Deilt var á fundi byggðaráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar síðasta þriðjudag um hvort virkja eigi í Héraðsvötnum eða ekki. Tilefnið var að Alþingi óskaði eftir umsögn um þingsályktunartillögu til breytingar á þingsláyktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt tillöguna fram en í henni kemur fram að fyrirhugaðar virkjanir í Héraðsvötnum verði í rammaáætlun færðar úr biðflokki í verndarflokk. Ljóst er að alls enginn einhugur er í byggðaráði Skagafjarðar um virkjanir í Héraðsvötnum og fór svo að byggðaráðið sendi þrískipta umsögn um tillöguna.
Fyrir þá lesendur sem eru ekki kunnugir Héraðsvötnum þá er um að ræða jökulá sem myndast þegar Austari- og Vestari-Jökulsá koma saman neðan við bæinn Tunguháls en þær koma báðar undan Hofsjökli. Auk þess renna nokkrar smærri ár í Héraðsvötn sem renna síðan í norðurátt og út í Skagafjörð.
Samkvæmt tillögu Jóhanns stendur til að færa þær fjórar virkjanir í Héraðsvötnum sem hafa verið hluti af rammaáætlun úr biðflokki í verndarflokk. Þar er um að ræða Skatastaðavirkjun C, Skatastaðavirkjun D, Villinganesvirkjun og Blanda, Vestari-Jökulsá.
Í greinargerð með tillögunni segir að þegar virkjunarkostirnir voru settir í biðflokk en ekki verndarflokk eins og upphaflega hafi staðið til hafi ástæðan verið sú að fram hafi komið ábendingar um að neikvæð áhrif virkjunarkostanna á vistgerðir með verulega hátt verndargildi, og þá sérstaklega flæðiengjar, kynnu að vera ofmetin. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu hafi verkefnisstjórn rammaáætlunar ákveðið að fela faghópi 1, einum af fleiri faghópum sem fjalla um virkjanakosti rammaáætlunar, en hann fjallar um náttúru- og menningarminjar, að vinna rannsóknir og mat á á því hvort áhrifin hefðu verið ofmetin eða ekki.
Faghópurinn hafi fjallað um málið og skilað greinargerð til verkefnisstjórnar þar sem niðurstaðan hafi verið að ekki hafi verið um ofmat að ræða á áhrifum fyrirhugaðra virkjana í Héraðsvötnum. Í ljósi þessa leggi verkefnisstjórnin til að virkjunarkostirnir fjórir verði flokkaðir aftur í verndarflokk.
Byggðaráð Skagafjarðar lítur þessi áform afar ólíkum augum. Lagðar voru þrjár mismunandi bókanir fram á fundinum sem síðan rötuðu allar í umsögn byggðaráðs til Alþingis.
Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalistans vildi skoða málið betur. Hún sagði að mikilvægt væri að kannaðir verði allir kostir og gallar virkjunarkosta Héraðsvatna. Hún telji ekki tímabært að tekin sé afstaða til þess hvort virkjunarkostir eigi að fara í nýtingarflokk eða verndarflokk. Segir í bókuninni að Byggðalistinn skori á stjórnvöld að halda virkjunarkostum í Héraðsvötnum í biðflokki þangað til allir faghópar hafi skilað af sér áliti og vilji einnig að kynningarfundur um niðurstöðurnar verði haldinn fyrir íbúa Skagafjarðar.
Fulltúar meirihlutaflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, í byggðaráði, Gísli Sigurðsson og Einar E Einarsson, fóru aftur á móti ekki leynt með óánægju sína með þau áform að virkjanakostirnir yrðu færðir í verndarflokk. Þeir sögðu í sinni bókun að meirihlutinn mótmælti þessu áformum og vísuðu eins og Jóhanna til þess að þau væru aðeins byggð á niðurstöðum eins af þeim faghópum sem hefði virkjanakosti rammaáætlunar til skoðunar. Ekkert hefði komið fram um niðurstöður hinna faghópanna. Minntu þeir á að faghópi 3 er ætlað samkvæmt lögum að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið og faghópi 4 er ætlað greina hagkvæmni virkjunarkosta og kostnaðarflokka. Gísli og Einar telja þetta til merkis um að málið hafi ekki verið rannsakað eins og lög um verndar- og orkunýtingaráætlun kveði á um.
Gísli og Einar segja enn fremur mikilvægt í ljósi áætlana um orkuskipti að umhverfis-, orku og loftslagsráðherra beiti sér fyrir því að allir virkjunarkostir Héraðsvatna verði skoðaðir ítarlega með hugsanlega nýtingu þeirra í huga.
Segja þeir að einn kosturinn, Skatastaðavirkjun, sé besti virkjunarkostur á Íslandi til að stuðla að raunhæfni markmiðsins um orkuskipti. Segja þeir einnig að á Norðurlandi öllu sé verulegur skortur á orku ásamt því að vegalengdir frá virkjunum hamli meðal annars möguleikum á nýtingu jarðstrengja í uppbyggingu flutningskerfisins á Norðurlandi. Dreifing raforkuvinnslu hafi jákvæð áhrif á flutningskerfi raforku samhliða því að styrkja staðbundið orkuöryggi.
Vísa Gísli og Einar einnig til aukinna jarðhræringa á suðvesturhorni landsins og því sé það þeim mun mikilvægara fyrir þjóðaröryggi að horfa til þess að nýta virkjunarkostina í Héraðsvötnum.
Þessi bókun þeirra er einnig hluti af umsögn byggðaráðs til Alþingis.
Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna og óháðra í byggðaráði var hins vegar algjörlega ósammála meirihlutanum og er ánægð með þau áform að allir virkjunarkostir í Héraðsvötnum verði færðir í verndarflokk.
Í hennar bókun segir meðal annars að Vinstri grænir og óháðir telji að um sé að ræða mikið framfaraskref í átt að náttúruvernd þar sem Héraðsvötn og Vestari-Jökulsá séu ómetanleg náttúruauðlind og mikilvæg fyrir lífríki, ásýnd landsins og samfélagið á svæðinu. Með því að setja þessar virkjanahugmyndir aftur í verndarflokk sé verið að tryggja að svæðið haldi áfram að njóta verndar gegn óafturkræfum inngripum. Fram hafi komið í niðurstöðum faghóps 1 að áhrif virkjana í Héraðsvötnum á umhverfið myndu verða alvarleg.
Í bókuninni er Alþingi að lokum hvatt til þess að samþykkja þessi áform og tryggja að Héraðsvötn fái nauðsynlega vernd til framtíðar.
Umsögn byggðaráðs til Alþingis endar á þessari bókun Álfhildar.
Það er því ljóst að enginn einhugur er um framtíð Héraðsvatna meðal sveitarstjórnarfulltrúa í Skagafirði. Hversu skiptar skoðanir eru um það meðal íbúa skal hins vegar ósagt látið.