fbpx
Laugardagur 29.mars 2025
Fréttir

Vinkonur Ólafar Töru: „Það endar þannig að hún er með mig, bláókunnuga konu, ekkagrátandi í símann í marga klukkutíma“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 26. mars 2025 08:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blað er brotið í áratugalangri sögu Vikunnar því konan sem prýðir forsíðuna, Ólöf Tara Harðardóttir, er látin. Ólöf Tara var einkaþjálfari og einn stofnenda samtakanna Öfga, féll fyrir eigin hendi í janúar síðastliðnum.

Í tilkynningu frá Vikunni kemur fram að þó að forsíðuviðtalið að þessu sinni sé helgað Ólöfu Töru þá séu það baráttu- og sálusystur hennar í samtökunum Öfgum sem hafi orðið.
Stjórn Öfga samanstóð af þeim Ólöfu Töru Harðardóttur, Huldu Hrund Sigmundsdóttur, Ninnu Körlu Katrínar og Tönju Mjöll Ísfjörð, sem og Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur og Helgu Ben.

„Hópurinn sem eftir stendur, syrgir nú kæra vinkonu sína, en er jafnframt sannfærður um að Ólöf hafi skilið eftir sig svo mikið verk að hennar verði minnst um ókomna tíð,” segir í tilkynningunni en henni fylgir brot úr viðtalinu sem má lesa hér að neðan.

Fékk skilaboð frá bláókunnugri konu

Bent er á að fráfall hennar hafi reynst aktívistum og femíniskum baráttukonum mikið áfall. Kynbundið ofbeldi var henni hjartans mál, og það ekki að ósekju, því Ólöf hafði sjálf reynslu af ofbeldi í nánu sambandi.

Í viðtalinu segja Öfgar frá öllu því ati sem hópurinn stóð í, en einnig því sem gerðist á bakvið tjöldin. Þá er persónu Ólafar lýst af mikilli væntumþykju og söknuði.

Sjá einnig: Ólöf Tara um ofbeldið, veikindin, baráttuna og valdeflandi fjarþjálfun – „Ég hugsaði með mér, ég get ekki meira, ég ætla ekki að lifa svona“

Í viðtalinu lýsir Þórhildur Gyða fyrstu kynnum sínum af Ólöfu og ber vinkonunum saman um að þau endurspegli mjög hvaða persónu hún hafði að geyma.

„Ég þekkti engar af þeim þegar ég stíg fram í mínu máli en fann fljótt að þær voru að styðja mig opinberlega á Twitter, þannig að ég var farin að kannast við einhver nöfn af flottu fólki í þessari baráttu. Síðan verð ég fyrir því að lögregluskýrslunni minni er lekið á internetið, sem var mikið áfall. Það kvöld fæ ég skilaboð frá Ólöfu þar sem hún bað mig um að fá að hringja í mig. Það endar þannig að hún er með mig, bláókunnuga konu, ekkagrátandi í símann í marga klukkutíma,“ segir Þórhildur meðal annars og bætir við að í kjölfarið hafi Ólöf farið að tékka á henni á hverjum einasta degi.

Þruma úr heiðskíru lofti

Ólöf Tara lést fimmtudaginn 30. janúar síðastliðinn en skömmu áður hafði hún tekið þátt í stofnun nýrra samtaka gegn kynbundnu ofbeldi sem fengu heitið Vitund. Kemur fram í viðtalinu að það hafi komið í hlut Guðnýjar S. Bjarnadóttur, stjórnarkonu í Vitund, að tilkynna vinkonum Ólafar um andlátið. Hún hringdi fyrst í Þórhildi, og því næst í Huldu sem tók að sér að færa hinum í hópnum þessi skelfilegu tíðindi.

„Það var bara eins mikil þruma úr heiðskíru lofti og hægt var. Þetta er eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug. Aldrei. Það er ekki annað hægt að segja en að við séum enn svo mikið í þessu áfalli að við skiljum í raun ekki hvað það þýðir,“ segir Hulda í viðtalinu.

