Hann gerir mál málanna síðustu daga að umtalsefni í pistli á Facebook-síðu sinni, afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur úr stóli mennta- og barnamálaráðherra og umfjöllun RÚV um mál hennar sem skiptar skoðanir eru um.
Í færslu sinni gagnrýnir það að málið hafi yfir höfuð komið til umfjöllunar í fjölmiðlum.
„Erindið sem konan átti við forsætisráðuneytið, um að upplýsa forsætisráðherra um að Ásta Lóa barnamálaráðherra nyti ekki trausts konunnar, gat aldrei fengið neina meðferð innan stjórnsýslunnar. Þar er enginn farvegur til að fást við kvörtun um að borgarar beri kala til ráðherra. Og skiptir þá engu þótt konan hafi viljað rökstyðja vantraust sitt með vísan til ástarmála Ástu Lóu og ungs manns fyrir meira en 35 árum,“ segir hann og bætir við að bæði Ásta Lóa og maðurinn hafi verið lögráða þegar barnið var getið og samræði þeirra fullkomlega löglegt.
„Þetta erindi konunnar getur því aldrei komið til opinberar umfjöllunar. Í raun á það ekkert erindi, yfir höfuð. Það er ekki einu sinni hæft til innhringingar á Útvarpi Sögu. Arnþrúður Karlsdóttir myndi stöðva frásögn konunnar og benda á að símatíminn væri ekki vettvangur til að ræða einkamál fjarstaddra. Það er magnað hversu margir hafa samt stokkið á erindi konunnar og reynt að tala það upp í eitthvað sem réttlætir afsögn ráðherra, jafnvel spunnið upp þræði um að þótt samræðið hafi ekki verið ólöglegt, hvorki samkvæmt núgildandi né þágildandi lögum, beri samt að meta það sem jafngildi þess að fullorðið fólk hafi samræði við börn,“ segir Gunnar Smári og klykkir út með þessum orðum:
„Ég held að samfélag okkur sé við það að missa vitið, sturlast og tapa öllum þráðum.“