fbpx
Föstudagur 21.mars 2025
Fréttir

Ásthildur Lóa fær stuðning úr mörgum áttum – „Ég vil ekki endilega vammlausan barnamálaráðherra“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. mars 2025 10:57

Ásthildur Lóa í viðtalinu. Skjáskot/RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og öllum ætti að vera kunnugt hefur Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra sagt af sér embætti eftir að upplýst var að hún hefði þegar hún var 22 ára, undir lok níunda áratugar síðustu aldar, getið barn með 16 ára pilti.

Skoðanir hafa verið skiptar og hefur ráðherrann hlotið gagnrýni fyrir þetta. Einnig hefur gagnrýni beinst að því hvernig Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hélt á málinu eftir að henni bárust upplýsingar um það. Ásthildur Lóa sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hún fer ítarlega yfir samskipti sín við þennan barnsföður sinn og hafnar því alfarið að hafa verið leiðbeinandi hans í trúarlegum samtökum eins og haldið hefur verið fram.

Nú í morgun hafa birst þó nokkur innlegg á samfélagsmiðlum þar sem Ásthildi Lóu er komið til varnar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fjölmiðlakona veltir fyrir sér hvötum þess einstaklings sem vatt málinu af stað með því að snúa sér til forsætisráðuneytisins:

„Mig langar að vita hvaða knýjandi þörf varð til þess að konan sem hratt þessu máli af stað ákvað að fara í þessa krossferð til að skemmta skrattanum. Voru það kannski lægri og ömurlegri hvatir heldur en stjórnuðu gerðum kornungs fólks í trúarsöfnuði fyrir 35 árum?“

Vammlaus eður ei

Þóra Kristín segir að henni finnist barnamálaráðherra ekki eiga að vera fullkominn:

„Einhvern tímann heyrði ég að versta fólkið í barnaverndarnefndum væri ofsatrúarfólk og hatrammt bindindisfólk. Ég vil ekki endilega vammlausan barnamálaráðherra, ég vil frekar breyska manneskju sem getur skilið núansana í tilverunni. Verða börn betur sett með harðlæstan og lokaðan barnamálaráðherra í gráum jakkafötum sem hefur aldrei misstigið sig? Eitt er víst. Morgunblaðið mun ekki linna látum fyrr en það verður búið að hýða og hengja opinberlega alla þingmenn Flokks fólksins sem vildu frekar ganga inn í núverandi ríkisstjórn en að greiða götu þeirra. Siðfræðingar flokksins munu síðan míga á gröfina og þjóðin klappa fyrir mestu hræsnurunum.“

Bjarni Harðarson rithöfundur, bókaútgefandi og fyrrum alþingismaður telur málið bera keim af dómstóli götunnar:

„Skinhelgi okkar daga í kynferðismálum nær nýjum og áður óþekktum hæðum í fréttum dagsins. Það sér það vitaskuld hver maður að kynferðislegt samband tveggja ungmenna sem leiðir til getnaðar á ekkert skylt við glæp og er heldur ekki neitt óeðli, jafnvel þótt annar aðilinn hafi verið einhvers konar leiðbeinandi hins. Ég minni á að einmitt svona var samband Daða og Ragnheiðar sem mörgum þykir nú fögur ástarsaga. En fjölmiðlar, beturvitar og dómstóll götunnar taka sér Brynjólf biskup Sveinsson til fyrirmyndar. Svei því alla daga!“

Bjarni kannaði málið nánar:

„Mér datt í hug að fletta ráðherranum fyrrverandi upp í gömlum Espólín- ættfræðigrunni (sem margir hafa afrit af) og sé ekki betur en að þar sé þetta barn sem fæddist 1990 kennt sínum líffræðilega föður. Ef að þetta er glæpur sem komst upp um nú, beinagrind í skáp ráðherrans, þá var þetta allavega ekki vel falinn glæpur og skápurinn svo sannarlega opinn upp á gátt. Ef barnsfaðirinn ætlar ekki að kæra ráðherrann fyrrverandi fyrir nauðgun þá er allt þetta mál hin mesta vitleysa.“

