fbpx
Þriðjudagur 25.mars 2025
Fréttir

Haukur hraunar yfir RÚV og segir sannleiksgildi hafa verið sniðgengið og falsfréttir fluttar – „Jók á tortryggni og trúnaðarbrest“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 25. mars 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur fer hörðum orðum um umfjöllun fjölmiðla um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, sem sagði eins og kunnugt er af sér embætti barna- og menntamálaráðherra í síðustu viku.

Á laugardag sagði Haukur fjölmiðla hafa farið rangt með að Ásthildur hafi verið leiðbeinandi piltsins í sértrúarsöfnuði sem þau voru meðlimir í, sem og að Forsætisráðuneytið hafi brotið trúnað í málinu. 

Sjá einnig: Fordæmir umfjöllunina um Ásthildi Lóu og segir fréttamenn hafa brotið af sér

Í dag birti Haukur afrit af bréfi sem hann sendi til fréttastjóra RÚV Heiðars Arnars Sigurfinnssonar, og er afrit þess sent til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, Ásthildar Lóu Þórsdóttur, Ingu Sæland. Félagsmálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra, Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og Silju Daggar Gunnarsdóttir stjórnarformanns RÚV. 

Í bréfinu bendir Haukur á að samkvæmt 2. mgr. 41. gr. stjórnsýslulaga og 5. mgr. 15. gr. sömu laga skýrist að opinberir starfsmenn hafa ekki þagnarskyldu um málefni sem varðar „ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda“ – og að þagnarskylda ríkir ekki um gögn sem tengjast málinu gagnvart aðila máls. Almenningur eigi rétt á slíkum upplýsingum.

„Það skýrist því að forsætisráðuneytið hafði heimild til að segja opinberlega frá ásökunum „tengdamóðurinnar“ og einnig heimild til að láta Ásthildi Lóu eða fulltrúa hennar í té upplýsingar sem vörðuðu tengdamóðurina.“

Haukur segir það einnig ljóst að forsætisráðuneytið hafði ákveðnar skyldur gagnvart Ásthildi Lóu sem ásakanirnar beindust að – „og er þá ekki síst átt við tilkynningu um meðferð máls, andmælarétt, áðurnefndan upplýsingarétt og rétt á frestun máls – sem allt leiðir til þess að málsmeðferð getur tekið nokkra daga. Samkvæmt öllum þessum reglum virðist ráðuneytið hafa farið í máli Ásthildar Lóu.“

Segir RÚV ekki hafa hirt um að leita sannleikans

Haukur snýr sér næst að vinnslu fréttar hjá RÚV um að Ásthildur Lóa hafi eignast barn fyrir tæpum 25 árum, barnsfaðir hennar var þá 16 ára.

„Ekkert af þessum upplýsingum um réttindi og skyldur hins opinbera í svona málum var á vitorði – viljandi eða óviljandi – þeirra fréttamanna RÚV sem kynntu ásakanirnar gegn Ásthildi Lóu fimmtudaginn 20. mars 2025. RÚV gaf í skyn að forsætisráðuneytið hefði brotið trúnað í málinu, að það hefði dregið lappirnar eða vísvitandi heykst á að taka á málinu í heila viku. Með þessu gerði RÚV forsætisráðuneytið tortryggilegt í augum almennings.

Og hirti ekki um að leita sannleikans.“

Haukur bendir á að í landinu eru um 1.500 stjórnsýslufræðingar auk þúsunda lögfræðinga – „sem allir hefðu getað sparað fréttamönnum RÚV ásakanirnar gagnvart forsætisráðuneytinu. Ég birti til dæmis á Facebook-vegg mínum færslu um að ráðuneytið hefði ekki brotið trúnað kl. 10:28 fimmtudagskvöldið 20. mars.

Fyrr um kvöldið hafði fréttamaður hjá RÚV samband við mig varðandi siðferðilega hlið málsins – en ég tjái mig ekki á sviði annarra fræðigreina en minnar. Þegar fréttastofan hins vegar kom að stjórnsýslumálinu – hvort ráðuneytið hefði brotið trúnað – þá var ekki haft samband við mig.“

Segir fréttastofu RÚV ekki þekkja stjórnsýslufræðin

Haukur segist þá kominn að efni þessa bréfs sem er það sama og hann segist hafa rætt áður við fréttastjóra RÚV.

„Sem er að fréttastofa RÚV leitar sér ekki upplýsinga hjá stjórnsýslufræðingum. Fréttastofan er dugleg við að tala við stjórnmálafræðinga og siðfræðin er þekkt fræðigrein hjá fréttamönnum hennar – en stjórnsýslufræðin virðist óþekkt fyrirbæri.

Í þessu tiltekna máli olli sniðganga þín og fréttamanna þinna á sérfræðiþekkingu um stjórnsýslu sennilega nokkuð miklu tjóni fyrir ríkisstjórnina og jók á tortryggni og trúnaðarbrest gagnvart henni. Skyldur RÚV eru ekki síst gagnvart almenningi (almannaútvarp) og í þessu efni var hann afvegaleiddur. Slíkt hefði ekki þurft að eiga sér stað ef fréttamennirnir hefðu tekið upp símann til að kynna sér sannleiksgildi frétta sinna.

Nú ætla ég að beina því til þín – vonandi í síðasta skipti – að hafa sérfræðiþekkingu stjórnsýslufræðinnar í huga framvegis. Það gæti gert RÚV að betri fréttastöð – þannig að falsfréttir séu ekki aftur fluttar af stjórnvöldum í einn og hálfan sólarhring. Við eigum betra skilið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Jákvæð rekstrarafkoma fimmta árið í röð 

Jákvæð rekstrarafkoma fimmta árið í röð 
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Karl Steinar: Lögregla gæti kallað til fleiri hundruð óbreytta Íslendinga ef allt fer í skrúfuna

Karl Steinar: Lögregla gæti kallað til fleiri hundruð óbreytta Íslendinga ef allt fer í skrúfuna
Fréttir
Í gær

Meintur brotaþoli var kærður fyrir árás á Hauk – Lögregla felldi niður málið og ákærði Hauk fyrir manndrápstilraun

Meintur brotaþoli var kærður fyrir árás á Hauk – Lögregla felldi niður málið og ákærði Hauk fyrir manndrápstilraun
Fréttir
Í gær

Bandarískir ráðamenn ræddu óvart viðkvæm hernaðarmálefni við blaðamann Atlantic

Bandarískir ráðamenn ræddu óvart viðkvæm hernaðarmálefni við blaðamann Atlantic