Suðaustan við Rauðavatn er svæði sem heitir Almannadalur og tilheyrir Reykjavíkurborg. Í byrjun aldarinnar ákváðu borgaryfirvöld að gera svæðið að framtíðar hestamannasvæði.
Deiliskipulag og aðrar áætlanir gerðu ráð fyrir að þar yrði blómleg og nútímaleg hesthúsabyggð með reiðhöll og ýmsu fleiru. Nokkur fjöldi fólks lagði út í þann kostnað að kaupa byggingarrétt á svæðinu og koma upp hesthúsum en nú um tveimur áratugum síðar má segja að vonir um hina blómlegu hesthúsabyggð séu brostnar.
Aðeins hluti þeirra sameiginlegu innviða sem áttu að vera á svæðinu hefur orðið að veruleika og enn bólar ekkert á reiðhöll. Byggt hefur verið á minnihluta lóða á svæðinu og borið hefur á því að hluti húsanna hafi verið notuð til annars en hestamennsku, í sumum tilfellum glæpsamlegrar starfsemi.
Þeir eigendur hesthúsa í dalnum sem DV hefur rætt við eru ósáttir og uggandi yfir framtíð svæðisins. Óánægjan beinist einkum að forsvarsmönnum hestamannafélagsins Fáks sem fékk svæðinu úthlutað frá Reykjavíkurborg og seldi byggingarrétt á lóðum á svæðinu til eigendanna.
Eigendurnir gera fjölmargar athugasemdir við það hvernig Fákur hefur haldið á málefnum svæðisins og saka félagið um að vanrækja Almannadal og hafa nýtt tuga milljóna króna hagnað af sölu byggingarréttarins í annað en að byggja svæðið upp en því hafi eigendunum verið heitið.
Telja eigendurnir að forsvarsmenn Fáks séu að einblína á svæði félagsins í Víðidal meðal annars vegna ótta við að það svæði fari undir íbúðabyggð á næstu áratugum.
Undanfarið hefur DV freistað þess að fá svör við fjölmörgum fyrirspurnum sem snúa að málefnum Almannadals frá Reykjavíkurborg og Fáki en djúpt virðist vera á sumum þeirra. Til að mynda segist Hjörtur Bergstað formaður Fáks ekki geta svarað því hvað varð um allar milljónirnar sem fengust vegna sölu byggingaréttarins. Ástæðan sé sú að enginn sé eftir í stjórn félagsins frá þeim tíma, en salan fór fram á árunum 2006 og 2008, og að tilheyrandi bókhaldsgögn séu ekki lengur í vörslu félagsins. Hann vísar því alfarið á bug að félagið hafi vanrækt svæðið og beri ábyrgð á ástandi þess. Þvert á móti liggi ábyrgðin hjá þeim sem ekki hafi nýtt byggingarrétt sinn og hafið uppbyggingu hesthúsa á sínum lóðum.
Hesthúsasvæðið í Almannadal er um einn og hálfan kílómetra suðaustan við Rauðavatn, um 200 metra frá Suðurlandsvegi, í landi Reykjavíkur.
Árið 2002 tilkynnti Reykjavíkurborg að svæðið yrði gert að framtíðar athafnasvæði hestamanna í Reykjavík til viðbótar við hestamannasvæðið í Víðidal sem er enn í fullri notkun. Þáverandi Skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar gaf það út að um væri að ræða 66 hektara lands, sem væri álíka stórt og svæðið í Víðidal. Gert var ráð fyrir lítilli reiðskemmu til æfinga og sömuleiðis nokkrum hringgerðum og minnst tveimur tamningargerðum. Þar að auki var gert ráð fyrir félagsheimili í tengslum við reiðskemmuna. Reiknað var sömuleiðis með tveimur völlum, gæðinga- og íþróttavelli. Svæðið var síðan deiliskipulagt sem hesthúsasvæði árið 2003. Áætlað var að lóðir á svæðinu myndu rýma hesthús fyrir samtals um 1400 hesta og sá liður deiliskipulagsins er enn í gildi. Raunin varð hins vegar sú að minnihluti þessa rýmis hefur verið nýttur.
Samkvæmt heimildarmönnum DV sem eru vel kunnugir málefnum Almannadals hafa í dag, 22 árum eftir að fyrsta deiliskipulagið fyrir svæðið tók gildi, aðeins verið byggð hesthús í Almannadal fyrir um 300 hross. Uppbygging svæðisins hefur því gengið mun hægar en stefnt var að í upphafi. Geta skal þess þó að samkvæmt heimildum DV hefur á síðustu vikum vinna hafist við uppbyggingu á tveimur lóðum á svæðinu sem ekkert hefur verið byggt á fram að þessu.
