fbpx
Föstudagur 21.mars 2025
Fréttir

Yfirflugfreyja segir Margréti hafa verið drukkna og mjög æsta – „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 20. mars 2025 12:30

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flugstjóri hjá Icelandair, sem bar vitni í skaðabótamáli Margrétar Friðriksdóttur gegn Icelandair, við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun, segir að Margrét hafi gert tilraun til að fara inn í flugstjórnarklefa í aðdraganda þess að henni var vísað frá borði í farþegaflugi til München haustið 2022.

Segir flugstjórinn að slíkt sé mjög alvarlegt brot.

Margrét var ásamt nokkrum öðrum aðilum á leiðinni til Rússlands með tengiflugi frá München og Istanbul. Um var að ræða boðsferð í tengslum við kosningar um sjálfsstjórn í rússneskumælandi héruðum í Úkraínu. Margrét var með mikinn myndavélabúnað með sér en ætlunin var að gera heimildarmynd um kosningarnar og samskipti Úkraínu og Rússlands. Í kjölfar ágreinings um stærð handfarangurstösku Margrétar og um hvort grímuskylda væri um borð var Margréti vísað frá borði í lögreglufylgd og gat ekki farið í ferðina. Af þessum ástæðum krefst hún rúmlega 24 milljóna króna frá Icelandair í skaðabætur og snýst megnið af upphæðinni um áætlað verðmæti heimildarmyndarinnar sem átti að gera.

Sjá einnig: Réttarhöld hafin í máli Möggu Frikka gegn Icelandair – „Þá ferð þú ekki með þessu flugi“

Flugstjórinn segist hafa heyrt einhver læti inni í flugstjórnarklefanum er hann var að undirbúa sig fyrir flug. Flugfreyja kom til hans og lýsti erfiðum samskiptum við farþega. Flugfreyjurnar sögðust ekki treysta sér til að hafa þessa manneskju í flugi vegna vanstilltrar framkomu. „Ég gat ekki skikkað þær til að hafa einhverja manneskju með sem þær treystu sér ekki til að hafa um borð,“ segir flugstjórinn.

Sagðist hann hafa heyrt hvöss orðaskipti og reynt hafi verið að fá Margréti til að róa sig. Segir hann að hún hafi gert sig líklega til að stíga inn í flugstjórnarklefann „til að biðja mig um að taka sig með“. – Segir hann að slík framkoma sé mjög alvarleg. „En það vannst fljótt úr þessu og því ekki sérstök ástæða fyrir okkur að skipta okkur af,“ sagði hann og sagðist hafa treyst flugfreyjunum til að leysa málið.

Hann segir að ekki hafi verið ástæða til að höndla málið á annan hátt en gert var, sem var að Margréti var vísað frá borði og hún missti af fluginu.

Flugstjórinn sagði að starfsfólk hefði átt í erfiðum samskiptum við Margréti við innritun og skildist honum að það hafi verið vegna töskunnar, sem var álitin vera of stór. Lögmaðurinn sýndi honum mynd af töskunni og spurði hvort um sömu tösku væri að ræða. Mátti skilja á lögmanninum að taskan gæti varla hafa verið of stór.

Aðspurður hvaða öryggissjónarmið hafi verið uppi vísaði hann til reglna um viðbrögð við farþegum sem eru með uppsteytt og læti. Sagði hann jafnframt að þarna hafi ekki verið vilji til að fara eftir covid-reglum. Sagði hann að þegar farþegar vilji ekki fara eftir reglum og séu jafnvel í annarlegu ástandi þá sé brugðist við með ákveðnum hætti.

„Þetta lýsir ástandinu á manneskjunni,“ sagði flugstjórinn og gaf í skyn að Margrét hefði verið í annarlegu ástandi.

„Hávaðaöskurrifrildi“ við farþega

Samferðakona Margrétar í ferðinni, Erna Ýrr Öldudóttir, lýsti yfir undrun með framkomu og viðbrögð flugfreyjanna. Hún segir að þær báðar (hún og Margrét) hafi verið mjög stressaðar fyrir ferðinni sem borið hafi að með stuttum fyrirfara, fram undan var langt flug og Margrét var með mjög dýran og viðkvæman búnað meðferðis.

Athugasemdir við handfarangurstösku Margrétar hafi ekki verið eðlilegar enda hafi verið um að ræða ósköp venjulega handfarangurstösku. Það hafi verið skiljanlegt að Margrét kæmist í mikið uppnám en í stað þess að róa ástandið hafi flugfreyjurnar æst sig á móti og stigmagnað upp spennuna.

„Mér fannst þetta allt með miklum ólíkindum,“ sagði Erna og segir fullyrðingar flugfreyjanna um að það væri ekki pláss fyrir töskuna vera lygi.

