Geirfinnsmálið er á leiðinni til Lögreglunnar á Suðurnesjum sem mun væntanlega taka ákvörðun um það hvort rannsókn málsins verði tekin upp aftur eða ekki.
Systir höfundar bókarinnar „Leitin að Geirfinni“, Sigurðar Björgvins Sigurðssonar, Soffía Sigurðsdóttir, gaf nýlega skýrslu um upplýsingar í málinu hjá Lögreglunni á Suðurlandi. Morgunblaðið greinir frá þessu.
Soffía gaf sína skýrslu hjá Lögreglunni á Suðurlandi þar sem hún býr í umdæminu. Lögreglan á Suðurlandi mun væntanlega senda málið áfram til Lögreglunnar á Suðurnesjum, þar sem rannsókn á hvarfi Geirfinns hófst upphaflega árið 1974, og lögreglan þar taka ákvörðun um hvort rannsókn verður opnuð að nýju eða ekki.
Höfundur og útgefandi bókarinnar hafa í nokkurn tíma reynt að koma gögnum um málið til dómsmálaráðuneytisins, þar sem þeir vilja að ákvörðun um að opna rannsóknina að nýju komið ofan frá en verði ekki í höndum Lögreglunnar á Suðurnesjum. Helsta gagnið er svokallaður 13. kafli bókarinnar en þar er nafn meint banamanns Geirfinns birt og upplýst um fjölskyldutengsl hans við Geirfinn og eiginkonu hans. Þar eru einnig reifaðar ásakanir um að lögreglan í Keflavík hafi á sínum tíma afvegaleitt rannsókn málsins viljandi.
Í bókinni sjálfri er greint frá vitnisburði sjónarvottar við bókarhöfund þess efnis að hann hafi orðið vitni að átökum Geirifnns við meintan banamann sinn inn um glugga að bílskúr. Sá hann að Geirfinnur var sleginn með hamri eða öðru þungu áhaldi í höfuðið, samkvæmt því sem stendur í bókinni.
Hvorki dómsmálaráðuneytið né embætti ríkissaksóknara hafa viljað taka við gögnum bókarhöfundar og útgefanda. Soffía segir við Morgunblaðið að hún hafi ekki afhent lögreglunni á Suðurlandi gögn en veitt þeim upplýsingar með framburði sínum. Þess má geta að bæði sjónarvottur og meintur banamaður Geirfinns eru á lífi í dag.