Heimildarmenn DV segja að skortur á reiðhöll eða reiðskemmu eigi töluverðan þátt í hversu hæg uppbyggingin hefur verið. Í hestamennsku í dag er almennt lögð áhersla á að slík mannvirki verði að vera til staðar á skilgreindum hestmannasvæðum, meðal annars til að hægt sé að hafa aðstöðu fyrir æfingar og keppni innandyra og til að bjóða upp á námskeið til að ýta undir nýliðun. Alveg frá upphafi hesthúsabyggðarinnar í Almannadal hefur verið gert ráð fyrir að byggð yrði reiðskemma eða reiðhöll á svæðinu.
Í deiliskipulaginu frá 2003 var auk reiðhallar gert ráð fyrir gæðingavelli, vallarhúsi í tengslum við hann, tamningagerði, hringgerði, félagsaðstöðu og beitarhólfi. Sumt af þessu hefur verið byggt upp á endanum, en ekki allt og uppbyggingin hefur gengið misvel og mishratt.
Gremst eigendum hesthúsa í Almannadal það sérstaklega að engin reiðhöll eða reiðskemma skuli enn vera risin. Auk áðurnefndra ástæðna fyrir nauðsyn slíks mannvirkis vísa þeir til kostnaðar og fyrirhafnar við að flytja hesta frá Almannadal yfir í reiðhöllina í Víðidal sem er næsta mannvirki af þessu tagi vilji þeir nota slíka aðstöðu.
Eigendur hesthúsa í Almannadal hafa lagt allt upp í tugi milljóna króna í uppbyggingu hesthúsa sinna til viðbótar við kostnað við að kaupa byggingarrétt á lóðum í dalnum af hestamannafélaginu Fáki. Samkvæmt heimildum DV telja eigendurnir það forsendu fyrir því að svæðið byggist upp af meiri krafti að þar komi reiðhöll eða reiðskemma. Sumir þeirra eru sagðir hafa beinlínis lagt út í allan þennan kostnað í trausti vilyrða fyrir því að slík aðstaða yrði byggð upp á svæðinu. Munu þessir aðilar telja sig hafa orðið fyrir forsendubresti. Heimildarmenn DV segja að þegar þrýst hafi verið á um það við forystumenn Fáks að beita sér af auknum krafti fyrir því að reiðhöll eða skemma verði byggð á svæðinu sé svarið að of fáir séu með hesta á svæðinu. Hinir ósáttu hesthúsaeigendur og aðrir lóðarhafar vilja hins vegar meina að verði slíkt húsnæði byggt muni það ýta undir að fleiri sækist eftir því að byggja upp hesthús á svæðinu.
Samkvæmt heimildum DV hafa eigendur byggingarréttar sem ekki hafa lagt út í að byggja hesthús komið því á framfæri á fundum að þeir muni gera það verði reiðhöll eða reiðskemma á svæðinu að veruleika.
Nauðsyn reiðhallar eða skemmu fyrir framtíð hestamannasvæðisins í Almannadal hefur verið ítrekuð reglulega við forsvarsmenn Fáks í bæði munnlegu og skriflegu formi. Meðal annars í skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal frá 2021 sem DV hefur undir höndum.
Úr skýrslunni má í raun lesa að vegna hægagangsins við uppbygginguna hafi væntingar þeirra og vonir um það sem svæðið átti að verða fyrir hestamenn ekki ræst og í raun brostið.
Í svörum Hjartar Bergstað formanns Fáks við fyrirspurn DV er hins vegar allri ábyrgð á því að aðeins hafi verið byggt á minnihluta lóða í Almannadal vísað á þá byggingarréttarhafa sem hafa ekki byggt neitt.
Hér fyrir neðan má sjá mynd af bílastæði sem gert hefur verið við lóð í Almannadal þar sem reiðhöll átti að vera og fyrir neðan stæðið má sjá glitta í lóðina.
Meðal afleiðinga þessa hægagangs er að svæðið hefur að hluta til þróast út í að vera allt annað en hesthúsabyggð sem það á að vera samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Í skýrslunni er því lýst hvernig sum húsin sem byggð hafa verið á svæðinu hafa ekki verið notuð fyrir hesta heldur til útleigu til fólks sem kemur ekkert nálægt hestamennsku. Þetta er í raun mögulegt vegna þess að þegar öll húsin voru byggð höfðu kröfur yfirvalda til hesthúsa breyst í þá átt að þau séu það vel byggð að þau séu íbúðarhæf fyrir mannfólk.
Í skýrslunni er því lýst hvernig ýmis vandamál hafa skapast á svæðinu vegna útleigu á sumum húsanna til ógæfufólks sem hefur nýtt þau meðal annars sem geymslur undir þýfi og í vændisstarfsemi. Einnig hafa hús verið leigð út til farandverkamanna. Í skýrslunni segir að margoft hafi þurft að hafa samband við lögreglu, slökkvilið og byggingarfulltrúa. Það sem ýti einnig undir þessa þróun sé hinn sífelldi skortur á leiguhúsnæði sem ríkjandi sé á höfuðborgarsvæðinu sem stuðli að áframhaldandi leigu til þeirra sem ekki séu í hestamennsku. Fjögur ár eru frá því að skýrslan var gerð en samkvæmt heimildum DV hefur lítið breyst til hins betra í þessum efnum síðan þá.