„Ég er sjálf í þjónustustarfi þar sem ég tek á móti og tala við fólk í alls konar ástandi og það sem maður gerir ef gestir eru áhyggjufullir þá reynir maður að róa ástandið en ekki spóla samtalið upp í hávaðarifrildi, eins og flugfreyjan gerði. Ástandið var mjög stressandi og farþegar horfðu á starfsfólk Icelandair í hávaðarifrildi við farþega út af venjulegri handfarangurstösku og grímum sem við áttum ekki einu sinni að vera með. Þetta var rosalega skrýtið og það er rosalega óþægilegt að hugsa um þetta. – Ég hef aldrei fengið neitt annað en frábæra þjónustu hjá þessu flugfélagi og öðrum flugfélögum. En þarna var starfsfólkið í hávaðaöskurifrildi við farþega áður en lagt var af stað.“

Ernu fannst viðbrögð flugfreyjunnar ekki samrýmast starfi hennar. Hún viðurkenndi að Margrét hefði verið mjög æst en sagði að það hefði verið eðlilegt að hún kæmist í uppnám.

Aðspurð sagðist hún kannast við að Margrét hafi verið beðin um að róa sig og sýna stillingu áður en henni var vísað frá borði. Sagði hún að Margrét hefði orðið við því og róað sig.

Segist sérþjálfuð í að meðhöndla flugdólga

Yfirflugfreyja hjá Icelandair bar vitni og sagði að ákvörðunin um að vísa Margréti frá borði hafi verið rétt. Hún hafi verið það æst og ekki hafi tekist að róa hana niður þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir flugfreyjanna til þess.

Segir hún að Margrét hafi verið í annarlegu ástandi og augsýnilega mjög drukkin. Karlmaður sem var með henni í ferðinni tjáði henni að mikil áfengislykt hefði verið af Margréti er hann sótti hana eldsnemma um morguninn fyrir flugið. Segir hún jafnframt að þessi maður hafi reynt að róa Margréti niður.

Hafi hann hrist á henni axlirnar og sagt: „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“

Varðandi ágreininginn um töskuna benti yfirflugfreyjan á að starfsfólk á jörðu niðri hefði skilgreint töskuna sem farangur sem ætti að fara í almennt farangursrými og hafi hún borið límmiða til merkis um það. Það þýddi að þeim hafi verið óheimilt að leyfa að taskan yrði í farþegarými. Enn fremur staðfesti hún að grímuskylda hafi ríkt varðandi allar ferðir til og frá Þýskalandi og hafi farþegar verið með grímur. Segir hún að Margrét hafi eftir nokkurt þref sett upp grímu en hún hafi haft grímuna niðri við höku og ekki sett hana yfir nef.

„Við erum ofboðslega vel þjálfuð og sérþjálfuð í að meðhöndla flugdólga,“ sagði yfirflugfreyjan og benti á að kollegi hennar, önnur flugfreyja, hafi árangurslaust reynt að róa Margréti niður, hún hafi síðan komið með hana inn í fremra eldhús svo þær gætu átt við hana tvær saman. Margrét hafi verið ofbeldisfull í orðum og mjög æst. Hún tók hins vegar fram að Margrét hefði ekki beitt líkamlegu ofbeldi.

Yfirflugfreyjan sagði að hún hefði lent í miklu verri aðstæðum en þessum og vissi hvernig takast ætti á við æsta farþega. Hún hefði hins vegar ekki áður lent í því að vísa farþega frá borði.

Lögmaður Margrétar sýndi yfirflugfreyjunni ljósmynd af hinni umdeildu ferðatösku Margrétar og spurði hana hvort þetta væri of stór taska fyrir farþegarými. Hún gat ekki staðfest það en sagði að til að meta þetta þyrfti hún að sjá umfang töskunnar eins og það var þegar þessi atvik áttu sér stað.

Eftir er málflutningur lögmanna í málinu en vitnaleiðslum er lokið. Aðalmeðferð lýkur síðar í dag en dómur verður kveðinn upp eftir fjórar vikur eða fyrr.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Þetta er hamingjusamasta þjóð heims – Ísland ofarlega á lista

Þetta er hamingjusamasta þjóð heims – Ísland ofarlega á lista
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Varpar ljósi á það sem hefur gerst á bak við tjöldin – „Litlu framleiðendurnir verða að lækka verð sitt um tugi prósenta”

Varpar ljósi á það sem hefur gerst á bak við tjöldin – „Litlu framleiðendurnir verða að lækka verð sitt um tugi prósenta”
Fréttir
Í gær

Gufunesmálið: Maðurinn dó eftir að árásarmennirnir komust yfir fjármuni hans

Gufunesmálið: Maðurinn dó eftir að árásarmennirnir komust yfir fjármuni hans
Fréttir
Í gær

Hneykslast á umræðunni um Höllu: „Það er eins gott að ég varð ekki forseti, Morgunblaðið gæti fengið flog“

Hneykslast á umræðunni um Höllu: „Það er eins gott að ég varð ekki forseti, Morgunblaðið gæti fengið flog“
Fréttir
Í gær

Garpur: „Þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“

Garpur: „Þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fundu 30 ára uppsafnaðan forhúðarost hjá giftum manni – Óbærileg fýla á læknastofunni

Fundu 30 ára uppsafnaðan forhúðarost hjá giftum manni – Óbærileg fýla á læknastofunni