Máni Pétursson, umboðsmaður og knattspyrnuþjálfari, ætlar ekki að snæða á veitingastöðum þar sem spiluð er „gervitónlist“. Það er tónlist á streymisveitunni Spotify sem búin er til af gervitónlistarmönnum.
„Spotify er viðbjóður. Það er svo sem ekkert leyndarmál. Við sem þjóð getum samt gert betur,“ segir Máni í færslu á samfélagsmiðlum í dag.
Tilefnið er frétt mbl.is um gervitónlistarmenn á sænsku streymisveitunni Spoitify. Það er að Spotify hafi látið framleiða tónlist fyrir vinsæla lagalista. Þekktum tónlistarmönnum sé smám saman ýtt út fyrir þetta og nýliðar komi að lokuðum dyrum. Reynt sé að telja hlustendum trú um að þetta sé alvöru fólk, meðal annars Íslendingar.
Máni beinir spjótum sínum að íslenskum veitingastöðum og verslunum. Stöðum sem taka þátt í þessu.
„Á hverjum degi fer ég inn á kaffihús í verslanir eða veitingastaði á Íslandi. Þar sem verið er að spila einhverjar kósý píanó útgáfur af þessum gervitónlistar mönnum en ekki ALVÖRU TÓNLIST!“ segir hann með áherslu.
Bendir hann á að það kosti þessa staði nákvæmlega jafn mikið að spila gervitónlist og efni íslenskra tónlistarmanna. Þetta snúist aðeins um val hvers og eins.
„Verslun eða veitingastaður sem er að streyma þessu erlenda drasli er ekki að fá mín viðskipti í framtíðinni,“ segir Máni. „Því ég veit að eldhúsið er jafn skítugt og tónlistin sem staðurinn spilar.“
Máni segist ekki vera að segja að það eigi aðeins að spila íslenska tónlist á veitingastöðum og verslunum. Hann myndi þó kjósa það sjálfur. Hins vegar eigi alls ekki að spila tónlist eftir gervilistamenn.
„Mitt álit er samt að við eigum að vera stoltari af tónlistinni sem við gerum við höfum náð mögnuðum árangri erlendis ekki stærri þjóð og það er svo fáránlega mikið af frumlegum og góðum tónlistarmönnum á Íslandi,“ segir Máni.
Spotify fær 2,8 milljarða króna í tekjur frá Íslandi á ári hverju. Á bilinu 400 til 500 milljónir sitja eftir fyrir íslenska útgefendur og tónlistarmenn. Hægt sé að hækka þá tölu verulega ef staðirnir velji að spila tónlist Íslendinga.
„Það hefur verið rætt hjá Félagi hljómplötuframleiðenda að fara veita fyrirtækjum smáum sem stórum sérstaka viðurkenningu fyrir að spila íslenskt. Ég legg til að stef og allir tengdir aðilar komi með í þá vegferð,“ segir hann að lokum. „Það er skemmtilegra og líklegra til árangurs að peppa fólk til góðra verka en með því að ég sé að hóta að hætta að versla við þau. Íslensk músík er bara fucking töff músík og ef þú ert með töff rekstur ef þú spilar íslenskt efni.“