Fjölmiðlar hafa undanfarnar vikur greint frá hegðunarvanda og ofbeldismenningu meðal ungmenna í Breiðholtsskóla. Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um málefnið. Hér má sjá nýjustu frétt DV um málið.
Óskar Steinn Ómarsson stjórnmálafræðingur segir að í umfjölluninni hafi furðulega mikil áhersla verið lögð á uppruna ungmennanna og vandinn málaður upp sem eitthvað útlendingavandamál.
„Vandinn virðist þar með ekki vera samfélagslegur heldur bundinn við ákveðinn þjóðfélagshóp.
Í þeirri umfjöllun hefur meðal annars verið látið að því liggja að úrræða- og viðbragðsleysi í málinu megi rekja til þess að yfirvöld fari einhverjum silkihönskum um foreldra af erlendum uppruna. Þetta hefur heldur betur kveikt í kommentakerfunum og alls kyns rasismi og útlendingaandúð fengið að þrífast þar í góðu skjóli ákveðinna fjölmiðla.“
Í færslu sinni á Facebook segir Óskar Steinn kveða við annan tón í umfjöllun Morgunblaðsins á þriðjudag „um raunir íslenskrar fjölskyldu úr Garðabænum. Í ítarlegu viðtali við móður unglingsstúlku rekur hún í löngu máli sögu stúlkunnar og hvernig hún leiddist út í áhættuhegðun, að hennar sögn í kjölfar verkfalls kennara.“
Frétt Mbl.is má lesa hér.
„Þessi fyrrum fyrirmyndarnemandi neytir nú áfengis og vímuefna, er í stöðugu stroki og hangir að sögn móðurinnar með hópi jafnaldra sem beita önnur börn ofbeldi. Allt í kjölfar þess að kennarar í grunnskólanum hennar fóru í verkfall sem stóð nota bene yfir í eina viku.“
Óskar Steinn segist ekki ætla að gera lítið úr raunum þessarar fjölskyldu eða úrræðaleysinu sem ríkir í málefnum barna og ungmenna í áhættuhegðun og fékk að grassera í valdatíð síðustu ríkisstjórnar. Segir hann að um aðgerðaleysi þeirrar ríkisstjórnar mætti reyndar skrifa mörg orð, „en það kristallaðist kannski í því þegar fyrrverandi barnamálaráðherra „opnaði“ með pompi og prakt meðferðarheimili fyrir börn sem reyndist ónothæft og leyfislaust og hefur síðan staðið autt.“
„Ástæðan fyrir þessum skrifum er sú að mér finnst áhugaverðar þessar andstæður sem hér birtast okkur í umfjöllun um ofbeldis- og hegðunarvanda meðal ungmenna á Íslandi. Ef börnin eru af erlendum uppruna afgreiðum við málið sem innflytjendavandamál og veltum ekki einu sinni fyrir okkur að eitthvað annað kunni að liggja að baki eins og áfallasaga, uppeldisaðstæður eða samfélagsgerð. Eins og skýringar á vandanum liggi aðeins í erfðaefni þeirra eða lélegri aðlögunarhæfni við hið friðsæla íslenska samfélag.
Séu börnin íslensk, úr Garðabænum og fyrrum fyrirmyndarnemendur fáum við hins vegar ítarlega umfjöllun um raunir fjölskyldunnar og gerum tilraunir til þess að finna einfaldar og utanaðkomandi orsakir fyrir vandanum, þó ýkja langsóttar séu.
Í þessari umfjöllun birtist okkur tvískinnungur sem ætti að vekja okkur til umhugsunar um viðhorf okkar til fólks af erlendum uppruna og ólíkum menningarheimum. Aukið ofbeldi og vímuefnaneysla barna er gríðarleg áskorun og umræðan um hana þarf að vera dýpri og málefnalegri en svo að við afgreiðum hana með eins yfirborðskenndum hætti og raun ber vitni.“