fbpx
Föstudagur 21.mars 2025
Fréttir

Réttarhöld hafin í máli Möggu Frikka gegn Icelandair – „Þá ferð þú ekki með þessu flugi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 20. mars 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð stendur núna yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur, í einkamáli þar sem Margrét Friðriksdóttir stefnir Icelandair og krefst rúmlega 24 milljóna króna í skaðabætur vegna þess að henni var vísað frá borði úr flugvél Icelandair sem flaug til München en lokaáfangstaður var Rússland.

Atvikið átti sér stað haustið 2022. Eftir árangurslausar sáttatilraunir ákvað Margrét að stefna flugfélaginu en málið hefur dregist nokkuð, meðal annars vegna tilrauna Icelandair til að fá því vísað frá dómi á grundvelli þess að stefnu Margrétar sé áfátt. Á það hafa dómstólar ekki fallist. Núna er málið komið til aðalmeðferðar og búast má við dómsniðurstöðu eftir fjórar vikur.

Margrét lenti í orðaskaki við flugfreyju um borð í vélinni og snerist ágreiningurinn bæði um stærð handfarangurs og grímuskyldu. Orðaskiptum þeirra lauk með því að Margréti var vísað frá borði og lögregla var kölluð til.

Sagði flugfreyjuna hafa fylgst með henni

Fyrir dómi skýrði Margrét frá því að henni hefði boðist að fara til Úkraínu og Rússlands með litlum fyrirvara til að fylgjast með kosningum, sem fréttamaður. Kom hún snemma í Leifsstöð þennan morgun og var ósofin. Lýsti hún því að hún hafi fengið sér morgunverð og drykk í flugstöðinni. Er hún var í röðinni í landganginum segist hún hafa tekið eftir því að tiltekin flugfreyja veitti henni mikla athygli.

Sjá einnig: Yfirflugfreyja segir Margréti hafa verið drukkna og mjög æsta – „Margrét, ætlarðu að eyðileggja orðspor þitt?“

Vék Margrét síðan að töskunni umdeildu og sagði að um hafi verið að ræða sérhannaða „cabin“-tösku, ætluð sem handfarangur. Sagði hún að rándýr upptökubúnaður og önnur raftæki hafi verið í töskunni. Segir Margrét að flugfreyjan hafi sagt henni að taskan væri of stór. Margrét neitaði því og sagðist hafa farið oft með töskuna í flug. Flugfreyjan stóð föst á sínu og Margrét útskýrði fyrir henni að mjög viðkvæmt innihald væri í töskunni. Flugfreyjan sagði að hún gæti tekið tölvuna með sér en Margrét sagði að það væri miklu meira en tölva í töskunni. Flugfreyjan sagði jafnframt að það væri fullt í vélinni og ekki pláss fyrir töskuna.

„Ég sá fyrir mér að þetta myndi ekki enda vel“

„Þá ferð þú ekki með þessu flugi,“ sagði  flugfreyjan og sagði að Margrét yrði að fara frá borði ef hún skildi töskuna ekki eftir. Segist Margrét hafa farið í mikið uppnám út af þessari uppákomu og farið að gráta. „Ég sá fyrir mér að þetta myndi ekki  enda vel,“ sagði Margrét. Sagði hún að sérhannaðar handfarangurstöskur eins og þessi ættu alls ekki heima í almennu farangursrými.

Sagðist hún þó hafa fallist á að hafa töskuna ekki með. Hún sá síðan að nægilegt farangurspláss var fyrir töskuna í farangursrýminu fyrir ofan sætið hennar. Kallaði hún til flugfreyjuna og bað um skýringar á þessu. Hún áttaði sig síðan á því líka að vegabréfið hennar var í töskunni. „Þetta er bara ákveðið, þessi taska kemur ekki hingað inn,“ sagði flugfreyjan og bætti því síðan við að það væri grímuskylda um borð vegna þess að það væri grímuskylda í Þýskalandi. „En þú ert ekki sjálf með grímu,“ benti Margrét flugfreyjunni á og sagðist flugfreyjan þá eiga eftir að setja upp grímuna.

