Háværar raddir eru uppi um að Rússar kunni að bera ábyrgð á eldsvoðanum við Heathrow-flugvöll og að hin meinta árás sé liður í skæruliðaárásum austurveldisins á innviði í Evrópu. Daily Mail fjallar um málið og segir að hryðjuverkadeild Scotland Yard rannsaki eldsupptök og beini sérstaklega sjónum sínum að því hvort fótur sé fyrir þessum kenningum.
Þá sé grafalvarlegt að svo mikilvægir samfélagsinnviðir eins og Heathrow-flugvöllur liggi svo auðveldlega við höggi.
Yfir 1.300 flug til og frá Heathrow, sem er fjölfarnasti flugvöllur Bretlands, urðu fyrir áhrifum vegna eldsvoðans og þurfti ýmist að aflýsa þeim eða beina þeim á aðra flugvelli.
Eldurinn kviknaði í tengivirki við bæinn Hayes, sem er skammt frá flugvellinum stóra. Auk áhrifanna á flugvöllinn þurftu um 150 íbúar að rýma hús sín í grennd við tengivirkið.
Ráðamenn ríkja í Vestur-Evrópu hafa um skeið ítrekað sakað Rússa um ýmis skemmdarverk um álfuna alla og haldið því fram að þær séu liður í því að skapa usla og sá fræjun óeiningar varðandi stuðning við Úkraínu meðal bandalagsríkja. Til að mynda halda Frakkar því fram fullum fetum að Rússar hafi staðið á bak við skemmdarverk á lestarkerfum Parísarborgar í aðdraganda Ólympíuleikanna í fyrra.
Rússar hafa hins vegar þráfaldlega neitað því að standa á bak við slíkar árásir.