstu dagar voru hræðilegir vegna fráhvarfseinkenna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenskir og breskir skipstjórar hittust í fyrsta sinn síðan í þorskastríðunum – Notuðu kartöflur sem vopn

Íslenskir og breskir skipstjórar hittust í fyrsta sinn síðan í þorskastríðunum – Notuðu kartöflur sem vopn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mál Írisar Helgu vindur upp á sig – Boðið að samþykkja nálgunarbann og sagðist saklaus af umsáturseinelti degi síðar

Mál Írisar Helgu vindur upp á sig – Boðið að samþykkja nálgunarbann og sagðist saklaus af umsáturseinelti degi síðar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur felldi niður refsingu nauðgara

Landsréttur felldi niður refsingu nauðgara
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Útsmognir þjófar á ferð: „Það var eins og hann væri að stimpla sig inn til vinnu“

Útsmognir þjófar á ferð: „Það var eins og hann væri að stimpla sig inn til vinnu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir eiga von á sekt eftir að lögregla var með eftirlit í Breiðholti

Margir eiga von á sekt eftir að lögregla var með eftirlit í Breiðholti