Stuttu síðar kom flugfreyjan til Margrétar og sagði að það hafi verið ákveðið að Margrét færi frá borði. Ef hún hlýddi því ekki yrði hringt á lögregluna. Þegar þarna var komið sögu var Margrét búin að ganga að kröfum flugfreyjunnar um að láta frá sér töskuna og setja upp grímu.

Margrét kallaði síðan til flugstjórans hvort hann væri sammála því að ætti að vísa henni frá borði. „Þær ráða þessu bara,“ sagði flugstjórinn.

Stuttu síðar kom lögreglan og fylgdi Margréti úr úr vélinni. Taskan umdeilda stóð hins vegar ein og yfirgefin við landganginn. Margrét fór burtu með lögreglunni og segir hún að aðspurðum hafi lögreglumönnunum fundist skrýtið að verið væri að vísa henni frá borði.

Hún segist hafa fundist skrýtið að eftir að hún var komin heim og flugvélin var ekki enn lent í München hafi Fréttablaðið hringt í hana og spurt hana út í málið. Hafði einhver haft samband við fjölmiðilinn og sagt að Margrét hefði látið öllum illum látum í flugvélinni. Segir hún að Icelandair hafi lekið meiri upplýsingum í fjölmiðla um málið en upplýsingarnar sem hún fékk.

Lögmaður Margrétar spurði hana hvort flugfreyjan hefði haft eitthvert tilefni til að veita henni sérstaka athygli. Sagðist Margrét telja að um hafi verið að ræða persónulega óvild en Margrét hafi verið þekkt andlit á þessum tíma vegna andstöðu hennar við sóttavarnareglur og bóluefni.

Lögmaður Icelandair spurði Margréti út í hvað hún hefði drukkið fyrir ferðina og sagðist hún hafa fengið sér einn drykk og kaffi. Aðspurð sagðist hún ekki hafa drukkið áfengi áður en á flugvöllinn kom. Hann spurði jafnframt hvort umrædd samskipti hefðu verið við eina flugfreyju eða fleiri. Sagðist hún hafa átt í samskiptum við tvær flugfreyjur.

Lögmaðurinn spurði hvort mögulega hafi taskan ekki passað í farangursgrind vegna þess hvernig hún pakkaði í hana. Hún sagði það vera mögulegt en engu að síður hefði starfsfólkið sýnt mikil óliðlegheit.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Þetta er hamingjusamasta þjóð heims – Ísland ofarlega á lista

Þetta er hamingjusamasta þjóð heims – Ísland ofarlega á lista
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Varpar ljósi á það sem hefur gerst á bak við tjöldin – „Litlu framleiðendurnir verða að lækka verð sitt um tugi prósenta”

Varpar ljósi á það sem hefur gerst á bak við tjöldin – „Litlu framleiðendurnir verða að lækka verð sitt um tugi prósenta”
Fréttir
Í gær

Gufunesmálið: Maðurinn dó eftir að árásarmennirnir komust yfir fjármuni hans

Gufunesmálið: Maðurinn dó eftir að árásarmennirnir komust yfir fjármuni hans
Fréttir
Í gær

Hneykslast á umræðunni um Höllu: „Það er eins gott að ég varð ekki forseti, Morgunblaðið gæti fengið flog“

Hneykslast á umræðunni um Höllu: „Það er eins gott að ég varð ekki forseti, Morgunblaðið gæti fengið flog“
Fréttir
Í gær

Garpur: „Þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“

Garpur: „Þetta er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fundu 30 ára uppsafnaðan forhúðarost hjá giftum manni – Óbærileg fýla á læknastofunni

Fundu 30 ára uppsafnaðan forhúðarost hjá giftum manni – Óbærileg fýla á læknastofunni