Lögreglukona sem kom á vettvang er Haukur Ægir Hauksson átti í átökum við mann sem hafði brotið kynferðislega gegn dóttur þáverandi kærustu hans segist hafa þurft að losa hálstak Hauks á brotaþolanum, sem þá hafði misst meðvitund.
Haukur hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps vegna þessa atviks sem átti sér stað á bílaplani fyrir utan heimili hans í Norðingaholti, aðfaranótt laugardagsins 11. mars árið 2023. Haukur segir ákæruna vera fráleita, þar sem hann hafi annars vegar verið að verjast ofbeldisfullri árás mannsins á hann og kærustu hans og hins vegar verið að reyna að tryggja að lögregla gæti handtekið manninn vegna kynferðisbrots hans gegn dóttur kærustunnar.
DV fylgdist með réttarhöldunum á föstudag og hefur birt nokkrar fréttir um þau. Tenglar á þær fréttir eru hér meðfylgjandi.
Eftir að Haukur var fyrst ákærður fyrir árás á bílstjórann og tilraun til manndráps var bílstórinn sjálfur ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur kærustunnar. Haukur og lögmaður hans hafa mótmælt ýmsum atriðum í lögregluskýrslu um atvikið, m.a. fullyrðingum um að Haukur hafi neitað að sleppa hálstaki á manninum þegar lögregla kom á vettvang og að lögregluþjónn hafi þurft að losa um takið. Brotaþolinn var þá meðvitundarlaus. Telja þeir að gögn úr búkmyndavélum lögreglu leiði í ljós að Haukur sleppti tökum sjálfur. Lögregla túlkar gögnin með öðrum hætti, en DV hefur ekki séð þessi gögn.
Lögreglukona sem kom á vettvang þessa nótt og skrifaði frumskýrslu um málið bar vitni í réttarhöldunum á föstudag. „Ég er á vakt og fær tilkynningu um að óskað sé eftir aðstoð, að maður hafi beitt stúlku kynferðisbroti og foreldrar hennar séu með hann í tökum,“ sagði konan.
Lögreglukonan segir að Haukur hafi verið með manninn í hálstaki þegar hún kom að, hún hafi horft framan í manninn sem var meðvitundarlaus og sagt Hauki að sleppa. „Þau sögðu, hann er að feika, hann er að feika,“ sagði lögreglukonan og átti við að Haukur og kærastan hafði viðhaft ummæli um að maðurinn væri að gera sér upp meðvitundarleysi.
„Ég tek í höndina á Hauki og losa takið,“ sagði hún, en eins og áður segir þá ber henni og Hauki ekki saman um þetta. Hún ræddi við kærustuna sem skýrði henni frá því að bílstjórinn hafði barið þau bæði með spýtu og þau hafi reynt að yfirbuga hann.
Lögreglukonan sagði ennfremur að brotaþolinn hefði ekki svarað áreiti. Aðspurð sagðist hún ekki telja að maðurinn hafi verið að gera sér upp meðvitundarleysi.
Hún var spurð hvort hún hefði orðið vör við áverka á Hauki og svaraði hún því játandi, hann hafi verið með stóra kúlu á enninu. Hún sagðist hins vegar ekki hafa séð spýtuna sem bílstjórinn barði Hauk með.
Lögreglukonan var spurð hvort hún teldi að Haukur hafi verið að reyna að ráða manninum bana. Hún sagðist telja svo ekki vera.
Dómur verður kveðinn upp í málinu innan fjögurra vikna.