Árið 2006 úthlutaði Reykjavíkurborg Fáki byggingarrétti fyrir hesthús í Almannadal. Félagið réðst þegar í útboð á byggingarrétti þar sem aðeins félagar gátu tekið þátt. Útboðið fór fram í tveimur áföngum. Sá fyrri fór fram vorið 2006 en sá seinni í upphafi árs 2008. Verðið sem þurfti að greiða fyrir byggingarréttinn var til að mynda í fyrri áfanganum rúmlega 1,5 milljónir króna, á verðlagi dagsins í dag, fyrir byggingarrétt vegna 6 hesta húss og í seinni áfanganum allt upp í tæpar 15 milljónir króna, á verðlagi dagsins í dag, fyrir byggingarrétt á húsi sem rúmar 42 hesta.
Vel gekk að selja byggingarréttinn og var eftirspurn meiri en framboð og því þurfti að draga úr umsóknum.
Samkvæmt skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal og heimildarmönnum DV, hefur gengið brösuglega að fá nákvæmar upplýsingar um hversu mikið fé Fákur fékk í heild sinni fyrir söluna á byggingarréttinum.
Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að samkvæmt upplýsingum sem fengist hafi frá fyrrum stjórnarmönnum í Fáki hafi, eftir að búið var að greiða allan kostnað, annar áfangi sölunnar á byggingarréttinum skilað félaginu upphæð sem nam um 52 milljónum króna, á verðlagi þess tíma, en nemur rúmlega 115 milljónum króna á verðlagi dagsins í dag. Þá er ótalið það sem fékkst úr fyrsta áfanganum en upplýsingar liggja ekki fyrir um hvað hann skilaði félaginu háum upphæðum.
Margir hesthúsaeigendur töldu að þessir peningar yrðu nýttir í sameiginlega aðstöðu fyrir hestamenn í Almannadal en telja það ljóst að það hafi ekki raungerst. Þvert á móti telja heimildarmenn DV og það kemur einnig fram í áðurnefndri skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal að peningarnir hafi verið notaðir í almennan rekstur Fáks og uppbyggingu á hesthúsasvæðinu í Víðidal.
Það eru hesthúsaeigendurnir verulega ósáttir við enda töldu þeir sig hafa munnlega vissu, frá þáverandi forsvarsmönnum Fáks, og skriflega vissu, í útboðsskilmálum félagsins og eignaskiptasamningum, fyrir því að féð sem þeir inntu af hendi, fyrir byggingarréttinn, yrði nýtt í að byggja upp sameiginlega aðstöðu í Almannadal eins og til að mynda reiðhöll.
Eins og áður segir óskaði DV eftir svörum frá Reykjavíkurborg og Fáki við þeim fjölda spurninga sem vakna vegna stöðunnar í Almannadal og þeirra fjölmörgu athugasemda sem gerðar hafa verið við málefni svæðisins.
Athygli vekur að í svörum borgaryfirvalda kemur fram að Reykjavíkurborg veit ekki hversu miklir peningar sátu eftir hjá Fáki eftir sölu félagsins á byggingarréttinum á svæðinu.
Það er enn athyglisverðara að forsvarsmenn Fáks geta ekki svarað því í hvað peningarnir sem salan skilaði félaginu fóru. DV óskaði eftir svörum frá Hirti Bergstað, formanni Fáks, um afdrif þeirra og voru svörin eftirfarandi:
„Það er langt um liðið og þar sem geymsluskylda bókhaldsgagna er 7 ár eru þessi gögn ekki lengur til í fórum félagsins. Enginn af núverandi stjórnarmönnum var í stjórn félagsins á þeim tíma sem þessar úthlutanir fóru fram.“
Almennt eru eigendur hesthúsa í Almannadal, sem DV ræddi við, á því að forsvarsmenn Fáks hafi einblínt á uppbyggingu í Víðidal og Almannadalur setið á hakanum. Ástæðan sé sú að þegar leigusamningar hesthúsa í Víðidal renna flestir út árið 2045 þá óttist forsvarsmenn Fáks að borgarkerfið freistist til þess að nýta svæðið undir íbúðabyggð.
Samkvæmt svari frá Reykjavíkurborg hefur engin ákvörðun verið tekin um breytta nýtingu svæðisins en það slær þó ekki á áhyggjuraddir hesthúsaeigenda í Víðidal.
Ljóst virðist einnig að áframhaldandi óvissa um hvað nákvæmlega varð um áðurnefnda fjármuni sem sala á byggingarréttinum í Almannadal skilaði Fáki muni ekki sefa óánægjuraddir hesthúsaeigenda á svæðinu. Eftir sem áður bólar sömuleiðis ekkert á reiðhöll eða reiðskemmu sem þeir telja mikilvægustu forsendu þess að svæðið blómstri og verði að því blómlega hestamannasvæði sem væntingar stóðu til í upphafi en hafa ekki orðið að veruleika.