Tanja segir að það sé enn erfitt að tala um Ólöfu í þátíð. Tilhneigingin sé að tala eins og Ólöf sé enn á lífi og virkur hluti hópsins.

Í viðtalinu kemur fram að Hulda hafi fengið skilaboð frá Guðnýju á föstudegi, þar sem hún tjáði henni að hún þyrfti að ræða við sig. „Ég fékk strax á tilfinninguna að eitthvað hefði komið upp á, svo ég svara henni: „Já, ekkert mál. Er eitthvað að?” Hún sendir mér til baka: „Já.““

Hulda hafði samband við Guðnýju sem tilkynnti henni um fráfall Ólafar deginum áður, og að Ólöf hefði tekið eigið líf.

„Það eina sem ég segi er bara: „Ha?” Hún endurtekur: “Ólöf er dáin,” og ég aftur bara: „Ha?“ Ég meðtók þetta ekki. En ég veit að ég er góð undir pressu og að ég hefði svona 12 tíma ramma til að geta unnið í hlutunum, áður en ég félli saman, svo ég tók það að mér að hringja í hin. Þetta “Ha?” ómaði í höfðinu á mér í hvert einasta skipti sem þær sögðu líka: “Ha?” Og ég þurfti að segja þeim aftur að Ólöf væri dáin. Það glumdi bara aftur og aftur og aftur í höfðinu á mér. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það öðruvísi, en það var visst áfall að hringja í fólk og segja því að manneskja sem það elskaði svona mikið væri dáin.“

Í viðtalinu taka Ninna og Tanja undir að þær hafi í raun búið við mikla óraunveruleikatilfinningu, allt frá því að þeim var tilkynnt um andlátið.
„Ég er bara búin að vera í hugrofi. Við erum búnar að vera að skoða myndir og reyna að hlæja, en í hvert sinn sem ég hlæ þá finnst mér hún enn vera með okkur,“ segir Tanja í viðtalinu.

Fékk kveðjubréf

Fram kemur einnig að Þórhildur hafi fengið símtal frá Guðnýju á föstudeginum, en þær Ólöf höfðu átt í daglegum samskiptum. Þegar engin svör bárust frá Ólöfu á fimmtudeginum bjó Þórhildur við óþægilega tilfinningu.

„Nokkrum klukkustundum seinna sá ég að ég var með kveðjubréf frá Ólöfu frá fimmtudeginum, sem ég hafði ekki haft tök á að opna. Þó ég ætli ekki út í neinar nákvæmar lýsingar á því sem stóð í þessu bréfi þá var það svo með hennar hætti að hún vildi útskýra fyrir mér og að ég myndi reyna að skilja þetta. Það sýnir bara hvernig hún var alltaf að hugsa um alla aðra í kringum sig,“ segir Þórhildur en viðtalið má sem fyrr segir lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mál Írisar Helgu vindur upp á sig – Boðið að samþykkja nálgunarbann og sagðist saklaus af umsáturseinelti degi síðar

Mál Írisar Helgu vindur upp á sig – Boðið að samþykkja nálgunarbann og sagðist saklaus af umsáturseinelti degi síðar
Fréttir
Í gær

Landsréttur felldi niður refsingu nauðgara

Landsréttur felldi niður refsingu nauðgara
Fréttir
Í gær

Gerðu myndband um norræna samvinnu en slepptu einu – Myndband

Gerðu myndband um norræna samvinnu en slepptu einu – Myndband
Fréttir
Í gær

Svara fréttastjóra RÚV um það sem hann segir ófrægingarherferð- „Þúsundir gamalla stuðningsmanna RÚV eru á öðru máli“

Svara fréttastjóra RÚV um það sem hann segir ófrægingarherferð- „Þúsundir gamalla stuðningsmanna RÚV eru á öðru máli“