Gömul mál

Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður og formaður úrskurðarnefndar lögmanna telur að það eigi ekki að eltast við svona gömul mál:

„Skil að hún kjósi að segja af sér en almennt tel ég að þjóðfélagið eigi ekki að eltast við 30 ára gamlar syndir. Mér líst illa á slíkt. Þá bara skiptast ráðamenn í þá sem hafa gert eitthvað sem ekki hefur komist í hámæli og hina sem þurftu frá að hverfa út af slíku. Færri hafa ekkert slíkt í pokahorninu.“

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir að það sé niðurstaða sín að Ásthildur Lóa eigi ekki að þurfa einnig að segja af sér sem þingmaður:

„Þar er fyrst til að taka að Ásthildur Lóa braut ekki lög – og eins og ég skil þetta – er ekki hægt að dæma hana eftir núgildandi lögum enda þótt þau segi að mál fyrnist ekki. Því nýju lögin eru ekki afturvirk og gilda aðeins frá setningardegi. Þá braut Ásthildur Lóa ekki siðareglur fyrir alþingismenn og ekki heldur siðareglur fyrir ráðherra því þær reglur voru ekki til þegar þetta gerðist og hún var þá hvorki alþingismaður né ráðherra. Því síður hefur hún brotið þær reglur í dag. Hennar ávirðingar virðast hafa verið – eftir að í ljós hefur komið að hún var ekki leiðbeinandi piltsins eða á nokkurn hátt umsjónarmaður hans – að tálma umgengni barnsins við föður sinn. Og það er mjög óheppilegt fyrir barnamálaráðherra og af þeim sökum sagði hún af sér ráðherradómi. Það tel ég eðlilegt. (Þannig tel ég að úrvinnsla þessa viðkvæma máls hjá ríkisstjórninni (formönnunum) hafi verið eðlileg og til fyrirmyndar.) En það væri rangt af Ásthildi Lóu – og það er rangt að krefjast þess – að hún segi af sér sem alþingismaður.“

Pólitískir andstæðingar

Guðmundur Týr Elíasson hlaðvarpsstjórnandi og oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, kjördæmi Ásthildar Lóu, í alþingiskosningunum í nóvember telur málið ekki merkilegt:

„Lýðveldið Ísland fer á hliðina yfir ungu fólki sem gerði dodo fyrir 35 árum. Hefur fólk ekkert betra að gera?“

Elliði Vignisson er eins og vel þekkt er virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins en er nú um stundir bæjarstjóri í Ölfusi. Hann telur ljóst að verið sé að dæma fortíðina út frá gildum samtímans:

„Nýjasta dæmið um núgildingu er umfjöllun um þá staðreynd að barnamálaráðherra eignaðist fyrir áratugum barn með barni. Hún var þá 22 ára og hann 16 ára. Hér verður slíku ekki mælt bót en á það þó bent að núgilding þessara atburða getur leitt til ósanngjarnrar dómhörku og mistúlkunar á því samhengi sem liggur til grundvallar atburðunum.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Réttarhöld hafin yfir Hauki sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps – „Flestir feður hefðu brugðist eins við og ég þetta kvöld“

Réttarhöld hafin yfir Hauki sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps – „Flestir feður hefðu brugðist eins við og ég þetta kvöld“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Gunnar Smári um upplausnina í Sósíalistaflokknum – „Ég mun hins vegar ekki láta undan loddaraskap Karls Héðins“

Gunnar Smári um upplausnina í Sósíalistaflokknum – „Ég mun hins vegar ekki láta undan loddaraskap Karls Héðins“
Fréttir
Í gær

Óeining í Skagafirði um framtíð Héraðsvatna

Óeining í Skagafirði um framtíð Héraðsvatna
Fréttir
Í gær

Yfirflugfreyja segir Margréti hafa verið drukkna og mjög æsta – „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“

Yfirflugfreyja segir Margréti hafa verið drukkna og mjög æsta – „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“