Íbúar á Ásbrú og í Innri-Njarðvík kvarta (á Facebook) undan fjölgandi innbrotum að undanförnu. Helgi Snær Hilmarsson, íbúi á Ásbrú, greinir frá því að stýri hafi verið losað og fjarlægt úr bíl hans af gerðinni BMW.
Hann brýnir fyrir öllum að læsa bílunum sínum og kallar eftir mögulegum gögnum úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu.
Í samtali við DV segir Helgi Snær að hann hafi gleymt að læsa hjá sér bílstjóramegin, sú hurð sé biluð og hann þurfi að handlæsa henni. Helgi Snær segir tjónið bagalegt en mikilvægt sé að greina frá innbrotum í fjölmiðlum.
„Þetta er orðið mjög algengt hérna á Ásbrú og í Innri-Njarðvík, að brjótast inn í bíla og stela töskum, radarvara eða bara því fyrsta sem þjófarnir reka augun í og telja að þeir gætu grætt einhvern pening á, til dæmis stýrið mitt.“
Aðspurður segist Helgi ekkert hafa frétt af rannsókn málsins hjá lögreglu enda stutt síðan brotið var framið.