Réttarhöld eru hafin í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Hauki Ægi Haukssyni sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps. Ákært er vegna atviks sem átti sér stað á bílastæði fyrir utan fjölbýlishús í Norðlingaholti aðfaranótt laugardagsins 11. mars árið 2023. Haukur tók þá leigubílstjóra eða skutlara með kyrkingartaki og þrengdi að öndunarvegi hans. Í ákæru segir að lögregla hafi losað manninn úr taki Hauks og við atlöguna hafi árásarþolinn verið settur í lífshættulegt ástand sem hafi komið fram í meðvitundarskerðingu, krömpum og blóðsúrnum.
Haukur, sem er 36 ára gamall tveggja barna faðir, telur ákæruna fráleita, eins og hann fór yfir í viðtali við DV í byrjun febrúar. Árásarþolinn hafði áður gerst sekur um kynferðislega áreitni við unga stúlku, dóttur þáverandi kærustu Hauks, og telur Haukur sig hafa komið stúlkunni til bjargar, auk þess að stuðla að handtöku mannsins hjá lögreglu með því að halda honum föstum þar til lögregla kom á vettvang. Stúlkan hringdi grátandi í móður sína á meðan hún sat í bílnum og í kjölfarið fóru móðir hennar og Haukur út á plan til að taka á móti stúlkunni og koma henni til hjálpar.
„Ég held að flestir feður hefðu brugðist eins við og ég þetta kvöld,“ sagði Haukur Ægir Hauksson í örstuttu spjalli við DV fyrir réttarhöldin.
Haukur er bjartsýnn á hagstæða niðurstöðu í málinu, eða eins og hann segir: „Ef ég verð ekki sýknaður þá þurfum við að skoða dómskerfið okkar eitthvað betur.“ – Telur Haukur að héraðssaksóknari hafi aldrei átt að ákæra hann í málinu og að sumt í framburði lögreglumanna við skýrslutöku sé á skjön við gögn málsins, t.d. upptökur úr búkmyndavélum lögreglu á vettvangi. Þannig er því til dæmis haldið fram að losa hafi þurft árásarþolann úr tökum Hauks en það sé alrangt. Einnig hafi ekki verið tekið tillit til þess að árásarþolinn sló Hauk bylmingshöggi með kylfu í höfuðið rétt áður en Haukur sneri hann niður og náði taki á honum. Enn fremur bendir hann á að árásarþolinn hafi síðar verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur fyrrverandi kærustu Hauks þetta kvöld, en það styðji að Haukur hafi haft tilefni til að beita borgaralegri handtöku.
Þess má geta að Haukur afplánar núna fimm ára dóm fyrir hlutdeild sína í svokölluðu Sólheimajökulsmáli, en það er stórt fíkniefnamál, eða samsuða margra mála sem tengjast 18 manna hópi. Hann afplánar í opnu úrræði vegna góðrar hegðunar í fangelsi.
„Ég er enginn engill en ég vil bara taka út refsingu fyrir það sem ég hef raunverulega gert af mér, ekki fyrir upplognar sakir og vitleysu,“ sagði Haukur í áðurnefndu viðtali við DV.
Haukur bar vitni við réttarhöldin og hér að neðan það helsta úr skýrslugjöf hans.
Saksóknari bað Hauk um að lýsa því sem gerðist kvöldið örlagaríka. Hann sagðist hafa verið heima með þáverandi kærustu sinni og dóttir hennar, sem var þá nýorðin 18 ára hringdi í hann. Hún bað um að fá að koma til þeirra. Sagðist hún vera í leigubíl og Haukur reyndi að útskýra fyrir henni heimilisfangið. Fékk hann samband við leigubílstjórann og leiðbeindi honum um staðsetningu. Segir hann að leigubílstjórinn hafi talað bjagaða ensku og enga íslensku. Stúlkan kom aftur í símann og fór að gráta. Móðir stúlkunnar skynjaði hættu og fór út úr húsi á bílaplanið. Hún hringdi síðan í Hauk og sagði að dóttir hennar væri að koma inn til hans. Haukur fór út og mætti þar erlendum manni. Dóttirin hafði greint móður sinni frá því að maðurinn hefði brotið gegn henni kynferðislega.
Haukur og kærastan spurðu leigubílstjórann út í atvikið og ákvað kærastan að hringja í lögreglu. Haukur segir að þá hafi bílstjórinn brotnað niður og viðurkennt brotið. Var þetta inni í bíl mannsins og hófust upp úr þessi handalögmál á milli parsins og bílstjórans. Leikurinn barst út úr bílnum og þar mundaði bílstjórinn kylfu og barði Hauk í ennið.
Haukur segir að bílstjórinn hafi sótt að kærustunni með bareflinu og þá segist Haukur hafa ráðist á hann og reynt að afvopna hann. Tókst það og Haukur tók manninn hálstaki. Féllu þeir niður í planið og kærastan hringdi á lögregluna. Á meðan lögreglan var á leiðinni reyndi maðurinn ákaft að losa sig úr takinu. Haukur segist hafa haldið honum föstum en ekki hert takið.
Hann segist hafa lyft höndum þegar lögregla kom á vettvang. Segir hann manninn hafa verið með meðvitund þegar lögregla kom. Lögreglumaður fylgdi Hauki inn í íbúðina hans en síðan komu fleiri lögreglumenn inn í íbúðina og tilkynntu Hauki að hann væri handtekinn og þyrfti að koma með þeim niður á stöð. Segist hann hafa verið mjög ósáttur við þetta.
Bæði Haukur og kærasta hans voru handtekin og þeim var hent inn í fangaklefa. Hauki var tilkynnt að maðurinn lægi þungt haldinn á bráðadeild eftir átökin.
Saksóknari staðnæmdist við þann framburð Hauks að hann hafi ekki hert takið á manninum en samt hafi þetta verið mikil átök. Hann spurði líka hvernig Haukur hafi fylgst með ástandi mannsins til að geta fullyrt að hann hafi verið með meðvitund. Hann svaraði því meðal annars til að maðurinn hafi barist um og hann hafi fundið andardrátt hans við eyrað.
Haukur neitar því að maðurinn hafi verið meðvitundarlaus þegar lögregla kom á svæðið, eins og fullyrt er í lögregluskýrslum.
Aðspurður segist hann ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi sett manninn í lífshættulegt ástand og lýsti yfir efasemdum um að hann hafi verið í lífshættu. Saksóknari spurði hann þá hvort hann gerði sér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar hálstak gæti haft. Hann sagðist gera sér grein fyrir því að fólk gæti misst meðvitund við það.
Saksóknari spurði Hauk hvað honum hefði gengið til með hálstakinu og sagði hann það hafa verið til að vernda hann og kærustuna fyrir manninum og tryggja að lögregla gæti handtekið manninn.
Saksóknari spurði hann hvort hann hefði verið undir áhrifum fíkniefna þetta kvöld og sagði hann svo hafa verið. Hafi hann meðal annars neytt kókaíns. Hann sagði samt að neyslan hefði ekki brenglað dómgreind hans þetta kvöld og hann hafi vitað hvað hann væri að gera. Sagðist hann ekki vita hvernig hann hefði átt að bera sig öðruvísi að.
Haukur segir rangt sem kemur fram í lögregluskýrslum að hann hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að losa takið á manninum þegar lögregla kom á vettvang. Segist hann hafa losað takið.
Aðspurður hvorð það hafi verið ætlun hans að svipta manninn lífá neitaði hann því.
Haukur benti á að það væri sérkennilegt að reyna að svipta mann lífi og á sama tíma að kalla lögreglu á vettvang.