Listamaðurinn Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson, fær ekki að sýna meistaraverkefnið sitt í háskóla í Noregi. Ástæðan er sú að bakkalárverkefnið hans, „Sorry“ endaði fyrir dómstólum.
Norski ríkismiðillinn NRK greinir frá þessu.
Í nóvember var sett lögbann á bakkalárverkefni Odee af dómstól í Bretlandi. Hafði hann sett upp heimasíðu sem leit út fyrir að vera heimasíða á vegum útgerðarfélagsins Samherja þar sem stóð „Sorry“. En eins og flestir vita þá hefur gustað um útgerðarfélagið vegna ásakana um mútugreiðslur í Namibíu.
Á þeim tíma stóð skólinn hans, Háskólinn í Björgvin í Noregi, þétt við bakið á honum. Birt var yfirlýsing þar sem sagði að tjáningarfrelsið væri hornsteinn frjáls samfélags.
Nú virðist hins vegar sem skólinn hafi snúið við honum baki. Þann 11. apríl næstkomandi sýna 30 útskriftarnemar lokaverkefni sín í sýningarsalnum í Bergen Kunsthall. Odee er þar ekki á meðal.
„Meistaraverkefni mitt fyrir útskriftarsýninguna hefur verið ritskoðað fyrir fram og tekið úr sýningunni,“ segir Odee við NRK.
Forsvarsmenn Háskólans í Björgvin segja hins vegar aðra sögu og að það sé ástæða fyrir því að verkið fái ekki að vera á sýningunni. Það er að Odee hafi neitað að segja skólanum hvers konar verk hann hyggist setja upp eða um hvað meistararitgerðin sé. Einnig að hann sjálfur hafi sérstaklega beðið um að hann yrði ekki nefndur í kynningartexta fyrir sýninguna.
Odee hefur sagt að hann hyggist búa til veggmynd. 2,2 metra háa og 10 metra langa. En ekki hvað verður á þessari veggmynd.
„Á veggmyndinni verður þykkur og áberandi texti sem ætlað er að vekja umhugsun og áhuga áhorfenda. Verkið mun ekki valda neinum fyrirséðu heilsutjóni eða áhættu fyrir mig eða aðra,“ sagði Odee.
Að mati háskólans er þetta ekki nægar upplýsingar. Sér í lagi vegna þess að Odee hafi ýjað að því að eitthvað ólöglegt myndi eiga sér stað á sýningunni.
Leiðbeinandi Odee, Frans Jacobi, sendi honum tölvupóst þann 4. mars. Þar stóð að KMD, lista, tónlistar og hönnunardeild háskólans, yrði ekki gerð ábyrg fyrir ólöglegum athöfnum. Deildin þyrfti að fá að vita hvers eðlis verkið yrði áður en það yrði samþykkt. Deildin þyrfti að meta áhættuna af verkinu.
Jacobi talar hins vegar á jákvæðan hátt um ögrandi list Odee. Það er að viðbrögð og dómstólar hafi orðið hluti af listaverki. Deilur Odee og háskólans núna séu mjög áhugaverðar út frá listrænu sjónarmiði séð en að Jacobi sé í erfiðri stöðu.
„Ég veit ekki enn þá hvað verður í meistaraverkefninu og lokaafurðinni,“ sagði leiðbeinandinn. „Ef ég ætla að styðja þig á verð ég að vita hvað það er sem ég er að styðja.“