Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í málfræði, gagnrýnir Kristinn Karl Brynjarsson, formann verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, fyrir að vísa til Ingu Sæland sem „frú Sæland.“ Það sé sérlega ómerkileg aðferð að gera lítið úr fólki með því að kalla það öðru nafni eða afbaka nafn þess.
Í grein á Vísi vísar Eiríkur til greinar Kristins frá því í gær sem ber yfirskriftina „Misskilningur frú Sæland“ og fjallar um Evrópumál. Inni í greininni er einnig vísað til „frú Sæland.“
„Þarna er beitt vel þekktri og alveg sérlega ómerkilegri aðferð við að gera lítið úr fólki – að kalla það öðru nafni en venja er eða afbaka nafn þess á einhvern hátt,“ segir Eiríkur. „Á yfirborðinu er „frú Sæland“ vitanlega mjög virðulegt og hátíðlegt en engum blandast hugur um að með þessum titli er verið að tala niður til ráðherrans á einkar ósmekklegan hátt. En því miður er slík misþyrming mannanafna algeng í opinberri umræðu og ekki síst beitt gagnvart konum.“
Nefnir hann að þetta hafi verið sérstaklega áberandi hjá Morgunblaðinu og sé ótrúlegt að slíkt skuli tíðkast í ritstjórnarefni blaðs sem vilji láta taka sig alvarlega. Nefnir hann dæmi því til stuðnings.
„Eitt sinn tóku Staksteinar það eftir bloggara nokkrum að uppnefna formann Viðreisnar og kalla hana Tobbu Kötu,“ segir Eiríkur. „Þetta vakti réttmæta hneykslun margra – það er ótrúlegt að uppnefni skuli enn tíðkast í pólitískri umræðu á Íslandi. En þetta er ekki einsdæmi – fyrrverandi forsætisráðherra var stundum kölluð Kata Jak eða jafnvel Kata litla í opinberri umræðu, Jóhanna Sigurðardóttir var iðulega kölluð Jóka, og svo mætti lengi telja. Með þessu er auðvitað verið að tala niður til fólks – langoftast kvenna – og gera lítið úr því.“
Fleiri dæmi reifar Eiríkur, svo sem að Morgunblaðið hafi kallað Jón Gnarr, Jón Gunnar Kristinsson eða Jón G. Kristinsson, nafn sem hann kýs ekki að nota.
„Tungumálið er öflugt valdatæki – í raun öflugasta valdatæki sem fólk í lýðræðisþjóðfélagi býr yfir,“ segir Eiríkur að lokum. „Á okkur hvílir sú ábyrgð að beita þessu valdatæki til góðs en ekki til að meiða annað fólk. Fátt er okkur hjartfólgnara en nafnið. Það hefur verið hluti af okkur frá því að við munum fyrst eftir okkur og við samsömum okkur því. Þess vegna á ríkisvaldið ekki að skipta sér af því hvaða nöfn foreldrar gefa börnum sínum eða hvaða nöfn fullorðið fólk kýs sér. Og þess vegna er það alvarleg og í raun fyrirlitleg árás á fólk að breyta nafni þess, skrumskæla það eða misþyrma á einhvern hátt. Eins og dæmin sýna er þessari aðferð ekki síst beitt af karlrembum til að niðurlægja konur og gera lítið úr málflutningi þeirra, en segir mest um þá sem beita henni.“