Hugbúnaðarfyrirtækið Vettvangur og systurfélag þess Apparatus náðu þeim góða árangri að vinna til alls þrennra verðlauna á Íslensku hugbúnaðarverðlaununum 21. mars síðastliðinn.
Fyrirtækin fengu verðlaun fyrir App ársins og Hönnun og viðmót ársins og í báðum tilvikum fyrir Lyfju appið. Þá voru Vettvangur og Apparatus einnig verðlaunuð fyrir Söluvef ársins sem er vefur Dominios og ekki í fyrsta skipti sem hann hlýtur verðlaun.
Auk þess fengu Vettvangur og Apparatus þrjá svokallaða Upphlaupara fyrir annað sætið fyrir sælkeravef Nóa Siríus, vef Lífeyrissjóð Verslunarmanna og Atlantsolíu Appið, eins og segir í tilkynningu.
„Við erum að sjálfsögðu í skýjunum með þennan árangur. Hönnuðir okkar og forritarar hafa sýnt allar sínar bestu hliðar þar sem við setjum sérstakan fókus á samstarfsaðila okkar og þarfir notenda þeirra. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með viðurkenningarnar og hlökkum til að halda vinnunni áfram,“segir Elmar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vettvangs.
„Vettvangur vex og stækkar og tekur miklum hamskiptum þessa dagana. Við erum nýbúin að kynna nýjan útlitsheim Vettvangs og fylgdum því eftir með nýjum vef sem við erum ljómandi ánægð með. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan.“