Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, bendir á, eins og fleiri, að Donald Trump Bandaríkjaforseti vilji aukið samstarf við Rússa til að fjarlægja þá Kínverjum. Telur Hilmar hins vegar að hindranir séu í vegi þeirra markmiða Trumps.
Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is. Hilmar telur mögulegt að Bandaríkjamenn styðji friðarsamning milli Rússlands og Úkraínu sem verði á forsendum Rússa og verði það að veruleika muni sum Evrópuríki líta svo á að Úkraínu hafi verið fórnað eins og peði á taflborði. Síðan segir í grein Hilmars:
„Rússnesk stjórnvöld hafa alltaf mótmælt stækkun NATO og margt bendir til að Bandaríkin vilji draga sig hernaðarlega úr Evrópu að miklu, eða hugsanlega öllu leyti. Þetta væri í samræmi við vilja Pútin. En væri þetta nóg?
Hugsanlega ekki, viðskiptasamband Rússlands og Kína yrði áfram mikilvægt fyrir bæði ríkin. Við það bætist að þó staða Donald Trump sé sterk í Bandaríkjunum í dag verður hann ekki forseti nema í 4 ár í viðbót. Hann getur ekki lofað Pútin neinu til lengdar? Leiðtogar Kína sitja að jafnaði lengur en forsetar Bandaríkjanna og staða Xi Jinping núverandi leiðtoga Kína er sterk. Nýr forseti Bandaríkjanna gæti hugsanlega eftir 4 ár snúið við mörgu við af því sem Donald Trump gerir nú á seinna kjörtímabili sínu. Pútin væri því að taka áhættu með bættum samskiptum við Bandaríkin á kostnað samskiptanna við Kína.“
Hilmar segir að ef samningarnir verði Úkraínu óhagðstæðir geti það skaðað samband Bandaríkjanna við Evrópu til framtíðar. „Þó Evrópa standi ekki vel í varnarmálum á dag eru mörg lönd álfunnar rík og viðskipti við Evrópu áfram mikilvæg fyrir Bandaríkin. Dragi Donald Trump Bandaríkin að miklu eða öllu leyti úr NATO gætu Evrópuríki farið að líta á Bandaríkin sem ótraustan bandamann, „unreliable partner.“ Uppákomurnar með Grænland og Kananda hafa þegar valdið usla.“
Langan tíma gæti tekið að bæta sambandið aftur ef Evrópu kysi að auka viðskipti sín við aðra heimshluta á kostnað viðskipta við Bandaríkin.
Hilmar segir að sum Evrópuríki vilji halda stríðinu áfram og tilkynna um frekari vopnasendingar til Úkraínu. Trump vilji hins vegar gera friðarsamning. Rússar hafi aftur á móti hvata af því að halda stríðinu áfram enda hafa landvinningar þeirra farið vaxandi. Úkraína verði fyrir miklu mannfalli, en ekki NATO-ríkin. Bandaríkjamenn vilji ekki veita Úkraínu öryggistryggingu en Bretar og Frakkar vinnni að því að koma saman hópi viljugra þjóða til friðargæslu. Rússar muni hins vegar tæpast samþykkja slíkt því þar með væri Úkraína orðin óformlegt NATO-ríki.
Hilmar segir að það þjóni hagsmunum Bandaríkjamanna að reka fleyg í samstarf Kínverja og Rússa. Það sé hins vegar vandasamt. Stórveldasamkeppni í heiminum fari vaxandi:
„Við lifum nú í margpóla heimi „multipolar world“ sem er hættulegri og ófyrirsjáanlegri en áður var. Kína og Rússar vita að það þjónar hagsmunum Bandaríkjanna í stórveldasamkeppninni að reka fleyg í samstarf þeirra. Þetta styrkir stöðu Rússlands gagnvart Kína.
Þegar stórveldasamkeppninni sleppir eru Bandaríkin þó sjálf örugg sem öflugasta stórveldið og kjarnorkuveldi fjarri sínum helsta keppinaut, Kína. En Bandaríkin vilja nú styrkja stöðu sína í Asíu sem verður varla nema með minni hernaðarviðveru í Evrópu. Þetta er flókin staða og henni fylgir áhætta og ókyrrð í alþjóðasamskiptum sem í eðli sínu eru miskunnarlaus. Við lifum á tímum vaxandi stórveldasamkeppni og átaka.“