Carbfix mun ekki reisa kolefnisförgunarstöð sunnan við Vallahverfið í Hafnarfirði eins og til stóð. Andstaða hefur verið mikil við verkefnið og fyrirtækið hyggst beina kröftum sínum annað.
Vísir greinir frá þessu.
Á meðal þeirra sem hafa lýst efasemdum um verkefnið eru bæjarstjóri og bæjarfulltrúar í meirihluta Hafnarfjarðarbæjar. Fjölmargir íbúar hafa látið í sér heyra og mótmælt verkefninu, einkum íbúar á Völlunum sem telja um tilraunaverkefni sé að ræða sem gæti haft slæmar afleiðingar í för með sér. Svo sem á grunnvatn og berglög.
Bæjarstjórn lofaði íbúum að ef hún myndi samþykkja verkefnið þá yrði það sett í íbúakosningu. Nú er ljóst að ekkert verður af verkefninu.