Í tilefni af Mottumars, átaki Krabbameinsfélags Íslands, heldur Kraftur stuðningsfélag opna Kröftuga strákastund miðvikudaginn 26. mars kl. 19:30–21:00 í Fantasíusalnum á 2. hæð á Vinnustofu Kjarval
Markmiðið viðburðarins er að karlmenn sem þekkja krabbamein af eigin raun eða sem aðstandendur, hittist, deili reynslu sinni og heyri í öðrum jafningjum.
Í tilefni af Mottumars stendur Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, fyrir opinni Kröftugri strákastund miðvikudaginn 26. mars. Viðburðurinn er opinn öllum karlmönnum og aðgangur er ókeypis. Þar munu nokkrir hugrakkir ungir menn sem greinst hafa með krabbamein deila reynslu sinni, auk þess sem slegið verður á létta strengi.
Markmið viðburðarins er að karlmenn sem hafa upplifað krabbamein, annað hvort sjálfir eða sem aðstandendur – hvort sem um ræðir maka, son, föður, bróður, frænda, afa, vin eða samstarfsmann – geti hist, deilt reynslu sinni og heyri í öðrum jafningjum. Jafnframt viljum við stuðla að opnari umræðu um krabbamein og veita ungum karlmönnum innsýn í starfsemi Krafts.
Hjá Krafti er hópur ungra karlmanna á aldrinum 18-40 ára sem hefur greinst með krabbamein. Á árunum 2019-2023 greindust 252 ungir karlmenn á aldrinum 20-39 ára með krabbamein en algengast var krabbamein í eistum og Hodgkins eitilfrumukrabbamein. Þetta eru hópur ungra manna sem á allt lífið framundan og sem betur fer fjölgar lifendum hratt vegna framfara í greiningu og meðferð. Krabbameinið og meðferðin geta hins vegar skilið eftir sig spor og þurfa margir að takast á við langvinnar aukaverkanir þrátt fyrir að hafa læknast.
„Það er óþarfi fyrir hvern og einn sem greinist með krabbamein að ætla sér að „finna upp hjólið“ þegar kemur að því að takast á við þetta stóra verkefni. Það er hægt að leita í reynslubanka þeirra sem á undan hafa komið og nýta þá þjónustu sem Kraftur og Krabbameinsfélagið hafa byggt upp“, segir Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur Krabbameinsfélagsins og umsjónarmaður Stuðningsnetsins hjá Krafti.
Þeir sem deila reynslu sinni:
– Óli Eðvald Bjarnason greindist með krabbamein í ágúst 2023. Hann hefur í sinni baráttu lagt mikla áherslu á að taka einn dag í einu og vera með jákvæðnina að vopni.
– Davíð Goði veiktist óútskýranlega í byrjun árs 2024, þá 26 ára gamall. Hann fór í gegnum krabbameinsmeðferð sem endaði með stofnfrumumeðferð og mergskiptum í Svíþjóð. Í dag er hann hraustur og fetar sig í nýju föðurhlutverki.
– Anton Bjarki Olsen, fatahönnuður, segir frá því hvernig það var að greinast með sjaldgæft krabbamein sumarið 2024 á meðan hann vann að nýjustu fatalínu sinni og hvernig hann tókst á við áskoranirnar sem fylgdu veikindunum. Hann segir að það fylgi því ákveðið æðruleysi að ganga í gegnum svona lífsreynslu en hann reynir að einblína á það jákvæða fremur en neikvæða.
Í lokin mun svo Bolli Már Bjarnason, útvarpsmaður á K100, slá á létta strengi með uppistandi. Hann fer með eitt af hlutverkunum í nýjustu auglýsingu Mottumars og er því málefninu vel kunnugur.
Viðburðinum stýra Matti Ósvald, heilsufræðingur og markþjálfi Ljóssins og Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur Krabbameinsfélagsins og umsjónarmaður Stuðningsnetsins hjá Krafti.
Davíð Goði og Anton Bjarki voru í viðtali nýlega í Fókus hjá DV: