Þóra Kristín Ásgeirssdóttir, fyrrverandi, þrautreyndur blaðamaður, meðal annars á RÚV, gefur fréttaflutningi ríkisfjölmiðilsins í máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi mennta- og barnamálaráðherra, algjöra falleinkunn.
Í frétt RÚV var farið rangt með nokkrar staðreyndir, t.d. var fyrrverandi elskhugi Ásthildar sagður hafa verið 15 ára er þó hófu samband árið 1989, en hann var 16 ára og lögráða samkvæmt þágildandi lögum. Í öðru lagi sagði að Ásthildur hefði verið leiðbeinandi mannsins í starfi trúarsöfnuðar, en það reyndist vera rangt. Í þriðja lagi var greint frá ásökunum mannsins um að Ásthildur hefði tálmað umgengni hans við son þeirra, en lítið hald reyndist vera í þeim ásökunum.
Sú regla að leita andstæðra sjónarmiða fyrir birtingu fyrstu fréttar í máli er regla sem kveðið er á um í siðareglum blaðamanna. Ljóst er að það var ekki gert í þessu tilviki. Þóra Kristín segir:
„Lúkasarmálið nýja hefur verið leitt til lykta. Andlit fyrrverandi barnamálaráðherra hékk um helgina á flettiskiltum í erlendum borgum eins og höfuðleður og fullyrðingar um að hún hefði haft kynmök við 15 ára dreng. Það er eins og það sé skortur á barnaníðingum á Íslandi, þegar fólk tekur andköf af hneykslun út af kynlífi tveggja sjálfráða ungmenna fyrir 36 árum. Ótrúlegasta fólk hefur svo látið draga sig á geislabaugnum út í þetta skitafen og Jón Gunnarsson boðar fleiri „beinagrindur“ í boði flokksins.
RUV hefur ekki séð ástæðu til að leiðrétta neitt í fyrstu frétt um málið, ekki dregið neina fullyrðingu til baka. Helsta vörnin er sú að erlendir fjölmiðlar hafi líka fjallað um málið, því það sé svo merkilegt, en þar er kyrfilega vitnað í fyrstu frétt RUV svo þar étur hver slúðurtunnan upp úr annarri.
Leirburðurinn var rakinn inn í eldhús fyrrverandi tengdamóður barnsföður ráðherrans sem sá ástæðu til að senda málið til Áslaugar Örnu þingmanns Sjálfstæðisflokksins og kalla eftir fundi með forsætisráðherra um málið (Hvergi nema á Íslandi væri einhliða frásögn þesarar konu, sem á enga aðild að málinu, orðin burðarás í fyrstu frétt á stærsta og virðulegasta miðli landsins án þess að staðreyndir væru tékkaðar af).“
Þóra Kristín segir að dómharkan í samfélaginu hafi leitt til þess að margdæmdir ofbeldismenn séu farnir að taka að sér refsingar yfir meintum barnaníðingum og landslið nettrölla dæmi aðra sem teljast sekir um siðferðisbresti:
„Dómharkan í samfélaginu krefst nýrra fórnarlamba á hverjum degi. Pólitíkin er alveg til í að knýja þá drápsvél áfram ef það hentar málstaðnum hverju sinni. Við erum öll ábyrg af einhverju leyti fyrir því að samfélagið er komið á þennan stað. Nýlega fréttist af ofbeldisöldu þar sem hópar fólks gera út tálbeitur til að lokka til sín barnaníðinga, misþyrma þeim og kúga úr þeim peninga. Það hefur allavega kostað eitt mannslíf. Þekktir misyndismenn hafa blandað sér í hópinn enda gott að geta göfgað græðgi sína og blóðþorsta með „góðum tilgangi.“ En ef við treystum ekki lögreglu og dómstólum til að höndla þessi mál, er þá betra að margdæmdir ofbeldismenn kveði upp dóma eða landslið netrölla?“
Þóra Kristín segir ennfremur:
„Og af hverju er það orðin árás á fjölmiðla, að biðja um að staðreyndir í svona viðkvæmum málum sé tékkaðar af eða að fólk leiðrétti missagnir og rangfærslur. Konan í eldhúsinu, undir moggaklukkunni sem hvæsti í hljóðnema fréttamannsins að ráðherrann hefði ekki átt að skríða upp í rúm með 15 ára dreng, skilur vissulega eftir óbragð í munni en það breytir ekki því að fréttamaðurinn hefði átt að fletta því upp hvenær barnið væri fætt og hvað foreldrar þess voru þá gamlir. Og það hefði átt að leita eftir áliti barnsföðurins og hafa allavega eitt sjónarmið í fréttinni af manneskju sem taldi sig ( eða ekki) grátt leikna. Og hvernig fékk fréttastofan það staðfest að hún hefði verið leiðbeinandi drengsins? Eða þótti tengdamamman fyrrverandi nægilega staðfesting á því? Tálmunin í málinu hefur nú verið snyrtilega afgreidd af syni konunnar.
Eftir stendur að eina réttlætingin sem fólk getur núna fundið fyrir afsögn ráðherrans er örvænting hennar og hvatvisi, þegar hún fréttir af því að kynferðismál hennar á unga aldri séu á leið í fjölmiðla og hún sé máluð upp sem lögbrjótur og barnaníðingur.“
Þóra Kristín segir að Ásthildur, sem nýtur mikilla alþýðuvinsælda, hafi ekki passað inn í elítuna. Hún hafi unnið stórsigur í Suðurkjördæmi og hafi fleiri atkvæði á bak við sig en núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir. Núna segi fólk að Ásthildur hafi átt að gera grein fyrir málinu þegar hún var tilnefnd sem ráðherra. Þóra Kristín veltir því hins vegar fyrir sér hvort aðrir ráðherrar séu ekki áhyggjufullir yfir því að áratugagömul ástarmál þeirra verði rifjuð upp.