Tveir frambjóðendur til rektors Háskóla Íslands standa eftir þar sem enginn fékk meirihluta atkvæða í fyrri umferð kosninganna. Þessir tveir frambjóðendur eru Magnús Karl Magnússon og Silja Bára Ómarsdóttir. Seinni umferð kosninga stendur nú yfir og lýkur klukkan 17 fimmtudaginn 27. mars.
Í aðdraganda fyrri umferðar kosninganna sendu Samtök áhugafólk um spilafíkn (SÁS) öllum frambjóðendum spurningar og segir í tilkynningu frá SÁS að í svörum frambjóðenda hafi komið fram vilji til að hætta spilakassarekstri Háskóla Íslands.
Forsvarsmönnum samtakanna fannst því tilvalið að spyrja þau Magnús Karl og Silju Báru nánar út í afstöðu þeirra til spilakassareksturs Háskóla Íslands og áætlanir. Spurningin var svohljóðandi:
„Verðir þú rektor, hvenær og hvernig munt þú hefja það ferli að loka spilakössunum?“
Okkur í SÁS þykir mikilvægt fyrir háskólasamfélagið og samfélagið allt að afstaða rektorsframbjóðenda til þessa örlagaríka máls liggi skýr fyrir,“ segir í tilkynningu SÁS. Svörin eru einnig send til allra starfsmanna og nemenda við Háskóla Íslands og birt á vef samtakanna lokum.is.
„Stutta svarið við þessari spurningu er að við hættum þessari starfsemi daginn sem stjórnvöld fella úr gildi þau lög að fasteignir Háskóla Íslands skuli fjármagnaðar með þessari skaðlegu starfsemi. Til þess að svo geti orðið myndi ég í samvinnu við stjórn Fasteigna Háskóla Íslands þrýsta á löggjafann um endurskoðun fjármögnunarleiða. Ég ætla að vera raunsæ og lofa því ekki að það gerist hratt – vitandi hve seigfljótandi stjórnsýslan er. Það þarf samhent átak til þess að þetta geti orðið að veruleika. Ég fagna samstarfi við þrýstihópa svo sem ykkar, við fagstéttir innan málaflokksins svo og stúdenta. Þið megið þó vita að ég er einlæglega á þeirri skoðun að það sé okkur ekki sæmandi – hvorki HÍ né íslensku samfélagi – að fjármagna nauðsynlega starfsemi með skaðlegum hætti. Þetta er hluti af stærri meinsemd, og því miður er HHÍ ekki eina dæmið, annað er t.d. hvernig björgunarsveitir hafa þurft að reiða sig á flugeldasölu – með tilheyrandi mengun. Við skulum vona að með nýrri ríkisstjórn komi nýjar áherslur í þessum málum.“
-Silja Bára Ómarsdóttir
„Ég tel það ekki verjandi að Háskóli Íslands byggi mikilvægan hluta starfsemi sinnar á hagnaði af rekstri spilakassa sem tengjast hættu á spilafíkn og stuðla að henni. Það þarf því að finna aðrar leiðir, í samvinnu við stjórnvöld, til fjármögnunar skólans. Strax og ég tek við störfum, ef ég hlýt kosningu, mun ég eiga samtal við Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) og fagfólk á sviði spilafíknar um vandann sem við er að etja. Það þarf strax að byrja að vinna að því að draga úr þeim skaða sem spilafikn veldur og huga að hagsmunum fórnarlamba hennar. Um leið þarf að byrja að leggja drög að því að Háskóli Íslands hverfi alfarið frá slíkum rekstri. Ég vonast til að samstarf við ykkur geti gert okkur kleift að vinna þessu máli brautargengi gagnvart fjárveitingarvaldinu.“
-Magnús Karl Magnússon